Annað skammtímaverkfall félagsmanna SFR, FFR og LSS gagnvart Isavia stóð yfir frá kl. 4 til 9 í morgun. Verkfallsverðir félaganna stóðu vaktina og gættu þess að ekki væri gengið í störf félagsmanna. Allt gekk það snurðulaust fyrir sig og ekki kom til ágreinings um framkvæmd vinnustöðvunarinnar. Flugfarþegar sýndu góðan skilning á kjarabaráttu starfsmanna og biðu þolinmóðir eftir því að félagsmenn hæfu störf kl. 9.
Samninganefnd félaganna átti langan samningafund með fulltrúum Isavia í gær, en sá fundur stóð frá kl. 9 til 21.30 í gær. Samninganefnd SFR, FFR og LSS lagði fram ítarlega greiningu á kröfum félaganna, þar sem farið var vandlega í gegn um þær leiðréttingar og lagfæringar sem snúa að einstökum starfsmannahópum og félögin hafa lagt áherslu á. Einnig lögðu félögin fram vel útfærð heildardrög að samningi milli aðila, sem byggð er á umræddri greiningu. Nokkuð bar á milli aðila þegar hlé var gert á vinnunni í gærkveldi, en ákveðið var að aðilar myndu halda vinnunni áfram í dag miðvikudag.
Sáttasemjari hefur boðað fund kl. 15 í dag og er samninganefnd félaganna tilbúin til að leggja dag við nótt til að vinna að ásættanlegri lausn og samningi. Næsta skammtímaverkfall er boðað á föstudagsmorguninn næsta ef ekki hefur náðst að semja fyrir þann tíma. Félögin vænta þess að SA og Isavia noti tímann vel og komi með ríkan samningsvilja að samningaborði í dag. Náist ekki að semja fyrir föstudaginn brestur sú vinnustöðvun á og framundan er svo allsherjarverkfall sem hefst þann 30. apríl. Vonir standa til að SA og Isavia komi að samningaborði með þann ásegning að semja fyrir þann tíma svo ekki komi til langvarandi vinnustöðvunar á flugvöllum landsins