Nýr vefur NFS, Norræna verkalýðssambandsins, hefur nú verið tekinn í notkun. Á vefnum er auðvelt að fá yfirsýn yfir starfsemi sambandsins og þau verkefni sem það sinnir í umboði bandalaga verkalýðsfélaga á Norðurlöndunum.
Allt efni á nýja vefnum er birt á sænsku, finnsku og ensku. Í gegnum NFS samræma bandalögin sína vinnu milli landa og nýta samtakamáttinn til að þrýsta á um breytingar. Í allri vinnu sambandsins er lögð áhersla á sjálfbærni, mannréttindi og réttindi vinnandi fólks.
Á árinu sem nú er að hefjast mun heimsfaraldurinn vera í brennidepli í vinnu NFS, skrifar Antti Palola, formaður stjórnar NFS, í frétt á nýja vefnum.
„Heimsfaraldurinn hefur neytt Norðurlöndin til að beita neyðarúrræðum í efnahagsmálum og takmarka frjálsa för fólks milli landa. Þessar takmarkanir á ferðafrelsi hafa hamlað samstarfi milli landa. Þrátt fyrir þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir er ljóst að öryggisnetið í norrænum velferðarríkjum hefur sannað gildi sitt og hjálpað okkur við að komast í gegnum þetta ástand,“ skrifar Palola.
Hann segir samtal, samvinnu og samkomulag milli stjórnvalda, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda hafa aukið sveigjanleika á vinnumarkaði og gert öll viðbrögð við kreppunni hraðari og skilvirkari en ella og tryggt áherslu á samfélagslegt réttlæti.
Þó heimsfaraldurinn muni lita allt starf NFS á árinu segir Palola að einnig verði lögð þung áhersla á réttlát umskipti í umhverfismálum, breytingar á störfum og fleira á árinu. „Þörfin á samstarfi milli Norðurlandanna er meiri en nokkru sinni nú þegar við förum vonandi að rétta úr kútnum eftir heimsfaraldurinn,“ skrifar Palola að lokum.