Ný skýrsla Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins leiðir í ljós slæma andlega heilsu einstæðra mæðra og versnandi hag launafólks
Ný könnun Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins leiðir í ljós að þeim fer fjölgandi sem eiga erfitt með að ná endum saman og á sú lýsing nú við um tæpan helming vinnandi fólks á Íslandi samanborið við ríflega þriðjung í fyrra. Meira en helmingur einstæðra mæðra og ungra kvenna býr við slæma andlega heilsu og vaxandi húsnæðiskostnaður íþyngir leigjendum og ungu fólki.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Vörðu -Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins um lífsskilyrði launafólks sem birt er í dag. Almennt gefur skýrslan til kynna versnandi hag vinnandi fólks í landinu.
Samkvæmt rannsókninni býr tæplega fjórðungur einstæðra foreldra við efnislegan skort og allt að þriðjungur þeirra getur ekki greitt kostnað vegna félagslífs barna sinna. Um það bil helmingur einstæðra foreldra gæti ekki staðið undir óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að taka lán.
Staða innflytjenda mælist markvert verri en innfæddra Íslendinga þriðja árið í röð.
Í skýrslunni er að finna ítarlega greiningu á niðurstöðum rannsóknarinnar.
Rannsóknin náði til félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB – heildarsamtaka stéttafélaga starfsmanna í almannaþjónustu. Þetta er þriðja árið í röð sem könnun á lífsskilyrðum launafólks er gerð og hefur fjöldi svara aldrei verið meiri en nú.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér. Samantekt á niðurstöðum má finna á bls 1.