Velferðarkerfið ekki á dagskrá stjórnvalda

Alþingi samþykkti nýlega fjármálastefnu stjórnvalda til næstu fimm ára. Þar birtast markmið ríkisstjórnarflokkanna fyrir afkomu og efnahag til ársins 2021. Það eru að mati BSRB veruleg vonbrigði að stjórnvöld ætli sér ekki að standa fyrir þeirri markvissu uppbyggingu velferðarkerfisins sem kallað hefur verið eftir.

Það er jákvætt að fimm ára fjármálastefna hafi nú í fyrsta skipti verið sett fram, eins og lög kveða á um, þó eðlilegra hefði verið að leggja hana fram fyrr á kjörtímabilinu. Það er hins vegar alls ekki jákvætt að sú stefna sem Alþingi hefur nú samþykkt stefnir mun leiða af sér aukna mismunun í íslensku samfélagi með rangri forgangsröðun í ríkisútgjöldum og tekjuöflun.

Velferðarkerfið holað að innan

Ekkert í þessari áætlun til næstu fimm ára bendir til þess að núverandi stjórnarflokkar ætli sér að ráðast í það stóra verkefni sem blasir við, að endurreisa velferðarkerfið sem hefur verið holað að innan á undanförnum árum.

Nefna má sem dæmi ákall stórs hluta þjóðarinnar um að stjórnvöld verji stórauknum fjármunum í heilbrigðiskerfið, sem er að hruni komið. Ekki verður séð á áætluninni að slíkt sé í kortunum. Þá er ekki gert ráð fyrir að staðið verði við áform um að lækka verulega greiðsluþak sem sett hefur verið á hluta af greiðslum sjúklinga.

Þá má nefna að ekki verður séð að stjórnvöld ætli sér að efla fæðingarorlofskerfið, eins og starfshópur ráðherra hefur lagt til. BSRB leggur þunga áherslu á að farið verði eftir tillögum starfshópsins. Meðal þess sem þar var lagt til var að greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi að 300 þúsund krónum á mánuði skerðist ekki, að hámarksgreiðslur hækki í 600 þúsund krónur á mánuði, og að orlofið verði lengt úr níu mánuðum í tólf.

Svigrúm til að breyta áætlun

Það góða við fjármálastefnu stjórnvalda til ársins 2021 er þá kannski helst sú staðreynd að áætlunin jafngildir ekki fjárlögum og verulegt svigrúm ætti að vera til þess að breyta út af áætluninni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?