Í umsögn BSRB um fjármálaáætlun 2026-2030 er fjármálastefnu ríkissjórnarinnar mótmælt. Til stendur, án rökstuðnings, að draga úr umfangi hins opinbera í hagkerfinu á sama tíma og þarfir almennings eru að aukast og verða flóknari. Horfast þarf í augu við þá staðreynd að skattar hafa verið lækkaðir á undangengnum kjörtímabilum án þess að aflað hafi verið tekna á móti og hefur ríkissjóður því verið rekinn með halla um árabil. BSRB hvetur ríkisstjórnina til að afla frekari tekna til að tryggja að ríkið geti sinnt meginverkefnum sínum sem eru að halda uppi öflugu velferðarkerfi þar sem öll búa við örugga framfærslu, framúrskarandi heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntun, jafnrétti og öryggi óháð búsetu og efnahag ásamt innviðafjárfestingu.
Hagræðingarkrafan er kynjuð
Rúmlega 70% af starfsfólki hins opinbera eru konur og þær nýta líka þjónustu hins opinbera meira og njóta tilfærslna í meira mæli en karlar. Hagræðing í opinberum rekstri bitnar því sérstaklega á starfsaðstæðum og lífskjörum kvenna og því þarf að horfa til áhrifa á kynin þegar ákvarðanir í opinberum fjármálum eru teknar. Í greinagerð með fjármálaáætlun er ítrekað bent á þá áskorun sem felst í skorti á fólki til starfa í velferðarkerfinu. Þrátt fyrir þessa stöðu verður ekki séð að auka eigi fjárframlög sjúkrahúsa og heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa nema til að mæta lýðfræðilegri þróun. BSRB leggur áherslu á að auka þurfi fjárheimildir til heilbrigðiskerfisins til að bæta heilbrigðisþjónustu í landinu en forsenda þess er að dregið verði úr manneklu, veikindatíðni, starfsmannaveltu og starfsumhverfi bætt. BSRB mótmælir einnig harðlega niðurskurði í mennta- og menningarmálum.
Trygg afkoma lágtekjufólks og barnafjölskyldna á að vera í forgrunni
BSRB hafnar því alfarið að nýtt örorkulífeyriskerfi verði fjármagnað með niðurfellingu á framlögum ríkisins til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða og styttingu atvinnuleysis-tryggingatímabilsins. Bætt kjör örorkulífeyrisþega eru fagnaðarefni en það er ósvífið að þær umbætur séu fjármagnaðar með lífeyriskjörum láglaunafólks og afkomu fólks á atvinnuleysisskrá.
BSRB leggur áherslu á að haldið verði áfram að draga úr tekjuskerðingum barnabóta, hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi eftir árið 2026 og tryggja afkomu þeirra tekjulægstu í fæðingarorlofi. Engin skýr áform er að finna um þessi mikilvægu fjölskyldumál í fjármálaáætluninni.
BSRB hvetur stjórnvöld til að setja sér háleit markmið um gæði opinberrar þjónustu og gera starfsaðstæður starfsfólks ríkisins að forgangsmáli og draga þannig úr veikindakostnaði og þeim kostnaði sem felst í starfsmannaveltu. Með þessum aðgerðum má ná fram verulegri hagræðingu til lengri tíma, auk þess sem ríkisstjórnin myndi sýna hugrekki og marka árangursrík spor í sögu þar sem hagræðingaraðgerðir hafa reynst árangurslitlar og oft skaðlegar.