Ómissandi fólk sem ekki er metið að verðleikum

„Okkar viðsemjendur hafa það í hendi sér að afstýra verkföllum með því að ljúka gerð kjarasamnings nú um helgina,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Undanþágunefndir aðildarfélaga BSRB ákváðu í gær að veita Landspítalanum og heilsugæslustöðvum tímabundna undanþágu frá verkfalli sem boðað hefur verið á mánudag og þriðjudag eftir að hættuástandi var lýst yfir vegna COVID-19 faraldursins.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir félögin taka ábyrga afstöðu, enda ekki ætlunin að valda almenningi hættu með aðgerðunum. „Þetta sýnir þó svart á hvítu hversu ómissandi okkar fólk er í almannaþjónustunni að heilu stofnanirnar eru ekki starfhæfar án þess. Það má svo skoða í því samhengi að opinberir vinnuveitendur hafa nú dregið það í nærri ár að gera kjarasamning við þetta ómissandi fólk. Var þá bara allt í lagi að hafa þessa stóru hópa sem halda uppi almannaþjónustunni án kjarasamnings í allan þennan tíma? Án kjarabóta sem aðrir hafa löngu fengið? Það eru augljóslega fráleit vinnubrögð og vanvirðing við starfsfólk sem þessar stofnanir geta ekki verið án,“ segir Sonja.

„Það fylgir því gríðarleg ábyrgð að reka almannaþjónustuna. Okkar fólk er mjög meðvitað um mikilvægi sinna starfa. Nú þurfa ríkið og sveitarfélög að sýna að þau skilji það líka og ganga til kjarasamninga strax. Við höfum enn tíma til stefnu áður en verkfallsaðgerðir skella á. Okkar viðsemjendur hafa það í hendi sér að afstýra verkföllum með því að ljúka gerð kjarasamnings nú um helgina,“ segir Sonja.

Sleitulausir fundir í kjaradeilu

Kjaraviðræður hafa haldið áfram sleitulaust undanfarna daga og eru fundir þegar hafnir í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Nú þegar samkomulag hefur náðst um styttingu vinnuvikunnar hefur BSRB lagt áherslu á að klára viðræður um jöfnun launa milli markaða, sem er eitt af síðustu málunum á sameiginlegu borði BSRB sem eftir er að klára.

„Umræðan um jöfnun launa milli markaða er langt á veg komin en það á eftir að hnýta einhverja lausa enda,“ segir Sonja. Krafa bandalagsins byggir á samkomulagi um jöfnun lífeyrisréttinda, sem gert var árið 2016. Þar var kveðið á um að laun yrðu jöfnuð milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins og vill bandalagið ná áfanga á þeirri vegferð í þessum kjarasamningum.

Samninganefndir aðildarfélaga bandalagsins hafa einnig fundað stíft með viðsemjendum undanfarna daga og munu þeir fundir einnig halda áfram um helgina. Þar er rætt um launaliðinn og önnur sérmál sem þarf að ná samkomulagi um eigi kjarasamningar að nást.

Í viðræðum aðildarfélaga hafa komið upp ýmsar óvæntar brekkur, til dæmis í viðræðum Sameykis við samninganefnd ríkisins. Kröfur Sameykis um launahækkanir eru í fullu samræmi við lífskjarasamninginn en Árni Stefán Jónsson, formaður félagsins, segir samninganefnd ríkisins bjóða félagsmönnum Sameykis verri kjör en kveðið sé á um í lífskjarasamningnum. Í ljósi þeirrar áherslu sem stjórnvöld hafa lagt á að samið sé innan þess ramma sem lífskjarasamningurinn markaði er tregða samninganefndar ríkisins óskiljanleg og í engu samræmi við yfirlýsingar ráðamanna.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?