Aukin ánægja og óbreytt afköst með styttri vinnuviku

Stytting vinnuvikunnar hefur auðveldað barnafjölskyldum að samræma vinnu og einkalíf.

Stytting vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg hefur dregið úr álagi á starfsfólk og aukið starfsánægju án þess að dregið hafi úr afköstum. Þetta kemur fram í lokaskýrslu um tilraunaverkefnið sem nú hefur verið gerð opinber.

Reykjavíkurborg og BSRB unnu sameiginlega að tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar frá árinu 2015. Í fyrstu var vinnuvikan stytt á tveimur vinnustöðum en þeim fjölgaði eftir því sem leið á verkefnið. Þannig tóku tæplega 100 vinnustaðir borgarinnar með um 2.500 starfsmönnum þátt í öðrum áfanga tilraunaverkefnisins.

Í lokaskýrslunni eru teknar saman niðurstöður rannsókna sem gerðar voru til að meta árangur tilraunaverkefnisins auk þess sem áhrifin eru metin út frá árlegri viðhorfskönnun starfsmanna Reykjavíkurborgar. Allar rannsóknirnar sýndu fram á jákvæð áhrif af styttingu vinnuvikunnar.

Rannsóknirnar sýndu meðal annars fram á að stytting vinnuvikunnar auðveldaði barnafjölskyldum að samræma vinnu og einkalíf og minnkaði álagið bæði á vinnustað og á heimilum starfsmanna. Þá fjölgaði jafnframt samverustundum fjölskyldna. Einnig fundu starfsmenn fyrir bættri andlegri og líkamlegri heilsu og höfðu meiri orku í félagslíf eða til að stunda heilsurækt. Þá virtust karlar taka meiri þátt í húsverkum og hversdagslegum verkefnum barna sinna.

Minni yfirvinna og óbreytt eða meiri afköst

Almennt jókst starfsánægja á þeim vinnustöðum sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefninu sem að sögn starfsmannanna leiddi af sér betri þjónustu fyrir borgarbúa. Þá sýnir úttekt borgarinnar úr vinnutímakerfi að yfirvinna hefur dregist saman hjá borginni á meðan tilraunaverkefnið hefur staðið yfir.

Borgin mældi einnig afköst starfsmanna sem tóku þátt í tilraunaverkefninu. Í þjónustuveri borgarinnar var svarhlutfallið svipað en hjá bókhaldsdeild borgarinnar jukust afköstin eftir að tilraunaverkefnið hófst. Afköstin stóðu í stað hjá upplýsingatæknideild hjá Barnavernd.

Lokaskýrsla um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar og BSRB er aðgengileg hér.

BSRB hefur beitt sér fyrir styttingu vinnuvikunnar lengi. Lesa má nánar um það mikilvæga verkefni hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?