Tryggjum öryggi og heilsu í heimsfaraldrinum

Spurt og svarað um réttindi vegna COVID-19 faraldursins

Félagar í BSRB standa nú vaktina um allt land vegna heimsfaraldursins sem geisar. BSRB leggur áherslu á að öryggi og heilsa fólks sé tryggð, sérstaklega í framlínustörfum, en einnig heilt yfir í vinnu og einkalífi. Þar til viðbótar höfum við lagt áherslu á að gripið verði til markvissra aðgerða sem hafa það að markmiði að tryggja afkomu fólks. Þá höfum við lagt ríka áherslu á stuðning til foreldra sem ekki geta unnið í fjarvinnu en þurfa að vera heima vegna samkomubanns sem skerðir leik- og grunn skólastarf.

Faraldrinum fylgir óvissa og hann vekur upp minningar um kreppuna sem hófst árið 2008 og er enn í fersku minni margra. Aðstæður nú eru að mörgu leyti ólíkar enda orsakirnar ekki þær sömu. Á þessari stundu eru flestir sérfræðingar sammála um að verðbólga muni ekki aukast mikið og því muni kaupmáttur þeirra sem halda launa sínum ekki skerðast. Hins vegar má reikna með að mjög muni draga úr neyslu vegna samkomubanns, sem gerir okkur erfitt fyrir að nálgast vöru og þjónustu, og lækkandi ráðstöfunartekjur þeirra sem missa vinnuna að hluta eða öllu leyti. Þá hafa ráðstafanir ríkja um allan heim til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar og ótti fólks lokað á ferðalög fólks á milli landa.

Vegna þessa standa fjölmörg fyrirtæki frammi fyrir gríðarlegum áskorunum í rekstri. Fyrirtæki í ferðaþjónustu fundu fyrst fyrir áhrifunum en með hertari samskiptareglum verða áhrifin víðtækari dag frá degi. Sem betur fer hefur náðst samstaða um það í samfélaginu að setja heilbrigði fólks í fyrsta sæti, en það mun óhjákvæmilega hafa tímabundnar efnahagslegar afleiðingar í för með sér og ýta enn frekar undir atvinnuleysi.

Mikilvægar aðgerðir stjórnvalda

Stjórnvöld kynntu um helgina fyrsta áfanga til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar undir yfirskriftinni Viðspyrna fyrir Ísland - efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19. Að undanförnu hafa stjórnvöld átt samráð við BSRB og aðila vinnumarkaðarins vegna þessa.

Aðgerðirnar sem stjórnvöld hafa boðað eru að miklu leyti sambærilegar þeim sem nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum eru með í undirbúningi, eða hafa þegar hrint í framkvæmd að einhverju leyti. Megináherslan er á að tryggja störfin og sporna við atvinnuleysi. Aðgerðirnar miða að því að fyrirtæki með góðar rekstrarforsendur geti haldið starfsfólki sínu og hafið aftur eðlilega starfsemi um leið og aðstæður batna. Af þeim aðgerðum sem snúa að einstaklingum eru þær mikilvægustu nýsamþykkt lög um atvinnuleysisbætur á móti lækkuðu starfshlutfalli og lög sem tryggja öllu launafólki greiðslur í sóttkví. Einnig tókst að tryggja að foreldrar barna yngri en 13 ára og foreldrar barna yngri en 18 ára sem fá þjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir fengju líka laun þrátt fyrir fjarveru frá vinnu vegna sóttkvíar.

Eftir því sem staðan skýrist betur leggur BSRB áherslu á að kannað verði til hlítar hvort allir þeir hópar sem eiga í hættu að verða fyrir tekjumissi eða búa tímabundið við hann séu að fá viðeigandi stuðning. Ein af þeim áskorunum sem fylgir samkomubanni er verulega skert skóla- og frístundastarf barna og jafnvel lokanir. Fjölmargir foreldrar eiga þess ekki kost að vinna í fjarvinnu og þau tilmæli hafa verið gefin út að hvíla ömmur og afa frá barnapössun til að minnka líkur á að þau smitist af veirunni.

Samhent átak til að styðja við fjölskyldur

Það er samfélagsleg ábyrgð allra, þar á meðal fyrirtækja og stofnana, að virða tilmæli stjórnvalda í þessu ástandi sem krefst aukins sveigjanleika í störfum. Þess vegna þarf samhent átak til að styðja við fjölskyldur sem þurfa að vera frá vinnu vegna samkomubanns og geta ekki unnið heiman frá sér. Sömuleiðis að stuðla að því að framlínufólk í baráttunni við veiruna geti áfram sinnt störfum sínum þrátt fyrir að þurfa einnig að sinna börnunum sínum.

Allt helst þetta í hendur. Ef afkoma launafólks er ekki tryggð er hætt við að fólk veigri sér við að fylgja tilmælum yfirvalda. Þar af leiðandi er enn brýnna en ella að koma til móts við þarfir launafólks í þessum heimsfaraldri svo okkur takist sem best að takast á við faraldurinn og afleiðingar hans.

Störf félagsmanna aðildarfélaga BSRB í almannaþjónustu leggja grundvöll að góðu samfélagi og nú hefur sannað sig að án þeirra væri tjónið af yfirstandandi heimsfaraldri óbætanlegt. En til að hægt sé að halda uppi almannaþjónustunni þarf að fjármagna hana og það eru fyrirtæki og starfsfólk þeirra sem gera það. Í óvissunni sem er framundan verðum við á þessum tímapunkti að beina sjónum okkar að verðmætasköpuninni. Ekki til að skapa hagnað fárra heldur til að skapa gott og sanngjarnt samfélag þar sem allir fá þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Þannig verjum við hagsmuni heildarinnar og það hefur verið áhersla BSRB, nú og framvegis.

Mikilvægasta verkefnið

Samfélagslegar lausnir eru lykillinn að því að við komumst sem best út úr óvissuni en ekki lausnir sem byggjast á sérhagsmunum. Þess vegna er mikilvægasta verkefnið framundan er að tryggja heilbrigði, öryggi og framfærslu allra.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Hægt er að lesa spurningar og svör fyrir félagsmenn um COVID-19 sem BSRB hefur tekið saman hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?