Setningarávarp formanns á 45. þingi BSRB

Skoðun
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Opnunarávarp Elínar Bjargar Jónsdóttur, formanns BSRB, á 45. þingi bandalagsins

Kæru félagar.

Verið velkomin á 45. þing BSRB.

Yfirskrift þingsins að þessu sinni er „Bætt lífskjör – betra samfélag“. Á því grundvallast starfið okkar hjá BSRB. Við viljum gera allt sem við getum til að bæta lífskjör launafólks og til að bæta samfélagið okkar. Við höfum allar forsendur til að vera gott samfélag. Við búum í ríku landi með verðmætum auðlindum en einhverra hluta vegna gengur erfiðlega að skipta gæðunum með sanngjörnum hætti. Þeir sem lægst hafa launin ná ekki endum saman á meðan þeir sem best hafa það eru með mánaðarlaun á við árslaun almenns launafólks.

Stefna BSRB, mörkuð á þingum undanfarin ár og áratugi, er sú að stuðla að jöfnuði og réttlæti í samfélaginu. Við viljum styrkja almannaþjónustuna, við viljum þétta öryggisnetið og tryggja að allir eigi þar jafnan rétt, óháð efnahag. Við viljum gera fólki kleift að koma þaki yfir höfuðið og búa við húsnæðisöryggi. Við viljum tryggja jafnrétti, eyða kynbundnum launamun og standa við bakið á barnafjölskyldum.

Velferðarsamfélagið byggir á gildum samtryggingar og jafnaðar. Það eru gildin sem hafa fylgt BSRB í gegnum tíðina og það eru gildi sem við munum vonandi hafa meðferðis í vinnu okkar á þessu þingi.

Kalla eftir samfélagslegri ábyrgð stjórnenda

Um þessar mundir minnumst við þess að liðin eru tíu ár frá bankahruni. Þau tímamót eru mér eins og öðrum minnisstæð. Rúmlega ári eftir hrunið var ég kjörin formaður BSRB og framundan var mesti niðurskurður í almannaþjónustunni sem sést hafði. Þetta þýddi auðvitað að verkalýðshreyfingin varð að sætta sig við ýmislegt sem við hefðum ekki gert hefði staðan verið betri. Það gerðum við til að koma samfélaginu út úr þessum ógöngum, og af því getum við verið stolt.

Áhersla BSRB í hruninu var að verja störfin og berjast fyrir því að almannaþjónustan gæti áfram sinnt sínu mikilvæga hlutverki. Það var gríðarmikið álag á starfsfólk hennar. Það voru færri hendur að vinna að erfiðari verkefnum en nokkru sinni fyrr. Alstaðar vantaði fjármagn inn í mikilvægan rekstur, allt var skorið niður. Áhersla BSRB var ekki síður á að tryggja að launuð störf sem höfðu verið á höndum samfélagsins færðust ekki inn á heimilin sem ólaunuð umönnunarstörf í höndum kvenna.

Það sem hrunið sýndi fram á var að þegar á reyndi voru allir tilbúnir að leggjast á árarnar. Við vorum öll tilbúin til að gera okkar besta, finna lausnir og koma samfélaginu út úr þessum gríðarlega vanda sem við stóðum frammi fyrir. Eftir því sem tíminn líður frá hruninu sjáum við að þessi samhugur virðist vera að hverfa. Við sjáum svo nú að stjórnendur margra stórra fyrirtækja virðast ekkert hafa lært af hruninu, annað en kannski að senda ekki viðkvæmar upplýsingar í tölvupósti.

Þeir virðast enn halda að það sé ásættanlegt að greiða stjórnendum háa bónusa fyrir það eitt að sinna sínum störfum. Bónusa sem leggjast ofan á laun langt umfram það sem venjulegt launafólk getur látið sér detta í hug. Stjórnvöld hafa svo fylgt eftir með gríðarlegar launahækkanir æðstu stjórnenda.

Það er þetta sem sýnir okkur svart á hvítu að það eru ekki allir að róa í sömu átt í samfélaginu. Á meðan sumir vilja bæta hag samfélagsins alls, hugsa aðrir um það eitt að skara eld að eigin köku.

BSRB kallar eftir samfélagslegri ábyrgð stjórnenda í atvinnulífinu. Það verður aldrei sátt í okkar samfélagi á meðan bætt kjör og betri lífsgæði eiga bara við um suma en ekki alla.

Göngum út eftir viku

Við sjáum líka að gæðunum er misskipt í okkar samfélagi. Myndin hér á bak við mig er tekin á útifundi í kvennafríinu í nóvember 2016. Þá gengu konur út í fimmta skipti frá árinu 1975 til að krefjast þess að kynbundnum launamun verði eytt.

Þó að eitthvað hafi miðað í rétta átt eigum við enn langt í land. Miðað við þróunina síðustu ár má áætla að kynbundnum tekjumun verði útrýmt árið 2047. Eftir 29 ár. Það er augljóslega óásættanlegt og við þurfum að herða okkur verulega í baráttunni.

Boðað hefur verið til kvennafrís eftir viku, 24. október. Þá ætla konur að ganga út af vinnustöðum klukkan 14:55 og sækja samstöðufund á Arnarhóli, til að mótmæla þessu misrétti og krefjast þess að konur séu óhultar í vinnunni og heima. Ég vona að við verðum öll þar, eða á samstöðufundum um landið allt.

Enginn þurfi að segja #metoo

Jafnréttismál hafa verið ofarlega í huga margra undanfarið. Við lögðum öll við hlustir þegar þolendur kynferðisofbeldis og áreitni stigu fram í #metoo byltingunni. Þar sáum við svart á hvítu hjá þessum hugrökku konum hver staðan raunverulega er. Og við fengum rækilega áminningu um að það er okkar að breyta henni.

#metoo konurnar hafa skilað skömminni þangað sem hún á heima. Við eigum að hlusta á þær og bregðast við. Það er engin þolinmæði fyrir þessari hegðun lengur og við ætlum að stöðva hana. Ekki á næsta ári, ekki í næstu viku heldur núna, strax.

Við sem sitjum þing BSRB erum mörg hver í lykilstöðu til að ráðast að rótum vandans. Stéttarfélögin og heildarsamtök þeirra eiga að standa vörð um rétt launafólks til að sinna sínu starfi án þess að verða fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.

Það er mín bjargfasta trú að #metoo byltingin muni leiða til löngu tímabærra breytinga á samfélaginu okkar. Ég hef einnig trú á því að samtök launafólks muni fylgja því fast eftir að svo verði. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að í framtíðinni þurfi enginn að segja #metoo.

Félagslegur stöðugleiki lykillinn

Það eru víða blikur á lofti í samfélaginu. Við sem vinnum að bættum kjörum launafólks þurfum nú sem endranær að vera með marga bolta á lofti. En við verðum líka að velja hvaða mál við ætlum að setja í forgang hverju sinni. Það er einmitt þess vegna sem það eru svo mikil verðmæti fólgin í þingi BSRB sem mótar stefnu bandalagsins. Hér setjum við stefnuna og ákveðum hvert við eigum að beina kröftum okkar á næstunni.

Ef ég væri beðin um að skýra hvað er það mikilvægasta sem BSRB hefur beitt sér fyrir undanfarið, félögum okkar allra til hagsbóta, er svarið einfalt. Tvö orð. Félagslegur stöðugleiki. Fyrir mér er algerlega skýrt hvað felst í þessum orðum. Ég get lokað augunum og séð með skýrum hætti hvað félagslegur stöðugleiki er. En þrátt fyrir að mikið sé talað um þörfina fyrir stöðugleika á vinnumarkaði hefur ekki alltaf gengið vel að koma því til skila hvers vegna efnahagslegur stöðugleiki verður aldrei mögulegur án félagslegs stöðugleika.

Félagslegur stöðugleiki snýst um að búa launafólki félagslegt öryggi. Launafólk verður að hafa svigrúm til að mæta afleiðingunum af slysum, veikindum eða atvinnumissi. Það verður að geta eignast börn og komið þaki yfir höfuðið. Í því felst líka að tryggja öldruðum og öryrkjum lífeyri svo þeir geta lifað mannsæmandi lífi. Einnig að tryggja öryggi fólks með öflugri löggæslu, slökkviliði, sjúkraflutningum og tollgæslu.

Þegar launafólk upplifir ekki félagslegt öryggi verður enginn stöðugleiki á vinnumarkaði. Á það höfum við hjá BSRB lagt þunga áherslu í öllum samskiptum við stjórnvöld og aðra viðsemjendur okkar.

Gerum samfélagið fjölskylduvænt

Yfirskrift þingsins, „Bætt lífskjör – betra samfélag“, er lýsandi fyrir áherslur BSRB. Við viljum öll bætta lífskjörin fyrir okkar félagsmenn og landsmenn alla. Við viljum líka bæta samfélagið. Það sem við þurfum að ákveða er hvernig við vinnum að þessum mikilvægu málum.

Öll höfum við orðið vör við þær breytingar sem eru að verða á samfélaginu. Flestar eru þær breytingar til góðs, en gegn öðrum þurfum við að sporna. Til dæmis finnum við eflaust flest fyrir auknum hraða í samfélaginu. Allir eiga að hlaupa hraðar, gera meira, fylgjast með öllu, vera til taks með síma og tölvupóst, helst allan sólarhringinn. Við höfum líka skynjað streituna og áhrif hennar á líkama og sál sem virðist verða meiri með hverju árinu sem líður.

Hér þurfum við að staldra við og spyrja okkur hvort við erum sátt við þessa þróun. Erum við á réttri leið sem samfélag? Ef svarið er nei þurfum við að finna leiðina út úr ógöngunum.

Sú leið sem við hjá BSRB höfum unnið að er aukin áhersla á að gera samfélagið fjölskylduvænt. Við vinnum að því að gera launafólki kleift að samræma einkalíf og atvinnu betur en hingað til hefur verið hægt. Við viljum samfélag sem byggir á jöfnum tækifærum fyrir alla.

Hálfrar aldar gamalt skipulag

Eitt af stóru verkefnunum okkar er vinnutíminn. Á Íslandi hefur það lengi verið talið jákvætt að vinna mikið. Að vera dugleg. En við vitum það líka að margir þurfa að vinna langan vinnudag, taka þá yfirvinnu sem býðst og jafnvel vera í fleiri en einni vinnu til að sjá sér og sínum farborða. Við því þarf að bregðast með því að hækka lægstu launin svo þau dugi til að lifa mannsæmandi lífi. Ef við sem samfélag getum ekki náð saman um það er illa fyrir okkur komið.

Í dag vinnum við eftir nærri hálfrar aldar gömlu skipulagi. Það eru næstum 50 ár frá því ákveðið var á Alþingi að vinnuvikan skyldi vera 40 stundir. Öll vitum við hversu gríðarlegar breytingar hafa orðið á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu á þessum 50 árum. Við sjáum afleiðingarnar af þessu vinnufyrirkomulagi alla daga. Við þekkjum streituna og álagið, könnumst við veikindin, kulnun í starfi og aukna örorku. Við vitum líka að leikskóladagurinn er lengri hjá íslenskum börnum en á hinum Norðurlöndunum. Er það þetta sem við viljum? Við vinnuna bætast svo ólaunuð störf við að halda heimili og annast börn sem lenda að mestu leyti á herðum kvenna.

40 stunda vinnuvikan er ekkert lögmál. Í áratugi hefur BSRB beitt sér fyrir því að vinnuvikan verði stytt í 36 stundir. Og okkur hefur orðið býsna vel ágengt. Tilraunaverkefni með Reykjavíkurborg og ríkinu hafa skilað verðmætum niðurstöðum sem hægt er að byggja á. Við höfum líka náð eyrum launafólks utan BSRB. Nú er staðan sú að þegar kannað er hvaða mál launafólk í ólíkum stéttarfélögum vill leggja áherslu á í komandi kjarasamningum er stytting vinnuvikunnar alltaf eitt af stóru málunum.

BSRB hefur verið leiðandi í allri vinnu tengdri styttingu vinnuvikunnar. Nú reynir á að fylgja henni fast eftir.

Verjum heilbrigðiskerfið

Húsnæðismálin eru annar málaflokkur sem við ætlum að taka fyrir á þinginu. Ég tel það hafa verið mikið gæfuskref þegar BSRB gekk til liðs við félaga okkar hjá Alþýðusambandi Íslands og tók þátt í því að stofna Bjarg íbúðafélag. Hlutverk félagsins er að leigja tekjulægri félagsmönnum okkar íbúðir til langs tíma á sanngjörnum kjörum.

Það eitt og sér leysir ekki vanda húsnæðismarkaðarins. Það þarf áframhaldandi þrýsting á stjórnvöld til að þau taki fleiri skref í þessa átt. Það má til dæmis gera með því að liðka fyrir stofnun íbúðafélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Þá þarf einnig að styðja við bakið á þeim sem standa í íbúðarkaupum.

Við þurfum líka að halda áfram varnarbaráttu okkar fyrir íslenska heilbrigðiskerfið. Hagsmunaaðilar þrýsta nú fast á stjórnvöld að einkavæða meira, þvert á vilja þjóðarinnar. Þar verður áfram verk að vinna við að fylgja eftir stefnu BSRB til áratuga. Við viljum að heilbrigðiskerfið verði áfram rekið af hinu opinbera, fyrir skattfé landsmanna.

Nýtum samtakamáttinn

En við erum ekki bara að einblína á þau mikilvægu mál sem BSRB hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum. Hér á þessu þingi ætlum við að horfa til framtíðar og móta stefnu bandalagsins sem okkar starf mun byggja á næstu árin. Það er mikilvægt að við sjáum þau tækifæri sem eru til staðar og að við berum gæfu til að nýta þau. Til þess þurfum við að geta átt opið og hreinskilið samtal við viðsemjendur okkar, stjórnvöld og sveitastjórnir um allt land.

Við megum ekki falla í þá gryfju að hugsa um viðsemjendur okkar sem óvini. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að búa til betra samfélag, þó áherslurnar og leiðirnar sem við viljum fara geti verið býsna ólíkar. Þar skiptir máli að við getum staðið saman til að þrýsta á um þær breytingar sem við teljum að muni bæta samfélagið og vinna að sameiginlegum skilningi allra aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

Við þurfum að bera gæfu til þess að nýta þann mikla samtakamátt sem býr í íslensku launafólki til að bæta samfélagið allt.

Kjósið öfluga forystu

Eins og ég tilkynnti í byrjun sumars mun ég ekki gefa kost á mér til endurkjörs sem formaður BSRB. Þó að ég sé mjög sátt við þá ákvörðun er einkennilegt til þess að hugsa að þetta sé í síðasta skipti sem ég sit þing BSRB. Ég er auðvitað afar þakklát fyrir það traust og þann stuðning sem ég hef fundið fyrir í mínum störfum fyrir bandalagið. Verkefnin hafa ekki alltaf verið auðveld, en þau hafa öll verið mikilvæg í mínum huga.

Þó að mikið verk hafi verið unnið hjá bandalaginu undanfarin ár er eðli starfsins þannig að þegar verkefnum lýkur taka önnur jafn mikilvæg við. Það mun því verða hlutverk nýrrar forystu sem þið munið kjósa á föstudaginn að halda vinnunni áfram. Ég er algerlega sannfærð um að sú ákvörðun að gefa ekki kost á mér áfram er sú rétta, bæði fyrir bandalagið og fyrir mig sjálfa. Ég er jafn sannfærð um að þið munuð kjósa ykkur öfluga forystu sem verður ykkur og félagsmönnum okkar allra til mikils sóma.

Það er verk að vinna á þessu 45. þingi BSRB. Það eru kjarasamningar framundan og mörg stór mál til umfjöllunar í málstofum og í pallborðsumræðum á morgun.

Kæru félagar.

Ég segi 45. þing BSRB sett.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?