Vinnuvika vaktavinnufólk getur styst í 32 stundir

Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar hefur verið eitt helsta baráttumál BSRB undanfarin ár. Myndin er frá þingi BSRB.

Starfsfólk í vaktavinnu mun geta stytt vinnuviku sína úr 40 stundum í 36, og í einhverjum tilvikum allt niður í 32, samkvæmt samkomulagi um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki sem náðist milli BSRB og viðsemjenda bandalagsins hjá ríkissáttasemjara á miðvikudagskvöld. Áður hafði náðst samkomulag um styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu í allt niður í 36 stundir.

Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar með þessum hætti verða mestu vinnutímabreytingar á íslenskum vinnumarkaði í nær hálfa öld. Með möguleikum á aukinni styttingu hjá vaktavinnufólki er viðurkennd sú krafa BSRB til marga ára að vinnuvika vaktavinnufólks verði styttri en vinnuvika þeirra sem eingöngu vinna í dagvinnu.

Samkomulagið verður hluti af kjarasamningum þeirra aðildarfélaga BSRB sem semja við ríki og sveitarfélög, en er gert með fyrirvara um að samkomulag náist um önnur atriði sem út af standa í kjarasamningsviðræðunum. Samninganefndir BSRB og aðildarfélaga bandalagsins funda alla daga með viðsemjendum hjá ríkissáttasemjara og munu reyna til þrautar að ná saman áður en boðaðar verkfallsaðgerðir aðildarfélaga BSRB hefjast mánudaginn 9. mars.

Langþráður áfangi að nást

BSRB hefur til margra ára gert kröfu um að viðurkennt verði að 80 prósent starf í vaktavinnu jafngildi 100 prósent starfi í dagvinnu, enda raunin sú að þorri starfsmanna í fjölmennum stéttum treystir sér ekki til að vinna í hærra starfshlutfalli vegna álags sem fylgir vaktavinnunni. Nú virðist sem sá langþráði áfangi sé að nást.

Almennt fylgir því ekki kostnaður að stytta vinnuvikuna hjá dagvinnufólki. Eins og sýnt hefur verið fram á með tilraunaverkefnum geta vinnustaðir náð saman um að fara yfir skipulag vinnunnar til þess að stytting úr 40 stundum í 36 gangi upp án þess að kostnaður hljótist af.

Það sama á ekki við um vinnustaði þar sem unnið er á sólarhrings vöktum, enda þarf að manna ákveðin stöðugildi til að halda uppi óskertri þjónustu. Það er því ljóst að kostnaður sem lendir á launagreiðendum á þeim vinnustöðum getur verið verulegur.

Útfærslan á styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki verður kynnt í smáatriðum þegar kjarasamningar hafa náðst, en í stuttu máli má segja að verið sé að umbreyta verðmætum sem þegar eru til staðar í launamyndun. Búinn er til hvati til að vinna fjölbreyttar vaktir með hliðsjón af öryggi, heilsu og jafnvægi vinnu og einkalífs.

Hægt að stytta meira hjá vaktavinnufólki

Grunn styttingin verður úr 40 stundum í 36, eins og hjá dagvinnufólki, en hægt verður að stytta vinnuvikuna enn frekar hjá vaktavinnufólki. Það mun einkum eiga við þá sem vinna kvöld, nætur og helgarvaktir og geta þeir hópar fengið styttingu allt niður í 32 tíma. Þar með geta þeir sem eru í 80 prósent starfshlutfalli á þrískiptum vöktum í dag breytt starfshlutfalli sínu í 100 prósent. Þeir sem eru í lægra starfshlutfalli í dag geta unnið jafn mikið en hækkað starfshlutfall sitt og hækkað þar með laun sín.

Áfram verður greitt vaktaálag fyrir vinnu utan dagvinnutíma og álag á á næturvöktum verður hækkað. Nýr launaflokkur, vaktahvati, verður greiddur til að umbuna betur fyrir þegar fólk er að mæta á fjölbreyttar vaktir.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?