Einelti er enn allt of algengt í skólum og á vinnustöðum þrátt fyrir að mikil vinna hafi verið lögð í að vinna gegn því á undanförnum árum. Dagurinn í dag, 8. nóvember, hefur verið tileinkaður baráttunni gegn einelti.
Vinnueftirlitið skilgreinir einelti sem síendurtekin neikvæð samskipti sem eru til þess fallin að valda vanlíðan. Dæmi um einelti er til dæmis ítrekuð gagnrýni og niðurlæging, særandi orð eða athugasemdir, baktal, slúður, sögusagnir og útilokun auk almennt móðgandi eða særandi samskipta.
Á vinnustöðum geta gerendur í eineltis- og ofbeldismálum verið aðrir starfsmenn, yfirmenn eða utanaðkomandi aðilar sem tengjast vinnustaðnum með einhverjum hætti.
Vinnustöðum er uppálagt að vera með skýrar leiðbeiningar fyrir starfsfólk um hvernig hægt er að tilkynna um óviðeigandi hegðun, hvort sem um er að ræða einelti, kynbundna eða kynferðislega áreitni eða ofbeldi.
Almennt eiga starfsmenn að tilkynna um slíkt til næsta yfirmanns, mannauðsstjóra eða annarra stjórnenda. Það þarf ekki að vera fórnarlambið sem lætur vita, ef einhver verður vitni að óviðeigandi hegðun ætti hann að láta vita af því án tafar. Stjórnendurnir eiga svo að bregðast við og sjá til þess að óviðeigandi hefðun endurtaki sig ekki.
Þjóðarsáttmáli gegn einelti
Stór hópur félagasamtaka, þeirra á meðal BSRB, skrifuðu árið 2011 undir þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti. Sáttmálinn er svohljóðandi:
BSRB hefur beitt sér í þessum málaflokki á undanförnum árum, enda baráttan gegn einelti á vinnustöðum bandalaginu og aðildarfélögum þess sérlega hugleikin. Bandalagið stóð, ásamt fleirum, að útgáfu bæklings um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sem öllum er hollt að fletta.
Vinnueftirlitið hefur einnig gefið út leiðbeiningar fyrir stjórnendur, mannauðsráðgjafa og vinnuverndarfulltrúa um einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sem er ætlað að leiðbeina og styðja stjórnendur og aðra á vinnustöðum til að fyrirbyggja óviðeigandi hegðun. Þá hefur Vinnueftirlitið gefið út sambærilegar leiðbeiningar sem ætlaðar eru starfsfólki.