Félagsmaður FSS vinnur dómsmál um orlofslaun á yfirvinnu

Hinn 23. febrúar sl. féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur þar sem íslenska ríkinu var gert að greiða félagsmanni innan Félags starfsmanna Stjórnarráðsins (FSS), sem er eitt af aðildarfélögum BSRB, orlofslaun á fastar yfirvinnugreiðslur hans auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

Forsaga málsins er sú að stefnandi starfar hjá þjónustuskrifstofu Stjórnarráðsins sem bílstjóri ráðherra. Starfa sinnar vegna þarf viðkomandi iðulega að sinna störfum utan hefðbundins dagvinnutíma og hafði verið samið sérstaklega um fastar yfirvinnugreiðslur vegna þess. Í samkomulagi um launagreiðslur kom fram að öll yfirvinna sé innifalin í launakjörum hans, en þeim var þó skipt í mánaðarlaun annars vegar og fastar yfirvinnugreiðslur hins vegar. Í kjarasamningi FSS og ríkisins sagði að starfsmaður skyldi fá 13,04% orlofsfé á yfirvinnu- og álagsgreiðslur en því var haldið fram af þjónustuskrifstofunni að þar sem yfirvinnan væri greidd á sumarorlofstíma þyrfti ekki að greiða orlofslaun ofan á þær greiðslur.

Árið 2008 féll hins vegar dómur í Hæstarétti þar sem reyndi á svipað álitamál og þar var niðurstaðan í stuttu máli sú að það þurfi að semja sérstaklega um það ef ekki eigi að greiða orlofslaun á fastar yfirvinnugreiðslur. Árið 2006 hafði fjármálaráðuneytið gefið út dreifibréf til stofnana ríkisins þar sem segir að í þeim tilvikum þegar yfirvinna er greidd á föstum forsendum og hún greidd alla mánuði ársins þurfi að taka það fram skriflega að orlofsfé sé ekki greitt. Þetta hafði ekki verið gert í tilfelli bílstjórans sem um ræðir og hann taldi sig því eiga inni orlofslaun á föstu yfirvinnugreiðslurnar.

FSS hafði samband við þjónustuskrifstofu Stjórnarráðsins f.h. félagsmannsins í upphafi árs 2023 og gerði kröfu um þessar greiðslur, afturvirkt til upphafsdags ráðningarsambandsins enda var það innan fyrningarfrests. FSS hafði þá leitað liðsinnis BSRB og fengið álit frá lögfræðingum bandalagsins um að þessi krafa væri réttmæt, m.a. með vísan til dómsins frá árinu 2008. Það gekk illa að fá svör frá þjónustuskristofunni en að lokum vísaði hún málinu til Kjara- og mannauðssýslu ríkisins hjá fjármálaráðuneytinu (KMR). Engin formleg svör bárust hins vegar félaginu þaðan, önnur en þau að verið væri að skoða málið og sendi BSRB því formlegt erindi til KMR í maí mánuði árið 2023. Engin svör bárust þrátt fyrir ítrekaðar óskir um afstöðu og var erindið í raun hunsað af hálfu ríkisins. FSS hafði því engin önnur úrræði en að aðstoða félagsmann sinn við að stefna ríkinu fyrir dóm vegna ágreiningsins.

Eins og búist hafði verið við varð niðurstaða málsins sú að ríkinu beri að greiða orlofslaun á umræddar fastar yfirvinnugreiðslur, enda hafði ekki verið samið sérstaklega um að svo yrði ekki gert né tekið fram í ráðningarsamningi að orlof sé innifalið í yfirvinnugreiðslum. Um var að ræða rúmlega eina milljón króna, auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Niðurstaða héraðsdóms er í raun samhljóða dómi Hæstaréttar nr. 618/2006 frá 7. febrúar 2008 og dreifibréfi fjármálaráðuneytisins frá árinu 2006. Af þeim sökum verður að teljast ólíklegt að niðurstaða málsins verði önnur jafnvel þó því verði áfrýjað til Landsréttar.

Rétt er að taka fram að fyrningarfrestur kröfuréttinda hér á landi er almennt fjögur ár frá stofnun og er félagsfólk aðildarfélaga BSRB sem telur sig eiga sambærilegan rétt og umrætt dómsmál fjallar um því hvatt til að lýsa kröfum sínum sem fyrst gagnvart ríkinu


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?