Norðurlönd, Evrópa og veröldin öll stríða nú samtímis við kreppu. Hugur okkar, í norrænu verkalýðshreyfingunni, er með þeim sem hafa veikst, misst ástvini eða finna til kvíða vegna ástandsins. Á sama tíma standa margir frammi fyrir því að missa atvinnuna eða hafna í ótryggum fjárhagsaðstæðum.
Í heilbrigðiskreppu verður okkur sérstaklega ljóst mikilvægi norræna líkansins, þar sem velferðarkerfið er sameign allra og fjármagnað af ríkinu. Það einstaklega mikilvæga starf sem starfsfólk í umönnun innir af hendi og hættir jafnvel eigin heilsu og lífi til þess er ómetanlegt. Við erum öll full þakklætis í garð þessa fólks. Margir hafa lagt hart að sér við að standa vörð um velferðarkerfið og verja okkur gegn farsóttinni. Við erum þeim einnig þakklát.
Það er mikil hætta á að heilbrigðiskreppan sem Norðurlöndin, Evrópa og heimurinn standa nú andspænis geti haft skelfilegar afleiðingar fyrir hagkerfi okkar, atvinnulíf og möguleika fólks á að snúa aftur til starfa sinna. Þung ábyrgð hvílir á herðum stjórnvalda, annars vegar að bjarga mannslífum frá Covid19-farsóttinni og hins vegar að standa vörð um hagkerfi okkar, sem einnig snýst um að bjarga mannslífum. Ríkisstjórnir okkar standa frammi fyrir viðkvæmu verkefni án sögulegrar hliðstæðu.
Eitt af markmiðum norræns samstarfs hefur verið að stuðla að frjálsu flæði fólks á milli ríkja Norðurlanda til að stunda atvinnu, búa og læra þar sem við viljum. Norræna verkalýðshreyfingin hefur alltaf verið hlynnt norrænu samstarfi og samþættingu. Af þeim sökum höfum við gagnrýnt alls kyns stjórnsýsluhindranir sem hindra þetta frjálsa flæði. Gott dæmi um slíka stjórnsýsluhindrun eru afar illa samstilltar reglur almannatryggingakerfisins.
Norðurlandabúar sem búa í einu landi og vinna í öðru eiga í dag á hættu, ef þeir veikjast eða missa vinnuna, að falla á millis skips og bryggju í hinum ólíku tryggingakerfum og missa bótarétt. Þetta hefur sýnt sig með afar skýrum hætti í kórónafaraldrinum. Það er löstur á norrænu samstarfi að norrænum stjórnvöldum hafi ekki enn tekist að koma skikki á þetta kerfi. NFS hvetur því ríkisstjórnir Norðurlanda til að leysa þetta vandamál hið snarasta, í eitt skipti fyrir öll. Norrænu almannatryggingakerfin verða að vinna betur saman.
Samstarf aðila vinnumarkaðarins og norræna líkanið hafa sannað gildi sitt. Það hefur gert ríkjum Norðurlanda kleift að mæta og takast á við krefjandi aðstæður í heimsfaraldri. Velferðarkerfi sem er fjármagnað með skattpeningum borgaranna er forsenda tekjutryggingar og góðrar heilbrigðisþjónustu á víðsjárverðum tímum, óháð tekjum hvers og eins.
Loftslagsváin liggur enn í leyni í skugga kórónuveirunnar. Norræna verkalýðshreyfingin krefst þess að ríkisstjórnir okkar sæti nú lagi og veiti þeim fjármunum sem þarf til þess að ná markmiðum okkar um sjálfbæra þróun. Það mun bjarga störfum. Það mun skapa störf.
Öflugar og sjálfbærar fjárfestingar í til dæmis iðnaði, húsnæðismálum og uppbyggingu innviða hjálpar hagkerfum okkar til þess að komast í gegnum erfiðleikana sterkari, grænni og samkeppnishæfari en þau hafa nokkru sinni verið.
Við viljum minna forsætisráðherra ríkja Norðurlanda á hið góða frumkvæði sem tekið var í fyrrasumar, þegar þið, í nafni norræns samstarfs, Norrænu ráðherranefndarinnar, gerðuð það að sameiginlegu markmiði að „Norðurlöndin eiga að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heimsins“.
Samþykkt á stjórnarfundi NFS, 22. apríl 2020
F.h. stjórnar NFS:
Bente Sorgenfrey, formaður NFS og varaformaður FH Danmörk
Lizette Risgaard, formaður FH Danmörk
Lars Qvistgaard, formaður Akademikerne Danmörk
Jarkko Eloranta, formaður SAK Finnland
Antti Palola, formaður STTK Finnland og varaformaður NFS
Jan Højgaard, formaður SAMTAK Færeyjar
Jess G. Berthelsen, formaður SIK Grænland
Drífa Snædal, forseti ASÍ Ísland
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB Ísland
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM Ísland
Hans-Christian Gabrielsen, formaður LO Noregur
Ragnhild Lied, formaður Unio Noregur
Erik Kollerud, formaður YS Noregur
Karl-Petter Thorwaldsson, formaður LO Svíþjóð
Therese Svanström, formaður TCO Svíþjóð
Göran Arrius, formaður Saco Svíþjóð
Magnus Gissler, framkvæmdastjóri NFS