Ný skýrsla: Í aðdraganda kjarasamninga

Ný skýrsla sem ber heitið „Í aðdraganda kjarasamninga: Efnahagsumhverfi og launaþróun“ var kynnt á fundi hjá Ríkissáttasemjara í dag. Markmið skýrslunnar er að rekja kjaraþróun síðustu ára og birta helstu tölur um efnahagsumhverfið saman á einum stað.

Skýrslan kemur út í kjölfar skýrslu sem unnin var að frumkvæði BSRB af vinnuhópi aðila vinnumarkaðarins í vor um kjarasamningsumhverfið á Norðurlöndunum. Í kjölfar þeirrar vinnu var sett á stofn Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Auk fulltrúa BSRB er nefndin skipuð forystufólki frá ASÍ, BHM, KÍ, SA, fjármálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Tveir vinnuhópar hafa svo síðustu viku starfað á vegum samstarfsnefndarinnar og er skýrslan sem kynnt var í dag afrakstur þeirrar vinnu. Skýrsluna má nálgast í heild sinni hér en BSRB átti fulltrúa í báðum vinnuhópunum.

Í skýrslunni má finna greiningu á efnahagsforsendum kjarasamninga og er hún mikilvægt innlegg í því verkefni að bæta umgjörð við gerð kjarasamninga hér á landi. Öll heildarsamtök launafólks á Íslandi komu að gerð skýrslunnar og er það von BSRB að skýrslan muni gagnast aðildarfélögum bandalagsins í komandi kjarasamningsviðræðum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?