Mikilvægi VIRK staðfest í nýrri skýrslu

Mikill ávinningur er að því að reka VIRK starfsendurhæfingarsjóð skv. nýrri úttekt Talnakönnunar og kemur fram í skýrslu þeirra sem gerð var að beiðni VIRK. Samkvæmt skýrslunni er um 10 milljarða ávinningur af starfsemi VIRK árið 2013 sem skili sér til Tryggingarstofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins að ótöldum ábata hvers einstaklings.
   
VIRK fékk Talnakönnun HF. til að greina árangur og hagnað af starfsemi VIRK árið 2013 út frá ópersónugreinanlegum upplýsingum úr gagnagrunni VIRK um þá 899 einstaklinga sem útskrifuðust úr þjónustu VIRK árið 2013 auk þess að unnið var með upplýsingar lífeyrissjóða um meðallaun. Markmiðið var að finna mælikvarða á sparnað af starfsemi VIRK sem taki mið af raunverulegum árangri undanfarin ár, árangri sem felst í að flýta endurhæfingu, stytta tímabil óvinnufærni einstaklinga og minnka tíðni örorku.

Talnakönnun gaf sér mjög varfærar forsendur um vinnumarkaðsþátttöku einstaklinga.  M.a. var ein forsendan sú að þeir einstaklingar sem voru á launum í veikindum, á bótum hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða á atvinnuleysisbótum við lok þjónustu hjá VIRK myndu hafa verið óvinnufærir í 5 ár ef VIRK hefði ekki notið við – en enginn þeirra hefði farið á varanlega örorku.

Mjög arðbær starfsemi
Þrátt fyrir varfærar forsendur kemst Talnakönnun að þeirri niðurstöðu að starf VIRK sé mjög arðbært.  Um 10 milljarða króna ávinningur hafi verið af starfsemi VIRK árið 2013 og ábatinn af starfseminni skili sér bæði til Tryggingastofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins í formi aukinna skatttekna. Hagnaður lífeyrissjóða af starfi VIRK hafði numið nærri fimm milljörðum árið 2013, hagnaður Tryggingastofnunar hátt á fjórða milljarð króna og ríkið hafi fengið viðbótar skatttekjur upp á 1,5 milljarða króna. Ofan á þetta kemur svo bættur hagur einstaklinga, bæði fjárhagslegur auk þeirra lífsgæða sem felast í því að geta tekið þátt í samfélaginu. Við þetta má svo bæta að rekstrarkostnaður VIRK var 1,3 miljarðar á árinu 2013.


„Af ofantöldu er ljóst að árangursrík starfsendurhæfingarþjónusta eins og VIRK veitir er ein af allra arðbærustu fjárfestingum í okkar samfélagi, auk þess að styrkja einstaklinga og stuðla að öflugra samfélagi og aukinni velferð, og því mjög mikilvægt að standa vörð um uppbyggingu hennar til framtíðar,“ segir í frétt á vef VIRK.

Sjá skýrslu Talnakönnunar HF. um hagnaðinn af starfsemi VIRK 2013 í heild sinni hér.


 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?