Umsögn um frumvarp til fjárlaga 2021 fyrir árið 2021 og tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025

Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga 2021 fyrir árið 2021, 1. mál, og tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025, 2. mál

Reykjavík, 19. október 2020

BSRB hefur fengið frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021 og tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 til umsagnar og þakkar fyrir að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Í umsögninni verður fyrst fjallað um ríkisfjármálastefnuna eins og hún birtist í fjármálaáætlun og í framhaldinu fjallað um einstaka málaflokka í fjárlagafrumvarpinu.

Ósjálfbær stefna í ríkisfjármálum

Fjármálaáætlun 2021-2025 opinberar með skýrum hætti að stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum er ekki sjálfbær. Þannig er stefna ríkisstjórnarinnar að minnka umsvif ríkissjóðs í hagkerfinu ásamt því að viðhalda aðhaldsmarkmiðum fyrri áætlunar á flestum sviðum opinberrar þjónstu þrátt fyrir að álag hafi stóraukist og verulega reyni á grunnstoðirnar.

Það sem af er kjörtímabilinu hefur verið lögð áhersla á lækkun skatta á fyrirtæki og einstaklinga og áfram er haldið í frumvarpi til fjárlaga ársins 2021. Varanleg lækkun tekna ríkissjóðs vegna þessara skattalækkana er 34 ma.kr. árlega. Þar vega þyngst lækkun tekjuskatts á einstaklinga, varanleg lækkun á tryggingargjaldi ásamt lækkun veiðigjalda og bankaskatts. Á árinu 2021 stendur til að lækka skatta enn frekar með lækkun fjármagnstekjuskatts og hækkun frítekjumarks erfðafjárskatts. Þá eru ótaldar ýmsar tímabundnar lækkanir vegna heimsfaraldursins.

Áætlað er að hallarekstur ríkissjóðs á árinu 2021 muni nema 8,6% af VLF. Stóran hluta þess halla má rekja til samdráttar vegna sjálfvirkra sveiflujafnara og ráðstafana vegna heimsfaraldursins en halli sem nemur um 2,4% af VLF er undirliggjandi afkomuvanda. Eins og segir á bls. 61 í greinagerð með fjármálaáætluninni bendir þessi þróun „til þess að tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs vaxi ekki með sama hraða og útgjaldakerfin að svo stöddu“ og að hana megi „m.a. rekja til áður lögfestra skattkerfisbreytinga og útgjaldavaxtar árið 2021 umfram þann sem leiðir með beinum hætti af aðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldursins“.

Svo virðist sem leysa eigi þennan undirliggjandi afkomuvanda með því að draga úr útgjöldum fremur en að auka tekjurnar. Þetta þýðir að ríkisstjórnin ætli að minnka umsvif ríkissjóðs í hagkerfinu. Það sést glöggt í töflu 2 á bls. 143 sem sýnir að stefnt er að því að frumtekjur verði um 27,6% af VLF og frumgjöld 27,5% af VLF árið 2025 en það er lækkun um 1,3 prósentustig á tekjuhlið og 1 prósentustig á gjaldahlið miðað við árið 2019.

Samdráttinn í útgjöldum má að einhverju leyti lesa úr aðhaldsmarkmiðum áætlunarinnar. Markmiðin eru óbreytt frá fyrri áætlun þrátt fyrir gjörbreyttar aðstæður en til viðbótar er gert ráð fyrir fyrir 16 ma. kr. óútfærðum ráðstöfunum árlega fyrir árin 2023-2025. Athyglisvert er að setja þær ráðstafanir í samhengi við árlegt 34 ma.kr. tekjutap ríkissjóðs vegna skattalækkana ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu.

BSRB hefur ítrekað varað við því að skattar séu lækkaðir án þess að annara tekna sé aflað þeirra í stað og hafnað því að skattalækkanir verði fjármagnaðar með niðurskurði í útgjöldum eða ónógri hækkun tilfærslna til heimila. Hins vegar er að koma í ljós að mæta á lækkandi tekjum með niðurskurði í útgjöldum og minni hækkun í bótaflokkum almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga en sem nemur kjarasamningsbundunum launahækkunum á vinnumarkaði eins og nánar verður vikið að síðar í umsögninni. BSRB hafnar alfarið þessari aðferðafræði sem skerðir mikilvæga opinbera þjónustu við almenning, eykur vinnuálag hjá starfsfólki og eykur ójöfnuð.

Skuldir ríkisins

Skuldir ríkisins eru lágar í alþjóðlegum samanburði þó þær eigi eftir að aukast verulega á næstu árum vegna áhrifa heimsfaraldursins. Þess vegna hefur verið vikið tímabundið frá fjármálareglum laga um opinber fjármál næstu þrjú árin og til stendur að framlengja það tímabil til ársins 2026 með sérstöku frumvarpi. Þó fjármálareglur séu ekki í gildi hefur ríkisstjórnin sett sér sem leiðarljós að hækkun á skuldum hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu stöðvist eigi síðar en árið 2025. Fram kemur að það sé í samræmi við markmið laga um opinber fjármál um sjálfbærni og stöðugleika. Til að svo geti orðið þarf að ráðast í afkomubætandi ráðstafanir sem gætu numið 35-40 ma.kr. árlega á tímabilinu 2023 til 2025 hjá ríki og sveitarfélögum. Einnig kemur fram að þeim ráðstöfununum verði skipt jafnt á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs en einungis á gjaldahlið sveitarfélaga.

Með aðhaldsaðgerðunum er gert ráð fyrir að skuldir hins opinbera samkvæmt fjármálareglu verði rúmlega 59% af VLF árið 2025. Ef ekki verður gripið til aðgerða yrði hlutfallið um 65% af VLF og Ísland væri samt sem áður með miklu mun minni skuldir en t.d. Bretland, Þýskaland, Frakkland og Bandaríkin eins og fram kemur í fjármálaáætluninni.

BSRB leggst gegn því að því fordæmalausa efnahagsáfalli sem nú ríður yfir verði mætt með niðurskurði í rekstri hins opinbera á næstu árum. Í fyrsta lagi þarf að bæta upp fyrir það 34 ma. kr. árlega tekjutap sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna ótímabundinna skattalækkana ríkisstjórnarinnar með því að afla tekna með öðrum hætti. Núverandi tekjugrunnur er ekki sjálfbær. Í öðru lagi er mikið af starfsfólki í opinberri þjónustu undir miklu álagi vegna heimsfaraldursins og hafði áður en hann hófst verið undir miklu vinnuálagi vegna niðurskurðar og langvarandi aðhalds í kjölfar efnahagshrunsins fyrir rúmum áratug. Í þriðja lagi er mikil þjónustuþörf í heilbrigðis- og félagskerfinu vegna heimsfaraldursins og áhrifa hans á líkamlega og andlega heilsu almennings. Í fjórða lagi er kerfislægur vöxtur útgjalda nauðsynlegur vegna hlutfallslegrar öldrunar þjóðarinnar. BSRB leggur áherslu á að fullfjármögnuð opinber þjónusta og viðunandi afkoma eru mikilvægar forsendur þess að hér ríki velsæld og félagslegur stöðugleiki.

Mikilvægt er að niðurgreiðsla skulda hefjist ekki fyrr en efnahagskerfið hefur náð sér og að fjármálareglur hins opinbera verði endurskoðaðar áður en þær taka aftur gildi til að þær miði að því að tryggja öflugt heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi á Íslandi.

Sveitarfélög

Fyrirséð er að afkoma sveitarfélaga muni versna á næstu árum. Í samkomulagi um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga fyrir 2021-2025 kemur fram að skipa eigi nefnd um endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga sem skili áfanganiðurstöðu fyrir lok mars 2021. BSRB fagnar þessu en leggst alfarið gegn þeim áformum sem fram koma í fjármálaáætlun um að aðhaldsmarkmiðum sveitarfélaga verði eingöngu mætt á útgjaldahlið. Augljóst er að efla verður tekjustofna þeirra. Sveitarfélögin veita gríðarlega mikilvæga þjónustu á sviði mennta- og velferðarmála. Útgjaldaniðurskurður þar er ávísun á skerta almannaþjónustu og aukinn félagslegan vanda til lengri tíma. Konur eru í miklum meiri hluta þeirra sem sinna þessari þjónustu og ef þjónustan skerðist mun ólaunuð vinna kvenna aukast enn frekar. Í greinagerð með þingsályktunartillögu að endurskoðaðri fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram sumarið 2020 kom fram að hallarekstur sveitarfélaga hafi verið viðvarandi vandamála síðast liðna rúma tvo áratugi. Það gefur auga leið að tekjustofnar sveitarfélaga eru of veikir og þá verður að styrkja.

Fjárfestingar- og uppbyggingarátak fyrir karla

BSRB fagnar því að farið verði í fjárfestingar- og uppbyggingarátak til að draga úr efnahagsáhrifum heimsfaraldursins á næstu árum. Aukin fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun mun leiða til aukins hagvaxtar til lengri tíma og farið verður í mikilvæga uppbyggingu innviða og húsnæðis fyrir opinbera þjónustu.

Of lítil áhersla er á verkefni tengd loftslagsmálum og má þar m.a. nefna að ekki er veitt viðbótafé til uppbyggingar almenningssamgangna. Þetta er alvarlegur veikleiki í áætluninni en fjárfestingar í aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðlögun innviða að þeim loftslagsbreytingum sem óhjákvæmilega verða ættu að vera í forgrunni. Nú er tíminn til að ráðast í þær nauðsynlegu framkvæmdir. Norræna verkalýðssambandið, sem BSRB, ASÍ og BHM eiga aðid að, gaf út sameignilega yfirlýsingu í apríl 2020 þar sem þess er krafist að ríkisstjórnir á Norðurlöndunum sæti lagi og veiti þeim fjármunum sem þarf til þess að ná sameiginlegum markmiðum um sjálfbæra þróun. Það muni bjarga störfum og að lokum skapa störf [1].

Umtalsvert fé er sett í Stafrænt Ísland. BSRB fagnar því að verið sé að bæta þjónustu ríkisins og tryggja að Ísland dragist ekki aftur úr í þróun stafrænna þjónustulausna. Bandalagið krefst þess hins vegar að jafnmikil áhersla verði lögð á endur- og símenntun starfsfólks sem stendur frammi fyrir því að störfin þeirra muni taka verulegum breytingum eða hverfa. Að öðrum kosti muni þau eiga erfitt með að ráða sig í önnur störf og hætt er við að langtímaatvinnuleysi bíði þeirra. Meirihluti starfsfólks ríkisins eru konur og þær eru í miklum meirihluta þeirra starfa sem fyrst munu hverfa. Því er mikilvægt að samhliða sé unnið markvisst að því að tryggja að fólk hafi hæfni og færni til að takast á við ný og breytt störf.

Alvarlegustu athugasemdir BSRB við fjárfestingar og uppbyggingarátakið lúta að kynjaáhrifum þess. Um 85% þeirra starfa sem skapast við framkvæmd fjárfestingaátaksins eru karlastörf og átakið mun því auka á kynjamisrétti eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Þá munu aukin framlög í samkeppnissjóði gagnast körlum fremur en konum enda sækja konur nú síður um í sjóðina og fá almennt úthlutað lægri fjárhæðum en karlar. Að auki kemur það mat fram í fjárlagafrumvarpinu að aukinn stuðningur endurgreiðslna vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar mun valda óbreyttu ástandi þar sem fyrir er kynjahalli, körlum í vil.

Atvinnuleysi kvenna var heldur meira en karla í september 2020 eða 10% samanborið við 9,7%. Þá hefur atvinnuleysi kvenna einnig aukist hraðar en karla vegna áhrifa heimsfaraldursins enda eru konur í meirihluta starfandi í þeim atvinnugreinum sem verst hafa orðið úti.

Niðurstaðan er að fjárfestingar- og uppbyggingarátak ríkisstjórnarinnar fær falleinkun út frá jafnréttissjónarmiðum. Á sama tíma sæta ýmsir málaflokkar hins opinbera, þar sem konur starfa í meirihluta, aðhaldskröfu sem þýðir að álagið á konur starfandi í opinberri þjónustu eykst samhliða aukinni ólaunaðri vinnu kvenna vegna skertrar þjónustu við börn, aldraða og sjúka vegna sóttvarnaraðgerða. Þannig þurftu mun fleiri konur en karlar að vera heima hjá börnum þegar grunnskólar og leikskólar skertu þjónustu í faraldrinum sl. vor samkvæmt könnun sem Maskína vann fyrir BSRB í lok apríl sl. [2]. Í skýrslu Eurostat frá 2019 kemur fram að 8,9 prósemt Íslendinga sinni óvinnufærum ættingjum, annaðhvort öryrkjum eða öldruðum. Til samanburðar er Evrópumeðaltalið 4 prósent og innan við 3 prósent á öllum hinum Norðurlöndunum. Skýrslan tekur einnig til umönnunnar barna og þar er Ísland í þriðja sæti á eftir Írlandi og Tyrklandi. Þegar tölurnar eru teknar saman er Ísland með hæsta umönnunarhlutfall Evrópu og eina landið sem fer yfir 50 prósent [3].

Þriðjungur kvenna á vinnumarkaði er í hlutastarfi vegna umönnunarábyrgðar barna og fjölskyldumeðlima. Konur eru líklegri til að veikjast vegna álags í starfi sem stafar af starfsaðstæðum þeirra, einkum í umönnun og kennslu. Þar fyrir utan eru þær almennt með lægstu laun allra á vinnumarkaði í þessum starfsgreinum. Að auki eru konur yfir fimmtugu mun líklegri en aðrir til að vera metnar til örorku. Með öðrum orðum, stór hópur kvenna býr við fátækt eða knöpp kjör og verri heilsu vegna þess að þær eru að annast aðra, í vinnunni og heima. Þetta hefur verið vitað í mörg ár og í stað þess að bregðast við á að auka vandann. Það þarf að styrkja innviðauppbyggingu í greinum umönnunar og þjónustu við börn, fatlað fólk og aldraða og bæta þannig lífskjör þessara hópa en ekki síður kvennanna sem sinna þjónustunni, bæði í einkalífinu og vinnunni.

Atvinnusköpun fyrir konur sem eykur velsæld og hagvöxt til lengri tíma

Fljótlegasta leiðin til atvinnusköpunar fyrir konur er að auka framlög til opinberrar þjónustu. Þetta er líka skynsamleg leið. Nýleg rannsókn sem gerð var í sjö aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sýnir að fjárfestingar í umönnun og velferð, svo sem öldrunarþjónustu, heilbrigðiskerfi og leikskólum, séu ekki síður árangursríkar og jafnvel vænlegri til árangurs en fjárfesting í starfsgreinum þar sem meirihluti starfsfólks eru karlar s.s. í opinberum framkvæmdum eða byggingariðnaði. Ávinningurinn er meiri þar sem fleiri störf skapast því nánast allur kostnaður umönnunar felst í launakostnaði öfugt við framkvæmdir þar sem mikið fjármagn fer í aðföng. Fjárfesting í umönnun og velferð leiðir til hærra atvinnustigs og eykur eftirspurn eftir vörum og þjónustu fyrirtækja sem aftur eykur tekjur ríkissjóðs.

Langtímaáhrifin eru þau að betri heilsa og velsæld leiða til aukinnar framleiðni launafólks. Enn fremur stuðla aðgerðirnar að aukinni atvinnuþátttöku kvenna og draga úr ólaunaðri vinnu kvenna [4]. Að sjálfsögðu útilokar eitt ekki annað og æskilegt er að stjórnvöld hafi jafnvægi milli atvinnugreina þegar kemur að fjárfestingu. Fjárfesting í velferðarkerfinu skilar sér margfalt til baka og því ætti alls ekki að skera þar niður á erfiðum tímum heldur einmitt að nýta tækifærið til að manna með fullnægjandi hætti og styrkja mikilvæga opinbera þjónustu, öllum til heilla.

Atvinnusköpun fyrir þá hópa þar sem atvinnuleysi er mest

BSRB bendir á mikilvægi þess að vinnumarkaðsúrræði stjórnvalda beinist að þeim hópum þar sem atvinnuleysi er mest. Ný skýrsla sérfræðingahóps ASÍ, BSRB og BHM sýnir að atvinnuleysi hefur aukist mest meðal ungs fólks, erlendra ríkissborgara og kvenna. Menntunarúrræði og atvinnusköpun verða að mæta þörfum þessara hópa [5]. Tillögur Samhæfingarhóps um atvinnu- og menntamál lofa góðu [6] hvað varðar menntaúrræði fyrir atvinnuleitendur, en verulega skortir á að gætt sé að þörfum ólíkra hópa þegar kemur að atvinnusköpun hins opinbera eins og þegar hefur verið fjallað um.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021

Í umfjöllun um fjárlagafrumvarpið verður fyrst fjallað stuttlega um tekjuhlið fjárlaga en meginþunginn í umfjölluninni verður á útgjöld ríkissjóðs.

Árið 2021 tekur gildi síðari hluti tekjuskattlækkunar sem lögfest var í árslok 2019. Fram kom við þær breytingar að heildarlækkunin myndi auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks um 10.000 kr. á mánuði. BSRB fagnar því en harmar að ekki hafi verið brugðist við kröfu bandalagsins um að annara tekna yrði aflað þess í stað. Í umsögn bandalagsins vegna fjárlagafrumvarps fyrir árið 2020 segir:

Mikilvægt er að efla jöfnunar- og tekjuöflunarvirkni kerfisins með viðbótarskattþrepi á ofurlaun og aukinni skattlagningu á stóreignafólk. Í þessu sambandi er rétt að minna á að auðlegðarskatturinn var um 11 ma kr. á verðlagi ársins 2014, árið sem hann var síðast innheimtur. Slíkar áherslur er hins vegar ekki að sjá í frumvarpinu […]. Þessi stefna mun óhjákvæmilega draga úr getu heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfisins til að veita þjónustu, auka álag á starfsfólk og leiða til uppsagna. Verði þessi áform að veruleika er ríkisstjórnin að vinna markvisst að veikingu mikilvægra skattstofna ríkisins á kostnað opinberrar almannaþjónustu. BSRB mótmælir þessum áherslum harðlega.

Því miður hefur komið á daginn að varnaðarorð BSRB áttu fullan rétt á sér og bregðast verður við til að tryggja sjálfbærni ríkisfjármála án þessa að veikja opinbera þjónustu og tekjutilfærslur.

Í frumvarpinu er fjallað um ýmsar tímabundnar aðgerðir á tekjuhlið til að bregðast við efnahagsástandinu sem hefur skapast vegna heimsfaraldursins en að auki eru lagðar til nýjar ótímabundnar skattlækkanir og er þar helst að nefna lækkun fjármagnstekjuskatts. Til stendur að skattleggja raunávöxtun en ekki nafnávöxtun fjármagns. BSRB telur orka tvímælis að koma með slíka almenna skattlækkun á tímum sem þessum auk þess sem erfitt er að átta sig á hvernig útfæra á framkvæmdina.

Loftslagsmál

Athygli vekur að ekki er fjallað um skattlagningu urðunar almenns og óvirks úrgangs í frumvarpinu en Alþingi samþykkti ekki frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um slíkan skatt í árslok 2019. Til stóð að endurskoða tillöguna og leggja fram að nýja á yfirstandandi ári. Nú virðist hafa verið horfið frá þeirri hugmynd og þar með mikilvægum hagrænum hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. BSRB styður markmið Ísland um samdrátt í losun gróðurhúsaloftegunda og lítur það alvarlegum augum að ekki sé verið að framfylgja áætluninni. Mikilvægt er að ríkisstjórnin finni aðrar leiðir til að draga úr losun vegna urðunar á úrgangi.

Heilbrigðismál

Heilbrigðiskerfið er grunnstoð hvers samfélags og í heimsfaraldrinum hefur það heldur betur sannað sig. Gríðarlegt álag hefur verið á heilbrigðiskerfinu á árinu vegna heimsfaraldursins og fyrirséð er að svo muni einnig verða á næsta ári. Landspítalinn hefur sinnt hundruðum alvarlega veikra sjúklinga, frá göngudeildarþjónustu til gjörgæslu og sinnt umfangsmiklum skimunum með ómetnalegri aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar, hjúkrunarheimilin hafa verið undir miklu álagi vegna veikinda og sóttvarnaraðgerða til að verja íbúana, heilsugæslan hefur sinnt sóttvörnum og skimunum, heilbrigðisstofnanir um allt land og Sjúkrahúsið á Akureyri hafa sinnt þeim sem hafa sýkst, smitvörnum og skimunum. Þar að auki hafa ýmsar stéttir sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks þurft að gera hlé á starfsemi sinni tímabundið vegna sóttvarnaraðgerða.

Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu virðist sem raunaukning á framlögum til rekstrar sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu verði um 400 m.kr. á árinu 2021. BSRB fagnar þessari aukningu með þeim fyrirvara að fyrirliggjandi gögn gefa ekki fullnægjandi upplýsingar. Bandalagið hefur eftir sem áður áhyggjur af langvarandi álagi á starfsfólk vegna mönnunarvanda og aðhaldsaðgerða frá síðustu kreppu. Ofan á það bætist gríðarlegt álag á yfirstandandi ári vegna heimsfaraldursins. Fyrirséð er að áhrifa heimsfaraldursins mun gæta a.m.k. fram eftir næsta ári. BSRB hvetur til þess að metið verði hvort fjárveitingin sé nægileg til að tryggja örugga og tímanlega sérhæfða heilbrigðisþjónustu, fullnægjandi mönnun og aðgerðir til að koma í veg fyrir veikindi og kulnun starfsfólks í heilbrigðisþjónstu. BSRB vekur athygli á því gríðarlega mikla álagi sem var á almannaþjónustuni þegar faraldurinn geisaði hvað skæðast í vor. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar sem Maskína vann fyrir bandalagið í lok apríl sl. þar sem markmiðið var að meta áhrif heimsfaraldursins á líf og störf íslensks launafólks. Rannsóknin sýndi að rúmlega helmingur, eða 53 prósent þeirra sem starfa á hjá ríki og sveitarfélögum, hefðu upplifað aukið álag í starfi vegna faraldursins [7]. Gera má ráð fyrir að ástandið sé svipað nú og verði svo áfram um nokkurt skeið.

Almenn sjúkrahúsþjónusta

Raunlækkun er á framlögum til rekstrar í almennri sjúkrahúsþjónustu á milli ára sem nemur 60 - 260 m.kr. Gögnin leyfa ekki nákvæmari greiningu. Undir þennan lið fellur sjúkrahúsþjónusta heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. BSRB hefur verulegar áhyggjur af þessari lækkun og ítrekar að gæta þarf að öryggi sjúklinga og heilsu og öryggi starfsfólks, ekki síst við það álagsstig sem heimsfaraldurinn veldur. Vegna sóttvarnarviðbragða hafa biðlistar eftir ýmissi þjónustu og aðgerðum lengst og því mikilvægt að tryggja fulla fjármögnun til að vinna megi hratt og vel niður biðlista. Aðhaldsaðgerðir í heilbrigðisþjónustu eru fráleitar á tímum heimsfaraldurs.

Heilsugæsla

BSRB fagnar því að áfram sé haldið á þeirri braut að styrkja heilsugæslunna sem fyrsta viðkomustað og veitanda geðheilbrigðisþjónustu í samræmi við þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Sérstakt tímabundið 540 m.kr. framlag til heilsueflingar í heimabyggð sem er hluti af félagslegum úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins er líka sérstakt fagnaðarefni.

Greiðsluþátttaka

BSRB fagnar því að í frumvarpinu sé lagt til að geiðsluþátttaka almennings vegna heilbrigðisþjónustu lækki um sem nemur 800 m.kr. Hins vegar vill bandalagið benda á að upplýsingar um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga þyrftu að vera gagnsærri til að auðvelda fjárveitingarvaldinu og almenningi að fylgjast með þróuninni. BSRB hvetur til þess að aðgengi að slíkum upplýsingum og framsetning þeirra verði stórbætt.

Hjúkrunarheimili

BSRB telur furðu sæta að aðhaldskrafa sé gerð á hjúkrunar- og dvalarheimili sem og aðra heilbrigðisþjónustu. Að ofan var rætt það gríðarlega álag sem nú er á heilbrigðisþjónustunni og á það ekki síður við um hjúkrunarheimilin. Sú hækkun sem gerð er á fjárveitingum til rekstrar er vegna nýrra hjúkrunarrýma en raunlækkun til málaflokksins virðist vera um 300 m.kr.

Eins og fram kemur í fjármálaáætlun er verið að vinna samkvæmt áætlun um nauðsynlega fjölgun hjúkrunarrýma og hækka fjárfestingarframlög um tæplega 1.400 m.kr. á milli ára. BSRB fagnar því en lýsir jafnframt yfir miklum áhyggjum af því að rekstur þeirra rýma sem tekin verða í notkun sé ekki að fullu fjármagnaður fyrir allt tímabil fjármálaáætlunarinnar.

Atvinnuleysistryggingar og lífeyrir almannatrygginga

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að atvinnuleysistryggingar og lífeyrir almannatrygginga eigi að hækka um 3,6% sem sé áætluð meðaltaxtahækkun á vinnumarkaðinum í heild fyrir árið 2021. Þessi aðferðafræði stangast í grundvallaratriðum á við núgildandi kjarasamninga þar sem samið var um krónutöluhækkanir en ekki hlutfallslegar hækkanir með það að markmiði að hækka lægri laun umfram hærri og stuðla þannig að jöfnuði. Ef sú leið verður farin við hækkun bóta sem boðuð er í frumvarpinu er verið að taka þá ákvörðun að auka ójöfnuð gagnvart lífeyrisþegum og fólki á atvinnuleysisskrá. Eins og sjá má á töflunni hér að neðan hækka bætur um 9.210 – 11.580 kr. á mánuði á meðan lágmarkstekjutrygging samkvæmt lífskjarasamningi nemur 16.000 kr. Þetta er þriðja árið í röð sem lífeyrir almannatrygginga hækkar ekki til samræmis við kjarasamningsbundnar hækkanir og sú leiðrétting sem gerð var á grunnfjárhæðum atvinnuleyistrygginga árið 2019 hefur ekki haldið í við þróun launa síðan.

Tölfræði um atvinnuleysistryggingar og lífeyrisgreiðslur

BSRB mótmælir harðlega þessum áformum sem fela í sér ákvörðun um að auka ójöfnuð í íslensku samfélagi. Vinnumálastofnun spáir því að um 25.000 manns verði án atvinnu í árslok og að atvinnuleysi verði mikið á komandi misserum. Það er jákvætt að rétturinn til tekjutengdra greiðslna atvinnuleysistrygginga hafi verið lengdur tímabundið úr þremur mánuðum í sex en frekari aðgerða er þörf til að tryggja betur afkomu þeirra sem hafa misst vinnuna. Hækka verður bæturnar til samræmis við laun, framlengja hlutabótaúrræðinu, sem að óbreyttu fellur niður um áramót, og lengja atvinnuleysistryggingatímabilið sem nú er 30 mánuðir. Eftir efnahagshrunið 2008 var rétturinn lengdur úr 36 mánuðum í 48 mánuði til að veita fólki í atvinnuleit aukið öryggi og til að draga úr útgjöldum sveitarfélaga til fjárhagsaðstoðar.

Í greinagerð með fjárlagafrumvarpinu segir á bls. 109 að eitt af helstu áherslumálum á útgjaldalið sé hækkun á frítekjumarki atvinnutekna aldraðra. Ekki er að sjá að verið sé að leggja fram breytingu á lögum um almannatryggingar hvað þetta varðar. Sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna er nú 100.000 kr. á mánuði og hefur verið óbreytt um nokkurra ára skeið.

Hins vegar er verið að framlengja bráðabirgðaákvæði um frítekjumark örorkulífeyris sem nemur 1.315.200 kr. á ári. Frítekjumarkið hefur haldist óbreytt frá 1. júlí 2009 og ætti með réttu að vera nánast tvöfalt hærra í dag hefði það fylgt launavísitölu. BSRB hvetur stjórnvöld til að flýta endurbótum á lífeyriskerfi örorkulífeyrisþega. Hætta á fátækt og fjárhagsþrengingum er mest meðal örorkulífeyrisþega og flókin skerðingarákvæði kerfisins ýta undir þá hættu. Börn þeirra og einstæðra foreldra eru í langmestri fátæktarhættu. Hjálparstofnanir merkja nú þegar stóraukna þörf fyrir aðstoð og segja flesta í þeim hópi vera öryrkja, langveikar einstæðar mæður og atvinnulaust fólk.

Húsnæðismál

Það vekur áhyggjur BSRB að útgjöld til húsnæðismála fara lækkandi sem hlutfall af VLF á næstu árum. Í greinagerð með fjárlagafrumvarpinu á bls. 109 segir að auka eigi stofnframlög til byggingar á leiguhúsnæði fyrir þá tekjulægri, og er þar átt við íbúðir í almenna íbúðakerfinu. Sú hækkun kemur ekki fram í frumvarpinu. Stofnframlög verða þau sömu og síðastliðin ár eða tæplega 3,8 ma. kr. og útgjöld til húsnæðisbóta eru áætluð þau sömu þrátt fyrir fjölgun almennra íbúða. Þetta þýðir að húsnæðisstuðningur til tekjulægri heimila lækkar að raungildi að óbreyttu. Lækkun vaxtabóta hefur líka umtalsverð áhrif á útgjöld til húsnæðismála. Enn eina ferðina er verið að lækka útgjöld til þeirra þar sem skerðingamörk vegna eigna eru ekki hækkuð til samræmis við hækkun fasteignaverðs. BSRB ítrekar mótmæli sín gegn því að verið sé að leggja niður vaxtabótakerfið með árlegri lækkun bótanna.

Í greinagerð með frumvarpi um hlutdeildarlán, mál 926 á 150. löggjafarþingi, er m.a.fjallað um áætlaðan húsnæðisstuðning eftir tekjutíundum á bls. 11. Þar kemur fram að húsnæðisstuðningur við fólk í efstu tekjutíund er hæstur, að undanskildum fjórðu og fimmtu tekjutíund, vegna skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignasparnaðar. BSRB telur nauðsynlegt að gerð verði greining á því hvort fjármunum ríkisins til húsnæðisstuðnings sé varið með nægilega markvissum hætti og hvort hann í einhverjum tilfellum hafi áhrif til hækkunar verðs á fasteignmarkaði. Markmiðið með opinberum húsnæðisstuðningi á fyrst og fremst að vera að tryggja húsnæðisöryggi tekjulægri hópa og heimila með mikla framfærslubyrði.

Barnabætur

Í greinagerð með fjárlagafrumvarpinu á bls. 109 segir að hækka eigi barnabætur. Ekki er það að sjá af talnaefni frumvarpsins og ekki er lögð til breyting á tekjuskattslögum þess efnis. BSRB birti sl. vetur rannsókn sína á íslenska barnabótakerfinu. Niðurstöðurnar sýna að tekjur byrja að skerðast nærri lágmarkslaunum. Á hinum Norðurlöndunum eru barnabæturnar ekki tekjutengdar, nema í Danmörku þar sem bætur byrja að skerðast við meðaltekjur. BSRB leggur til að skerðingarmörk bótanna verði hækkuð nú og að hafin verði heildarendurskoðun á kerfinu til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasaminga BSRB síðastliðið vor [8]. Að óbreyttu munu barnabætur rýrna að verðgildi og þar með draga úr kaupmætti tekjulægri barnafjölskyldna.

Fæðingarorlof

BSRB fagnar því að áður samþykkt og langþráð lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði taki gildi þann 1. janúar 2021. Eftir sem áður þarf að brúa umönnunnarbilið milli þess að fæðingorlofi lýkur og barn kemst í tryggt dagvistunarúrræði. Þetta tímabil hefur neikvæð áhrif á tekjumöguleika fjölskyldna og hefur verulega neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Samkvæmt skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði eru það að meginstefnu til mæður sem axla ábyrgð á umönnun barna sinna á þessu tímabili og má áætla að þær séu að meðaltali fjórfalt til fimmfalt lengur frá vinnumarkaði í kjölfar barneigna en feður miðað við núverandi kerfi. Ljóst er að verulegur kostnaður fylgir því að tryggja öllum börnum dagvistunarúrræði að loknu fæðingarorlofi. Þetta er samfélagslegt vandamál og leggur BSRB því áherslu á að ríkið styðji við sveitarfélögin þegar kemur að því að tryggja öllum börnum aðgengi að leikskóla að loknu fæðingarorlofi.

Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að greiðslur fæðingarorlofs og fæðingarstyrkur hækki. Fjárhæðirnar hafa verið óbreyttar frá 1. janúar 2019 og verða því að hækka til samræmis við launaþróun. Að öðrum kosti er verið að rýra afkomu foreldra í fæðingarorlofi hlutfallslega miðað við annarra sem eru í launavinnu.

Samantekt
  • Rekstur ríkissjóðs er ósjálfbær, m.a. vegna ófjármagnaðra skattalækkana sem ríkisstjórnin hefur ráðist í á kjörtímabilinu ‒ öðrum en þeim sem tengjast heimsfaraldrinum. BSRB ítrekar mótmæli sín gegn þessari stefnu.
  • Ríkisstjórnin ætlar að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs 2025 með því að minnka umfang ríksirekstrar í hagkerfinu miðað við fyrri áratugi með niðurskurði á útgjöldum. Þessi stefna sést m.a. í aðhaldsaðgerðum í fjárlagafrumvarpinu í mikilvægum málaflokkum eins og heilbrigðisþjónustu, óútfærðum aðhaldsaðgerðum næstu ára og því að bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga, vaxtabætur, barnabætur og fæðingarorlofsgreiðslur hækka ekki til samræmis við laun. Í raun er verið að taka ákvörðun um að auka ójöfnuð í stað þess að fjármagna þjónustu- og tilfærslukerfin með fullnægjandi hætti. BSRB hafnar þessari stefnu alfarið.
  • Efla verður tekjustofna sveitarfélaga. Áformaður útgjaldaniðurskurður er ávísun á skerðingu á almannaþjónustu og aukinn félagslegan vanda til lengri tíma. Konur eru í miklum meirihluta þeirra sem sinna þessari þjónustu og því mun atvinnuleysi meðal kvenna aukast og skert þjónusta mun auka enn frekar á ólaunaða vinnu kvenna.
  • Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar fær falleinkun frá BSRB því 85% af þeim störfum sem það á að skapa eru fyrir karla. Mest aukning atvinnuleysis er meðal kvenna, ungs fólks og erlendra ríkisborgara. Nauðsynlegt er að atvinnusköpun beinist að þeim sem mest þurfa á henni að halda. Engu að síður er jákvætt að verið sé að fara í löngu tímabærar fjárfestingar og að fjármagn til rannsókna og nýsköpunnar sé aukið.
  • Stefna ríkisstjórnarinnar mun leiða til hlutfallslegrar fækkunar starfa í opinberri þjónustu á næstu árum. Nýleg alþjóðleg rannsókn sýnir hins vegar að fjárfesting í umönnun og velferð skapar fleiri störf en framkvæmdir því nánast allur kostnaður þjónustunnar felst í launakostnaði öfugt við framkvæmdir þar sem mikið fjármagn fer í aðföng. Fjárfesting í umönnun og velferð eykur framleiðni til lengri tíma, leiðir til hærra atvinnustigs, og eykur eftirspurn eftir vörum og þjónustu fyrirtækja sem aftur eykur tekjur ríkissjóðs. Þá er löngu tímabært að unnið sé markvisst að því að útrýma viðvarandi manneklu í fjölmörgum starfsstéttum innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins.
  • BSRB fagnar því að áfram sé haldið á þeirri braut að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustu, draga úr greiðsluþátttöku almennings vegna heilbrigðisþjónustu og sérstöku átaki til heilsueflingar í heimabyggð vegna heimsfaraldursins.
  • BSRB fagnar því að fæðingarorlof lengist í 12 mánuði frá og með næsta ári. Mikilvægt er að áfram verði haldið á þeirri braut að auka öryggi og afkomu smábarnafjölskyldna með því að ríkið og sveitarfélög vinni saman að því að brúa umönnunnarbilið milli þess að fæðingorlofi lýkur og barn kemst í tryggt dagvistunarúrræði. Þetta tímabil hefur neikvæð áhrif á tekjumöguleika fjölskyldna og hefur verulega neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði.
  • Gert er ráð fyrir að bætur almannatrygginga og atvinnuleysistryggingar hækki um 3,6% eða um 9.000 til 11.500 kr. á mánuði og halda ekki í við launaþróun og hafa ekki gert síðast liðin ár. Með þessu er verið að taka ákvörðun um að auka ójöfnuð.
  • BSRB lýsir yfir áhyggjum af því að verið sé að draga úr útgjöldum til húsnæðismála. Gera verður greiningu á því hvernig opinber stuðningur nýtist mismunandi tekjuhópum og nýta hann fyrst og fremst til að tryggja húsnæðisöryggi tekjulægri heimila.
  • BSRB gerir alvarlega athugasemdir við að í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sé ekki lögð ríkari áhersla á aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og til aðlögunar vegna óhjákvæmilegra áhrifa loftslagsbreytinga. Svo virðist sem hætt hafi verið við áform um skattlagningu úrgangs til urðunar og munu markmið í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum um samdrátt losunar því ekki nást að óbreyttu.

 

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

 

[1] Yfirlýsing frá Norræna verkalýðssambandinu

[2] Frétt BSRB um niðurstöður könnunar

[3] Tilkynning Eurostat

[4] Skýrsla ITUC um fjárfestingu í umönnun

[5] Fyrsta skýrsla sérfræðingahóps um efnahagsleg áhrif Covid 19

[6] Frétt félagsmálaráðuneytisins um nám fyrir atvinnulausa

[7] Frétt BSRB um niðurstöður könnunar

[8] Yfirlýsing ríkisstjórnar í tengslum við gerð kjarasamninga við aðildarfélög BSRB 9. mars 2020

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?