Uppsagnir og útvistun úrelt aðferðafræði

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Á sama tíma og stjórnvöld grípa til aðgerða til að sporna gegn gríðarháu atvinnuleysi í heimsfaraldri kórónaveirunnar berast fréttir af opinberum stofnunum sem hafa ákveðið að segja upp lægst launaðasta starfsfólkinu sínu í hagræðingarskyni.

Fréttir af uppsögnum eða fyrirhuguðum uppsögnum hafa þegar borist frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Seltjarnarnesbæ og Hveragerði. Ekki er verið að hætta með þjónustuna sem starfsfólk mötuneyta og starfsfólk sem sinnir ræstingum veitir heldur verður henni framvegis útvistað til einkafyrirtækja.

Útvistun stoðþjónustu hjá hinu opinbera, til dæmis við þrif og þvotta og í mötuneytum var með því fyrsta sem stjórnendur opinberra stofnana gripu til í sparnaðarskyni eftir hrunið haustið 2008. Það eru að megninu til konur og fólk af erlendu bergi brotið sem sinnir þessum störfum, sem eru meðal þeirra verst launuðustu í okkar samfélagi.

Þessa dagana virðast margir stjórnendur ætla fara í sama farið þrátt fyrir að áskoranirnar sem við nú stöndum frammi fyrir séu afar ólíkar þeim sem við stóðum frammi fyrir eftir hrunið haustið 2008. Það eitt og sér að einkafyrirtæki geti boðið lægra verð fyrir sömu eða sambærilega þjónustu er umhugsunarvert. Eina leiðin til að ná því fram er að lækka laun starfsfólks og bjóða upp á lakari starfsaðstæður. Til að ná fram sparnaði þarf að láta fólk hlaupa enn hraðar í vinnu eða skila verra dagsverki.

Reynslan sýnir að ef á annað borð næst fram sparnaður með slíkum aðgerðum er það yfirleitt til skamms tíma. Á móti missa vinnustaðirnir tengingu við þennan hóp starfsmanna. Þegar starfsfólk í ræstingum, mötuneytum og annarri stoðþjónustu er hluti af starfshópi stofnunar tekur það þátt í starfsemi stofnunarinnar, svo sem stefnumótun og gæðavinnu, sem er augljós kostur fyrir vinnustaðinn.

Einkavæðing stoðþjónustu stofnana í sparnaðarskyni naut mikilla vinsælda upp úr 1980 og síðar hér á landi og í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Fjölmargar skýrslur hafa verið skrifaðar um árangurinn og áhrifin. Fyrirtæki og stofnanir leituðust við að spara með því að hafa færra starfsfólk, með lakari starfsskilyrði og þar af leiðandi minni hvatningu í starfi.

Fjölmargir horfið frá einkavæðingu

Niðurstöðurnar gætu ekki verið skýrari og ættu þeir sem nú halda að hægt sé að spara með þessum hætti kynna sér þær áður en lengra er haldið. Afleiðingarnar voru þær að þjónustan versnaði til muna og stjórnendur neyddust til að hugsa málin upp á nýtt. Starfsaðstæður starfsfólks sem veitir opinbera þjónustu hafa mikil áhrif á hvernig þjónusta er veitt og hvort nauðsynleg úrræði séu til staðar til að veita gæðaþjónustu. Þess vegna hafa fjölmargir horfið frá einkavæðingu opinberrar stoðþjónustu og starfsfólk þannig fengið aftur réttindi sín og betri starfsaðstæður – sem gagnast ekki síst hópum í viðkvæmri stöðu.

Reynslan frá hruni sýnir jafnframt að lítið starfsöryggi, fjárhagsáhyggjur og slæmar starfsaðstæður eru streituvaldar sem auka líkur á slysum, langtímaveikindum og óvinnufærni. Í #metoo bylgunni var sýnt fram á mikilvægi öruggra starfsaðstæðna og að eyða þurfi valdaójafnvægi. Útvistun verkefna vekur því upp spurningar um hver ber ábyrgð á öryggi og heilsu starfsmanna í reynd. Hver ber ábyrgð ef starfsmaður verktaka er áreittur kynferðislega eða lendir í slysi á þeim stað sem vinnan hans fer fram og hver tryggir að tekið sé á málum með réttum hætti?

Samdráttaraðgerðir eins og uppsagnir hafa neikvæð áhrif á vinnustaðinn í heild sinni ef þær byggja ekki á sanngirni, ef skortur er á samráði við starfsfólk og ef ekki er tekið mið af raunverulegri þörf til að hagræða í rekstrinum.

Það er engin sanngirni í því að segja upp fólkinu á lægstu laununum til að reyna að spara nokkrar krónur en gera engar aðrar breytingar til að spara. Það er heldur ekki sanngjarnt gagnvart starfsfólkinu að grípa til uppsagna nú þegar stærsta efnahagslega áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er stóraukið atvinnuleysi, nema rekstrarvandi sé svo verulegur að hann leiði að óbreyttu til gjaldþrots. Þá er það langt frá því sanngjarnt að segja upp fólki þegar verkefni þeirra verða sannarlega enn til staðar og ef eitthvað er verður aukin krafa um vönduð vinnubrögð vegna hreinlætis og sóttvarna.

Tækifæri í faraldrinum

Heimsfaraldur kórónaveirunnar hefur sýnt okkur fram á það í eitt skipti fyrir öll hversu mikilvægt starfsfólk í almannaþjónustunni er í raun og veru. Í stað þess að grípa til löngu úreltra aðferða til að reyna að spara til skamms tíma ættu stjórnendur hjá hinu opinbera að nota reynsluna af faraldrinum sem hvatningu til að styrkja almannaþjónustuna og hlúa vel að nýrri kynslóð opinberra starfsmanna til að tryggja almenningi þá frábæru þjónustu sem hann á að venjast.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?