Helmingur launafólks gat unnið í fjarvinnu

Meirihluti þeirra sem á annað borð vann í fjarvinnu vegna COVID-19 var sáttur við fyrirkomulagið.

Rúmlega helmingur launafólks, um 52 prósent, áttu þess kost að vinna fjarvinnu vegna COVID-19 faraldursins samkvæmt könnun rannsóknarfyrirtækisins Maskínu fyrir BSRB.

Mikill munur var á svörum fólks eftir búsetu. Þannig sögðust 61 til 63 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins hafa átt þess kost að vinna fjarvinnu en tæplega 35 prósent íbúa utan höfuðborgarsvæðisins.

Munurinn er mikill þegar svör þátttakenda eru skoðuð eftir menntun. Rúmlega 22 prósent fólks með grunnskólapróf gat unnið fjarvinnu og 32 prósent fólks með framhaldsskólapróf. Til samanburðar gátu tæplega 66 prósent þeirra sem lokið höfðu grunnnámi í háskóla unnið fjarvinnu og 81 prósent þeirra sem lokið höfðu framhaldsnámi við háskóla.

Þá var verulegur munur á því eftir tekjum hvort fólk gat unnið fjarvinnu og áttu tekjulágir þess síður kost að vinna fjarvinnu en tekjuhærri. Þannig sögðust tæp 20 prósent þeirra sem eru með heimilistekjur undir 400 þúsundum hafa getað unnið fjarvinnu og 32 prósent þeirra sem eru með heimilistekjur á bilinu 400 til 549 þúsund krónur. Til samanburðar gátu 69 prósent þeirra sem voru með eina milljón eða meira í heimilistekjur unnið fjarvinnu.

Meirihlutinn ánægður með fjarvinnu

Almennt var fremur lágt hlutfall þeirra sem á annað borð unnu fjarvinnu ósátt við það fyrirkomulag. Um 13 prósent sögðu að þeim hafi líkað fjarvinnan frekar eða mjög illa en nærri 58 prósent sögðu að sér hafi líkað það fremur eða mjög vel að vinna fjarvinnu. Almennt voru foreldrar með börn á heimilinu sáttari við að vinna fjarvinnu en barnlaus pör, en fólk sem býr eitt var almennt ósáttast við að vinna í fjarvinnu.

 

Líkaði þér fjarvinnan vel eða illa?

 

Rannsóknin var unnin af rannsóknarfyrirtækinu Maskínu fyrir BSRB dagana 24. apríl til 4. maí. Markmiðið með rannsókninni var að meta áhrif COVID-19 heimsfaraldursins á líf og störf íslensks launafólks. Þátttakendur voru 1.050 talsins, 18 ára og eldri, allsstaðar að af landinu. Hópurinn sem tók þátt endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.

Hér má finna fleiri fréttir um niðurstöður rannsóknarinnar:


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?