Aukið álag á tvo þriðju hluta opinberra starfsmanna

Álag í starfi vegna kórónaveirunnar hefur aukist hjá stórum hluta opinberra starfsmanna.

Nær tveir af hverjum þremur starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga upplifa aukið álag eftir að heimsfaraldur kórónaveirunnar skall á landinu af fullum þunga. Þetta sýnir könnun sem rannsóknarfyrirtækið Maskina gerði fyrir BSRB.

Alls sögðu tæplega 64 prósent opinberra starfsmanna að álag í starfi hafi aukist nokkuð eða mjög mikið vegna faraldursins í byrjun árs 2021. Þetta er talsverð aukning frá því í samskonar könnun sem gerð var í apríl 2020 þegar rúmur helmingur opinberra starfsmanna, um 53 prósent, upplifðu aukið álag í starfi vegna faraldursins. Nú segja um 11 prósent opinberra starfsmanna að álag í starfi hafi minnkað nokkuð eða mikið, samanborið við rúmlega 21 prósent í apríl í fyrra.

Álag hefur einnig aukist á almennum vinnumarkaði. Þar segjast tæplega 47 prósent upplifa aukið álag í byrjun árs samanborið við 36 prósent í apríl í fyrra. Tæplega 15 prósent upplifa nokkuð eða mikið minna álag, en um 31 prósent voru í þeirri stöðu í apríl 2020.

Þegar staðan í janúar síðastliðnum er skoðuð án tillits til þess hvort viðkomandi starfar á almenna vinnumarkaðinum eða þeim opinbera segjast tæplega 55 prósent að álagið hafi aukist, rúm 32 prósent segja álagið hafa staðið í stað og um 13 prósent segja það hafa minnkað. Í apríl 2020 sögðu um 41 prósent að álagið hafi aukist, um 33 prósent að það hafi staðið í stað og 26 prósent að dregið hafi úr álagi.

Gæðastundum fjölgað

Þrátt fyrir aukið álag í starfi vegna heimsfaraldursins hefur hann einnig leitt til þess að gæðastundum með fjölskyldunni hefur fjölgað hjá stórum hluta þjóðarinnar. Alls sögðust rúmlega 59 prósent þátttakenda í könnuninni að gæðastundum hafi fjölgað nokkuð eða mikið en tæp 15 prósent sögðu að gæðastundum hafi fækkað nokkuð eða mikið.

Gæðastundunum virðist hafa fjölgað eftir því sem leið á faraldurinn því í apríl 2020 sögðu um 50 prósent að gæðastundunum hafi fjölgað en 25 prósent að þeim hafi fækkað nokkuð eða mikið.

Lítill munur var á svörum eftir því hvort fólk starfaði hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði. Almennt virðist þó gæðastundunum hafa fjölgað heldur meira hjá þeim sem starfa á almennum vinnumarkaði.

Gæðastundir með fjölskyldu

Aðferðafræðin

Könnun maskínu fyrir BSRB var lögð fyrir þjóðargátt Maskínu sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá á netinu. Svarendur voru alls staðar að af landinu á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin voru vegin til samræmis við tölur Hagstofu Íslands svo hópurinn endurspegli þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu. Könnunin var gerð dagana 12. til 20. janúar 2021 og voru svarendur alls 1.183 talsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?