Ályktun aðalfundar BSRB um kjaramál

Aðalfundi BSRB lauk nú síðdegis. Þar var m.a. samþykkt ályktun sem fjallar um kjaramál og sérstaklega þá kjaradeilu sem tvö af aðildarfélögum BSRB, Sjúkraliðafélag Íslands og SFR, standa í við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Ályktunin er svo hljóðandi:

Ályktun aðalfundar BSRB um kjaramál

Aðalfundur BSRB krefst þess að þegar verði gengið frá kjarasamningum við þau aðildarfélög bandalagsins sem hafa lausa samninga við stofnanir innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Aðalfundur BSRB krefst þess einnig að SFV komi með raunverulegan samningsvilja að samningaborðinu í stað þess að nota verkföll hjá stofnunum sínum sem skiptimynt í deilum sínum um fjárveitingar við stjórnvöld.

Réttindi starfsmanna stofnana í velferðarþjónustu voru um áratugaskeið í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Síðustu ár hafa nokkrar stofnanir innan SFV hætt að viðurkenna þau réttindi og harmar aðalfundur BSRB að allar stofnanir viðurkenni ekki lengur sjálfsögð og eðlileg réttindi starfsmanna sinna. Breyting á viðhorfi SFV til réttinda opinberra starfsmanna sem starfa hjá stofnunum SFV myndi greiða fyrir gerð nýrra kjarasamninga milli aðildarfélaga BSRB og SFV.

 

Endurskoða þarf rekstrarform sjálfseignarstofnana

Aðalfundur BSRB telur jafnframt að endurskoða þurfi rekstrarfyrirkomulag svonefndra sjálfseignarstofnana sem sinna velferðarstöfum. Sjálfseignarstofnanir sem sinna velferðarþjónustu, t.d. Grund, Hrafnista, Sunnuhlíð, Sóltún og Eir, gegna mikilvægu hlutverki innan heilbrigðiskerfisins og eru fjármagnaðar með opinberu fé.

Velferðarmál eru á ábyrgð ríkisins en með núverandi rekstrarfyrirkomulagi sjálfseignarstofnana er ríkið að fría sig ábyrgð á rekstri þeirra. Á meðan SFV viðurkennir ekki sjálfssögð réttindi starfsmanna sinna og ríkið axlar ekki ábyrgð á því hvernig stofnanirnar eru reknar er augljóst að rekstrarfyrirkomulagið gengur ekki upp.

Aðalfundur BSRB gerir þá kröfu að SFV viðurkenni tafarlaust að réttindi sambærileg lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi um félagsmenn opinberra stéttarfélaga sem starfa hjá stofnunum SFV. Jafnframt að rekstrarfyrirkomulag stofnanna SFV verði endurskoðað svo skýrt verði að ábyrgð á rekstri þeirra sé fyrst og síðast hjá ríkinu.

Ályktun aðalfundar BSRB um kjaramál og vinnudeilu við SFV


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?