Koma þarf til móts við fólk með skerta starfsgetu

Tryggja þarf að einstaklingar með fötlun og fólk með skerta starfsgetu hafi aðgengi að vinnustaðnum.

Atvinnurekendum ber að gera ráðstafanir til að tryggja að fatlaðir einstaklingar eða einstaklingar með skerta starfsgetu geti starfað á vinnustaðnum samkvæmt lögum um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði. Ráðstafanirnar mega þó ekki vera of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann.

Lögin tóku gildi þann 1. september 2018 en þar er meðal annars fjallað um um skyldu atvinnurekanda til þess að gera viðeigandi ráðstafanir, sé þeirra þörf, til að gera fötluðum einstaklingi eða einstaklingi með skerta starfsgetu kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi eða fá þjálfun, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann. Umrætt ákvæði byggir á tilskipun Evrópusambandsins en þar segir meðal annars að með viðeigandi ráðstöfun sé átt við aðgerðir til að laga vinnustað að fötlun eða skertri starfsgetu, svo sem með breytingum á húsnæði og búnaði, skipulagi vinnutíma, verkefnaskiptingu eða með þjálfunarúrræðum.

Þessi nýja regla felur þannig í sér skyldu fyrir atvinnurekanda að grípa til aðgerða þegar einstaklingur getur ekki sinnt grundvallarþáttum viðkomandi starfs án þess að breytingar verði gerðar á vinnustaðnum. Þær breytingar mega þó ekki vera of íþyngjandi fyrir atvinnurekanda en við mat á því hvort svo sé þarf að líta til fjárhagslegs kostnaðar og umfangs breytinganna að teknu tilliti til stærðar stofnunar eða fyrirtækis. Ef hins vegar sýnt er fram á að viðkomandi starfsmaður geti ekki sinnt starfinu þrátt fyrir viðeigandi ráðstafanir af hálfu atvinnurekanda verður almennt ekki talið að honum hafi verið mismunað á grundvelli fötlunar eða skertar starfsgetu.

Álitamál til hvaða ráðstafana ber að grípa

Það getur verið álitamál hverju sinni hvað teljist vera viðeigandi ráðstöfun. Í greinargerð með lögunum eru tekin nokkur dæmi sem geta leiðbeint við matið á því. Þar er nefnt dæmi um atvinnurekanda sem ræður táknmálstúlk til að tryggja heyrnarskertum starfsmanni starfsþjálfun til jafns við aðra starfsmenn og annað dæmi um starfsmann sem er boðið annað starf hjá atvinnurekanda sem hann getur sinnt þar sem honum er ómögulegt að sinna fyrra starfi vegna skertrar starfsgetu eftir slys.

Þá er einnig nefnt að ráðstafanir teljist of íþyngjandi fyrir atvinnurekanda ef fyrirtækið er einungis með skrifstofur á fjórðu hæð í húsi þar sem engin lyfta er til staðar og til skoðunar er að ráða starfsmann sem bundinn er við hjólastól. Þær ráðstafanir sem grípa þyrfti til svo starfsmaður gæti verið með starfsaðstöðu á fjórðu hæð hússins væru þar af leiðandi of íþyngjandi. Ef fyrirtækið hefði einnig starfsaðstöðu á jarðhæð ætti atvinnurekandi að geta gert viðeigandi ráðstafanir svo starfsmaður geti haft starfsaðstöðu sínu þar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?