Mikið var fjallað um fjölskylduvænar áherslur á nýafstöðnu þingi BSRB. Að lokinni setningarræðu Elínar Bjargar Jónsdóttur formanns BSRB tók fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson til máls. Undir lok ávarp síns afhenti hann formanni BSRB yfirlýsingu þar sem stjórnvöld lýsa vilja til þess að kanna með tilraunaverkefni hvort unnt sé að stytta vinnutíma án launaskerðingar og ná fram gagnkvæmum ávinningi starfsfólks og stofnana.
Markmið tilraunaverkefnisins verður að kanna hvort stytting vinnuviku úr 40 vinnustundum á viku niður í 36 stundir leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi stofnana. Sérstaklega verður skoðað hvernig útfæra megi styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þar á meðal á stofnunum þar sem unnin er vaktavinna. BSRB hefur barist fyrir því að stytta vinnutíma síðustu ár og því er um merkan áfanga að ræða.
Á þingi BSRB var eins og áður sagði mikið fjallað um leiðir til að gera samfélag okkar fjölskylduvænna og var stytting vinnutíma gjarnan nefnd í því samhengi. Í ályktun þings BSRB segir jafnframt að framtaki ríkisstjórnarinnar með umræddu tilraunaverkefni sé fagnað og aðrir atvinnurekendur eru hvattir til að taka framtakið sér til fyrirmyndar. Þar var einnig fjallað um mikilvægi þess að efla Fæðingarorlofssjóð og lengja orlofstímann, brúa svokallað umönnunartímabil og vinna bug á kynbundnum launamun.
Ályktun 44. þings BSRB um fjölskylduvænna samfélag má sjá hér að neðan.
Ályktun 44. þings BSRB um fjölskylduvænna samfélag
44. þing BSRB krefst þess að unnið verði markvisst að því að vinnuvika verði stytt í 36 stundir og vinnutími vaktavinnufólks verði jafnframt styttur sérstaklega. BSRB fagnar framtaki Reykjavíkurborgar og ríkisstjórnar Íslands um samstarf við bandalagið með tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar. Aðrir atvinnurekendur eru jafnframt hvattir til að taka framtakið sér til fyrirmyndar.
44. þing BSRB krefst þess að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði og hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi verði hækkaðar verulega og fæðingarstyrkur verði aldrei undir lágmarkslaunum. Þannig megi endurvekja nauðsynlega þátttöku feðra í fæðingarorlofi með börnum sínum sem hefur minnkað um 20% frá 2008. Mikilvægt er að tryggja að röskun á tekjum heimilis verði sem minnst vegna fæðingarorlofs svo markmið fæðingarorlofslaga um að barn njóti samvista við báða foreldra sína nái fram að ganga og báðum foreldrum verði gert kleift að samræma fjölskyldulíf sitt og atvinnuþátttöku. Þá þarf að tryggja veikindarétt í fæðingarorlofi líkt og er í sumarorlofi.
44. þing BSRB lítur á það sem algert forgangsmál stjórnvalda að brúa umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða þannig að öllum börnum verði tryggt leikskólapláss sem henti þörfum fjölskyldna að loknu lengdu fæðingarorlofi.
44. þing BSRB krefst þess að starfsfólki á vinnumarkaði verði gert auðveldara að samþætta fjölskyldulíf og atvinnu með því að auka sveigjanleika í starfi m.a. til að sinna umönnun barna og aldraðra foreldra. Þá þarf einnig að tryggja rétt fólks til töku vetrarorlofs til að koma til móts við vetrarorlof í skólum. Mikilvægt er að atvinnurekendur axli ábyrgð og stjórnvöld, fulltrúar atvinnulífs og skóla komi í veg fyrir síendurtekna árekstra vegna vetrarfría, sumarlokana og starfsdaga í skólum.
44. þing BSRB krefst þess að viðsemjendur aðildarfélaga bandalagsins leiðrétti hið fyrsta kynbundinn launamun sem staðfestur hefur verið í ótal könnunum. Lyfta þarf hulunni af launasetningu inn á vinnustöðum og gera stjórnendur ábyrga fyrir launajafnrétti í reynd.
Bandalagið leggur áherslu á að viðsemjendur þess innleiði jafnlaunastaðal til að tryggja að launasetning sé unnin með jafnréttissjónarmið í forgrunni. Þetta eru brýn kjara- og réttlætismál, enda löngu sannað að launajafnrétti er bæði félagslegur og efnahagslegur ávinningur fyrir samfélagið í heild.
Reykjavík 30. október 2015