Ríflega níu af hverjum tíu landsmönnum vill að stjórnvöld verji meira fé til heilbrigðismála þó það þýði að skattar verði hækkaðir. Þetta kom fram í alþjóðlegri rannsókn sem fjallað var um á málþingi í Háskóla Íslands nýverið.
„Íslendingar vilja öflugt heilbrigðiskerfi sem er fjármagnað og rekið af ríkinu,“ sagði Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, í erindi sínu Þjóðarspeglinum, málstofu þar sem fjallað var um framtíð heilbrigðiskerfisins, sem fram fór í Háskóla Íslands 3. nóvember síðastliðinn. Þar fór hún yfir niðurstöður nýrrar rannsóknar á viðhorfum Íslendinga til heilbrigðiskerfisins, sem gerð var hér á landi á vegum International Social Survey Programme fyrr á árinu.
Meðal þess sem fram kom var að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, um 93,2 prósent, vilja að ríkið eyði hærri upphæðum en það gerir til heilbrigðismála, sem eru afar afgerandi niðurstöður, að mati Sigrúnar.
„Það sem vekur sérstaka athygli hér er að nærri 50 prósent vilja eyða mun meira,“ sagði Sigrún, en 44 prósent sögðust vilja eyða meiru og 49,2 prósent mun meiru en áður. Þá sagði hún þetta sérstaklega athyglisvert þar sem spyrlar í könnuninni spurðu sérstaklega hvort svarendur væru tilbúnir til að eyða meira þó það gæti kallað á skattahækkanir. Þrátt fyrir það kom svona afgerandi niðurstaða.
Heilbrigðismálin í sérflokki
Þegar spurt var um aðra þætti en heilbrigðismál, til meta hversu mikilvæg heilbrigðismálin eru í huga fólks, sögðust um 80 prósent vilja eyða meiru í löggæslu og 74 prósent vildu eyða meiru í menntun. Heilbrigðisþjónustan skar sig því úr þar sem 93,2 prósent vilja eyða meiru í þá þjónustu.
Í rannsókninni var einnig spurt hver eigi að sjá um að veita heilbrigðisþjónustuna. Þar var niðurstaðan afgerandi. Um 94,2 prósent vilja að ríkið veiti heilbrigðisþjónustu í landinu. Um 1,3% vilja að þjónustan sé veitt af einkareknum samtökum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, og 4,1 prósent vilja að hún sé veitt af einkareknum fyrirtækjum sem rekin eru í hagnaðarskyni.
Þessar niðurstöður eru svipaðar og þær sem Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, hefur fengið út úr sínum rannsóknum. Niðurstöður hans eru að einhverju leyti raktar í umfjöllun BSRB um baráttuna um heilbrigðiskerfið.