Ályktun stjórnar BSRB um lífeyrismál

Nýverið samþykkti stjórn BSRB ályktun um lífeyrismál. Þar er því mótmælt að ekki sé gert ráð fyrir því á fjárlögum að ríkið greiði inn á skuldbindingar sínar við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Einnig kemur fram í ályktuninni að ítrekað hafi fulltrúar opinberra starfsmanna í stjórn LSR lagt það til að iðgjöld í A-deild sjóðsins verði hækkuð. Bæði Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið hafa margsinnis sagt að hækkun iðgjalda sé nauðsynleg svo sjóðurinn geti staðið undir framtíðarskuldbindingum sínum. Fulltrúar opinberra starfsmanna í stjórn LSR lögðu slíka hækkun síðast til á stjórnarfundi LSR í september. Líkt og áður var tillagan felld af fulltrúum fjármálaráðuneytisins í stjórn sjóðsins.

Ályktun stjórnar BSRB um lífeyrismál má sjá í heild sinni hér að neðan.

 

Ályktun stjórnar BSRB um lífeyrismál                                                                                                                  

Stjórn BSRB mótmælir því að ríkisstjórnin ætli ekki að hefjast handa við að greiða inn á skuldir sínar við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins á komandi fjárlagaári. Vandi sjóðsins hefur verið ljós í áraraðir og hann mun aðeins magnast á meðan ekkert er að gert. Þrátt fyrir það virðist áframhaldandi aðgerðaleysi vera helsta stefna stjórnvalda í málinu.

Fulltrúar fjármálaráðuneytis í stjórn LSR hafa ávallt hafnað tillögum fulltrúa opinberra starfsmanna um að hækka iðgjöld í A-deild sjóðsins. Það hafa þeir gert þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins um nauðsyn þess. Stjórn BSRB krefst þess að stjórnvöld hækki þegar iðgjald hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Öðruvísi er sjóðurinn ekki fær um að standa við skuldbindingar til sjóðsfélaga sinna í framtíðinni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?