Velferðarvakt skiptir máli

Fyrstu niðurstöður mats á störfum Velferðarvaktarinnar árin 2009-2014 benda til þess að Velferðarvaktin hafi gegnt mikilvægu hlutverki í kjölfar efnahagshrunsins og stuðlað að úrbótum í þágu ýmissa hópa í samfélaginu sem þurftu á stuðningi að halda.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kynnti drög að matsskýrslu um velferðarvaktina á morgunverðarfundi sem stofnunin og velferðarráðuneytið stóðu fyrir á Háskólatorgi fyrir skemmstu. Velferðarvaktin var stofnuð árið 2009 af þáverandi félagsmálaráðherra í þeim tilgangi að fylgjast með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum efnahagshrunsins fyrir heimilin í landinu og gera tillögur til stjórnvalda um aðgerðir og úrbætur. Í Velferðarvaktinni hafa frá upphafi átt sæti fulltrúar stofnana og hagsmunasamtaka sem tengjast á einhvern hátt velferðarþjónustu og vinnu að velferðarmálum en með tímanum hefur fjölgað nokkuð í hópnum. BSRB hefur átt fulltrúa í Velferðarvaktinni frá því að hún var sett á stofn.

Rannsókn Félagsvísindastofnunar fólst einkum í könnunum sem gerðar voru meðal fulltrúa sem áttu sæti í velferðarvaktinni eða tóku þátt í störfum vinnuhópa á hennar vegum og könnun meðal almennings. Í stuttu máli sýna niðurstöður þessara kannana að um helmingur þeirra sem þekkti til Velferðarvaktarinnar telur að störf hennar hafi skipt frekar eða mjög miklu máli fyrir íslenskt samfélag í kjölfar hrunsins. Kannanirnar sýna að þeir sem sátu í velferðarvaktinni eða unnu með henni töldu hana hafa nýst þeim vel sem samstarfsflötur ólíkra stofnana og samtaka á sviði velferðarmála, gefið kost á skoðanaskiptum, miðlun upplýsinga og fræðslu og reynst góð leið til að vekja athygli á verkefnum sem kröfðust úrlausnar. Í drögum að matsskýrslu um störf velferðarvaktarinnar er bent á að margar aðgerðir sem gripið var til af stjórnvöldum til að stuðla að velferð almennings voru í takt við tillögur hennar.

Skipunartími Velferðarvaktarinnar rann út í febrúar á þessu ári. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, ákvað fljótlega að í ljósi góðrar reynslu væri rétt að skipa velferðarvakt að nýju en með aðkomu fleiri aðila en áður. Ný velferðarvakt var skipuð í júní síðastliðnum og gegnir hún í meginatriðum sama hlutverki og forveri hennar nema hvað sérstök áhersla er lögð á að vaktin hugi að velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna og þeirra sem búa við sára fátækt.

Vinna Félagsvísindastofnunar við mat á störfum velferðarvaktarinnar er hluti af norrænu verkefni sem efnt var til á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherraefndinni 2014 og ber heitið Norræna velferðarvaktin 2014-2016. Verkefnið er til þriggja ára og er markmið þess að stuðla að sjálfbærni norrænu velferðarkarfanna með því að efla rannsóknir og auka samvinnu Norðurlandaþjóðanna á sviði velferðarmála.


 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?