Fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna fór fram dagana 10.-21. mars. Hann er haldinn árlega og taka mörgþúsund manns frá öllum heimshornum þátt. Að þessu sinni var sjónum beint að Pekingyfirlýsingunni um aðgerðir í þágu kynjajafnréttis, en 30 ár eru nú liðin frá gildistöku hennar.
Hliðarviðburður um jafnréttismál á Íslandi
Íslensk stjórnvöld og fulltrúar Kvennaárs stóðu fyrir hliðarviðburði þar sem farið var yfir sögu kvennabaráttu á Íslandi, stöðu jafnréttismála í dag og kröfur Kvennaárs. Framsögukonur voru Þorbjörg Sigríður Gunnarsdóttir, dómsmálaráðherra, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands. Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, stýrði fundinum.
Kröfur Kvennaárs og áherslur fundarins
Kröfur Kvennaárs ganga út á að stjórnvöld grípi til markvissra aðgerða til að tryggja raunverulegt jafnrétti á Íslandi. Þar er meðal annars fjallað um launamun kynjanna, kynbundið ofbeldi og jafnrétti í launuðum og ólaunuðum störfum. Öll þessi mál komu til umræðu á fundinum sem var vel sóttur. Áhersla var lögð á mikilvægi samstöðu kvennahreyfingar, launafólks, hinsegin fólks og fatlaðs fólks, sem lykilþátt í þeim árangri sem náðst hefur í átt til jafnréttis hér á landi.
Kröfur Kvennaárs og áherslur fundarins
Formaður BSRB var einnig með erindi á fundi sem Þýskaland stóð fyrir þar sem fjallað var um jafnrétti á vinnumarkaði. Auk Sonju sátu Dagný Aradóttir Pind og Fríða Rós Valdimarsdóttir fundinn fyrir hönd BSRB en allar voru þær hluti af sendinefnd íslenskra stjórnvalda.
Bakslag í jafnréttismálum á heimsvísu
Fjölmargir aðrir viðburðir fóru fram og var umræða um bakslag í jafnréttismálum fyrirferðarmikil, enda hafa atburðir á alþjóðavettvangi undanfarið leitt í ljós hversu auðvelt það getur verið að afnema grundvallarréttindi kvenna og annarra jaðarsettra hópa, ekki síst hinsegin fólks.