Ályktun stjórnar BSRB um ríkisfjármál

Stjórn BSRB samþykkti ályktun um ríkisfjármál á fundi sínum á Egilsstöðum í dag. Þar er m.a. brýnt fyrir stjórnvöldum að frekari aðhaldsaðgerðir hjá hinu opinbera muni hafa mjög neikvæðar afleiðingar í för með sér og vinna gegn markmiðum stjórnvalda um að ná fram jöfnuði í ríkisrekstrinum.

Einnig segir í ályktuninni að komi til þess að ríkisstjórnin auki enn á á byrðar almennings til að mæta tekjumissi muni það magna vandann sem ríkissjóður standi frammi fyrir, valda auknu atvinnuleysi og skila þeim sem mest þurfa á hjálp að halda lakari þjónustu.

Ályktunina í heild sinni má nálgast hér að neðan og í meðfylgjandi skjali.

 

Ályktun stjórnar BSRB um ríkisfjármál                                                                                                   

Stjórn BSRB brýnir fyrir ríkisstjórninni að frekari aðhaldsaðgerðir hjá hinu opinbera muni hafa mjög neikvæðar afleiðingar í för með sér og vinna gegn markmiðum stjórnvalda um að ná fram jöfnuði í ríkisrekstrinum.

Aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar fram til þessa hafa aukið mjög á halla ríkissjóðs. Furðulegt hefur verið að sjá ríkisstjórnina hafna milljarða tekjustofnum á sama tíma og hún lýsir yfir þungum áhyggjum af bágri stöðu ríkisfjármálanna. Ljóst þykir að aðhald þurfi að sýna á öðrum sviðum til að mæta þessu tekjutapi og hefur sérstakur hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar leynt og ljóst lagt á ráðin um hvernig það skuli gert.

Það er ekki verjandi fyrir ríkisstjórn sem var kosin til valda út á loforð um aðgerðir í þágu heimilanna að ætla að mæta tekjutapi ríkissjóðs vegna eftirgjafa til hinna efnamestu með frekari niðurskurði til mennta-, heilbrigðis-, löggæslu- og velferðarmála. Frá efnahagshruni hefur almennt launafólk – þrátt fyrir verri vinnuaðstæður, aukið álag og skertan kaupmátt – lagt á sig ómælt erfiði til að halda úti velferðarþjónustu fyrir sívaxandi fjölda fólks sem á þjónustunni þarf að halda.

Ríkisstjórnin hefur lítið gefið uppi um hvernig hún hyggst endurskipuleggja ríkisfjármálin. Stjórn BSRB óttast að það verði gert með því að auka enn á byrðar almennings á Íslandi sem létt hefur verið af þeim sem mest hafa. Slíkar aðgerðir munu aðeins magna vandann, valda auknu atvinnuleysi og skila þeim sem mest þurfa á hjálp að halda lakari þjónustu með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina alla til lengri og skemmri tíma litið.

Stjórn BSRB varar eindregið við frekari niðurskurði á opinberri þjónustu og ítrekar að eitt af helstu stefnumálum bandalagsins er að standa vörð um almannaþjónustuna. BSRB mun áfram fylgjast vel með framvindu ríkisfjármálanna og bregðast við ef þörf krefur.

 

Egilsstöðum, 6. september 2013

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?