Eyða þarf umönnunarbilinu án tafar

Skýr ákvæði eru í lögum annarra Norðurlanda en Íslands um rétt barna til dagvistunarúrræða að loknu fæðingarorlofi.

Borgarbyggð hefur nú bæst í hóp sveitarfélaga sem bjóða dagvistun barna frá 9 mánaða aldri. Þó það sé fagnaðarefni að sveitarfélög taki þátt í að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, hið svokallaða umönnunarbil, telur BSRB eðlilegra að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og bjóða öllum börnum upp á tryggt leikskólapláss að því liðnu.

Eins og fram kom í fréttum RÚV munu tveir af fimm leikskólum í Borgarbyggð taka inn börn frá níu mánaða aldri frá og með næsta hausti. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs. Kveikjan er meðal annars sú staðreynd að dagforeldri sem starfaði í sveitarfélaginu hefur ákveðið að hætta starfsemi.

Þó það sé lofsvert að sveitarfélagið bregðist við til að koma foreldrum til aðstoðar beinir þetta kastljósinu að þeim vanda sem er undirliggjandi út um allt land. Eins og rakið var í skýrslu um dagvistun barna sem BSRB sendi frá sér í nú í lok maí er mikill munur á þeirri þjónustu sem sveitarfélög bjóða börnum. Börn eiga misjafnan rétt eftir því í hvaða sveitarfélagi foreldrar eru búsettir, sem BSRB telur óásættanlegt.

Könnun bandalagsins leiddi í ljós að börn eru að meðaltali 20 mánaða þegar þau komast inn á leikskóla, en fæðingarorlof er aðeins 9 mánuðir. Þá eru dagforeldrar aðeins starfandi í 21 af 74 sveitarfélögum, en þar búa um 88% íbúa landsins.

Tryggir ekki rétt beggja foreldra

Eins og bent er á í skýrslu BSRB um dagvistunarmál barna er sveitarfélögunum í sjálfsvald sett við hvaða aldur börn eiga rétt á dagvistunarúrræðum. Þar sker Ísland sig frá hinum Norðurlöndunum, þar sem skýr ákvæði eru í lögum um rétt barna til dagvistunar þegar fæðingarorlofi sleppir.

Núverandi fyrirkomulag tryggir að litlu eða engu leyti möguleika beggja foreldra til þátttöku á vinnumarkaði að loknu fæðingarorlofi og tryggir ekki jafnræði í þjónustu við börn að loknu fæðingarorlofi.

BSRB leggur áherslu á að stjórnvöld fari þegar í stað að tillögum sem starfshópur um framtíðarfyrirkomulag fæðingarorlofsmála skilaði til félagsmálaráðherra vorið 2016. Lengja þarf fæðingarorlofið í 12 mánuði og jafnframt tryggja með lögum að börn eigi rétt á leikskólavist þegar að þeim tíma liðnum.

Lestu meira um skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði barna.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?