Pistill formanns BSRB

Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár þar sem margvíslegar aðhalds- og niðurskurðarkröfur birtast okkur. Sem dæmi hefur verið boðað að fækka eigi ríkisstofnunum um að minnsta kosti 50 og taka á gjald fyrir innlagnir á sjúkrahús. Þá eru raunlækkanir á fjárframlögum til heilbrigðiskerfisins talsverðar frá fyrra ári. Full ástæða er því til að hafa nokkrar áhyggjur af því í hvaða átt íslenskt þjóðfélag er að þróast ef þetta eru aðgerðirnar sem ríkisstjórnin ætlar að ráðast í á fyrsta fjárlagaári sínu, ríkisstjórnin sem var kosin vegna loforða um að bæta hag heimilanna í landinu.

Við eigum enn eftir að sjá hver áhrif aðhaldskrafna og sameiningar ríkisstofnanna verða. Óhjákvæmilega leiði ég þó hugann að starfsmönnum í almannaþjónustu og hvort önnur leið sé fær til að mæta kröfum valdhafanna en að fækka starfsfólki. Slíkar aðgerðir munu hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir samfélagið allt og stuðla að lakari velferðarþjónustu, auknu atvinnuleysi og um leið stórauknum brottflutningi fólks úr landi. Allt mun þetta þegar upp verður staðið kosta okkur talsvert hærri fjárhæðir en þær sem spara á með fyrrnefndum aðgerðum.

Í ræðu sinni við setningu Alþingis lagði fjármálaráðherra á það ríka áherslu að þrátt fyrir mikið aðhald og sparnað væri það ásetningur ríkisstjórnarinnar að standa vörð um velferðarkerfið og ekki ætti að leggja auknar byrðar á almenning og fyrirtæki  Erfitt er að sjá hvernig þau orð haldast í hendur við það sem fjárlögin boða en ég vona sannarlega að fjármálaráðherra standi við þessu stóru orð sín.

Ráðherra lagði auk þess áherslu á að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og í því skyni yrði tekjuskattur lækkaður um 0,8% í miðþrepinu. Sú aðgerð á að vera eitt helsta útspil ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir komandi kjarasamningsviðræðum, sem ráðherra hefur ítrekað sagt að launþegahreyfinginn þurfi að nálgast með hófsömum kröfum.

Samkvæmt nýrri kjarakönnun BSRB eru meðal heildarlaun kvenna hjá bandalaginu 346.724 krónur á mánuði en 474.945 krónur hjá körlum fyrir skatt. Eftir boðaðar skattalækkanir myndu útborguð meðallaun kvenna því hækka um 731 krónu á mánuði en meðallaun karla um 1715 krónur.*

Forsendur fjárlagafrumvarpsins gera ráð fyrir 2,6% kaupmáttaraukningu á næsta ári og að verðbólga verði um 3%. Ríkisstjórnin gerir því ráð fyrir talsverðum viðsnúningi á komandi ári og vona ég sannarlega að þessi markmið gangi eftir. Mér þykir þó ljóst að fleira þurfi að koma til en smávægileg skattalækkun sem gagnast þeim tekjuhærri mest og fyrirheit um mögulega kaupmáttaraukningu til að launþegar þessa lands fari sáttir frá kjarasamningsborðinu á komandi vetri. Sérstaklega þegar á sama tíma á sér stað alger stöðnun eða jafnvel afturför í fjárframlögum til heilbrigðisþjónustunnar.

Forsætis-, fjármála- og heilbrigðisráðherra ásamt formanni fjárlaganefndar hafa raunar látið það frá sér fara undanfarna daga að fjárlögin muni taka breytingum í meðförum þingsins. Það er von mín að þar verði betur forgangsraðað til að styðja megi betur við þá sem mest þurfa á að halda.

 

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

 

*Hér er miðað við fjögurra prósenta iðgjald í lífeyrissjóð en ekkert í viðbótarlífeyrissparnað.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?