BSRB stendur ásamt ríkisstjórninni, Samtökum atvinnulífsins og ASÍ að átaki þessa dagana sem miðar að því að hvetja atvinnurekendur, fyrirtæki, verslanir og launafólk til að gera sitt til að koma í veg fyrir óhóflega verðbólgu í landinu.
Auglýsingar hafa þegar birst í dagblöðum, á vefmiðlum og í útvarpi þar sem athygli er vakin á mikilvægi þess að ná tökum á verðbólgunni. Mikið hefur verið rætt um hóflegar launahækkanir launafólks í landinu sem hluta af markmiðinu um að ná stöðugleika í efnahagsmálum og þannig auka kaupmátt launa. Einnig hafa ríki og sveitarfélög gefið út fyrirheit um að halda gjaldskrárhækkunum í hófi og fjöldi fyrirtækja hefur sent frá sér yfirlýsingar um að þau muni ekki hækka verð sín.
Átakinu er því fyrst og fremst ætlað að hvetja til samstöðu atvinnurekenda, stjórnvalda og launafólks til að allir leggi sitt af mörkum til koma á stöðugleika og sporna við óhóflegri verðbólgu. Nái þau markmið fram að ganga mun það koma öllum hlutaðeigandi til góða og auka verulega við kaupmátt þegar fram sækir.