Tímabundnar ráðningar undantekningin

Kjör tímavinnustarfsfólks eru almennt lakari en annars starfsfólks ríkis og sveitarfélaga.

Starfsfólk ríkis eða sveitarfélaga er almennt ráðið til starfa á mánaðarlaunum. Mismunandi getur verið hvort starfshlutfall sé 100 prósent eða lægra, eða hvort um tímabundna eða ótímabundna ráðningu sé að ræða. Almennt má segja að ótímabundin ráðning sé meginreglan og að tímabundnar ráðningar séu eins konar undantekning frá því að fastráða starfsfólk.

Um réttindi tímabundið ráðinna starfsmanna gilda sérstök lög sem tryggja að þeir njóti hvorki hlutfallslega lakari kjara né sæta lakari meðferð en starfsfólk með ótímabundna ráðningu. Þegar starfsfólk er ráðið í tímavinnu er hins vegar staðan önnur, og eru kjör þeirra almennt lakari en starfsfólks sem ráðið er til starfa á mánaðarlaunum. Engin sérstök lög hér á landi tryggja réttindi tímavinnustarfsmanna en um réttindi þeirra er fjallað í kjarasamningum.

Í kjarasamningum BSRB við ríkið og sveitarfélög er fjallað um það hvenær heimilt sé að ráða starfsfólk í tímavinnu. Í kjarasamningi við ríkið er það í eftirfarandi tilvikum:

  1. Nemendum við störf í námshléum.
  2. Starfsmönnum sem ráðnir eru til skamms tíma vegna sérstakra árvissra álagstíma ýmissa stofnana þó ekki lengur en 2 mánuði.
  3. Starfsmönnum sem ráðnir eru til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum.
  4. Starfsmönnum sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma þó aðeins í algjörum undantekningartilvikum.
  5. Lífeyrisþegum sem vinna hluta úr starfi.

Í kjarasamningi við sveitarfélög kemur fram sú regla að sé reglubundin vinnuskylda starfsmanns 20 prósent eða meiri á mánuði skuli ráða hann á mánaðarlaun. Sé reglubundin vinnuskylda hans minni eða vinnuskil óregluleg sé heimilt að ráða hann í tímavinnu og einnig ef uppi eru sömu aðstæður og nefndar eru hér að ofan og gilda um ríkisstarfsmenn. Samkvæmt vef Kjara- og mannauðssýslu ríkisins er litið svo á að ráða skuli starfsmann á föst mánaðarlaun þegar hann sinnir að minnsta kosti 1/3 hluta af fullu starfi.

En hvað þýðir það nákvæmlega að vera ráðinn í tímavinnu? Hér verður reynt að svara því í stuttu máli. Í raun má segja að réttindi séu að vissu leyti frábrugðin starfsmönnum sem ráðnir eru á mánaðarlaunum. Þannig er til dæmis veikindaréttur og réttur til uppsagnarfrests lakari en tímakaup er almennt hærra.

Veikindaréttur

Í kjarasamningum BSRB segir að starfsmaður sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum haldi launum svo lengi sem veikindadagar hans verða ekki fleiri á 12 mánuðum en eftirfarandi:

  • 0 til 3 mánuðir í starfi: 14 dagar
  • Næstu 3 mánuði í starfi: 35 dagar
  • Eftir 6 mánuði í starfi: 119 dagar
  • Eftir 1 ár í starfi: 133 dagar
  • Eftir 7 ár í starfi: 175 dagar
  • Eftir 12 ár í starfi: 273 dagar
  • Eftir 18 ár í starfi: 360 dagar

Tímavinnufólk á styttri veikindarétt en þeir sem eru ráðnir til starfa á mánaðarlaunum og er veikindaréttur þeirra eftirfarandi:

  • Á 1. mánuði í starfi: 2 dagar
  • Á 2. mánuði í starfi: 4 dagar
  • Á 3. mánuði í starfi: 6 dagar
  • Eftir 3 mánuði í starfi: 14 dagar
  • Eftir 6 mánuði í starfi: 30 dagar

Þannig er réttur tímavinnustarfsmanna til veikindalauna mun lakari en annarra, og til dæmis er hægt að horfa til starfsmanns sem hefur verið í starfi í 6 mánuði. Ef hann er ráðinn á mánaðarlaun á hann rétt til veikindalauna í 119 daga en einungis 30 daga ef hann er ráðinn í tímavinnu. Þess ber að geta að allir dagar eru taldir, ekki einungis virkir dagar, og starfsmaður í tímavinnu fær einungis greidd veikindi vegna þeirra daga sem hann átti að mæta til starfa á tímabili veikinda, sem getur að hámarki verið 30 dagar.

Uppsagnarfrestur

Almennur uppsagnarfrestur hjá ríki og sveitarfélögum, að loknum reynslutíma, er þrír mánuðir. Hafi starfsmaður unnið að minnsta kosti 10 ára samfellt starf hjá sömu stofnun er uppsagnarfresturinn hins vegar fjórir til sex mánuðir, sé starfsmaðurinn á aldrinum 55 eða eldri. Starfsmaður getur þó sjálfur sagt upp starfi með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Starfsmenn ríkis og sveitarfélaga njóta almennt þeirra réttinda að óheimilt sé að segja þeim upp án málefnalegra ástæðna og séu ástæður uppsagnar vegna atriða er varða starfsmanninn sjálfan þá ber almennt að veita honum áminningu áður en til uppsagnar kemur.

Tímavinnufólk hefur mun lakari rétt þegar til uppsagnar kemur. Almennt má segja að gagnkvæmur uppsagnarfrestur tímavinnumanna á fyrstu 3 mánuðum starfstímans sé ein vika miðað við vikuskipti, en vikuskipti miðast við föstudag. Eftir þriggja mánaða samfellt starf er gagnkvæmur uppsagnarfrestur einn mánuður. Þá þarf vinnuveitandi ekki að gefa upp sérstakar ástæður fyrir uppsögn eða fylgja áminningarferli þegar um tímavinnufólk er að ræða.

Orlofsréttur

Samkvæmt kjarasamningum eiga allir starfsmenn rétt til 30 orlofsdaga á ári hverju, miðað við fullt starf. Starfsmaður sem hefur unnið hluta af fullu starfi eða hluta úr ári skal fá orlof 20 vinnuskyldustundir fyrir fullt mánaðarstarf. Tímavinnufólk hefur í raun sama rétt og aðrir til orlofs samkvæmt kjarasamningum, en almennt er orlof þeirra greitt út mánaðarlega samhliða launum. Tímavinnufólk ávinnur sér því orlofslaun en þarf sjálft að sjá til þess að orlofslaunin séu varðveitt og til ráðstöfunar fyrir sig yfir sumartímann þegar það tekur sitt orlof.

Stytting vinnuvikunnar

Þau gæði sem felast í styttri vinnuviku og betri vinnutíma eiga ekki við um tímavinnufólk, enda ekki um fasta mánaðarlega vinnuskyldu að ræða í þeirra tilfelli eða starfshlutfall. Tímavinnufólk hefur þó eins og áður segir hærra tímakaup en starfsfólk sem sinnir sömu störfum í starfshlutfalli, eins og nefnt var hér að ofan.

Af hverju tímavinna?

Það geta verið margvísleg rök fyrir því að ráða starfsfólk í tímavinnu og er tiltekið sérstaklega í kjarasamningi hvenær slíkt er heimilt. Af lestri kjarasamninga er þó augljóst að þetta fyrirkomulag ráðningar er undantekning frá þeirri meginreglu að ráða fólk í fast starfshlutfall og ótímabundið. Það ætti því ekki að vera ráðandi fyrirkomulag við ráðningar hjá ríki eða sveitarfélög í tiltekin störf heldur heyra til undantekninga. Upp hafa komið tilvik þar sem augljóslega er litið á tímavinnufólk eins og það sé ekki sett að jöfnu við starfsfólk með hefðbundið ráðningarfyrirkomulag. Nýlega þurfti stéttarfélag að fara fyrir Félagsdóm til þess að fá viðurkennt að tímavinnufólk ætti sama rétt til eingreiðslu vegna seinkunar á gerð kjarasamninga til að tryggja þeim sömu kjarasamningsbundnu hækkanir og aðrir starfsmenn nutu.

Starfsfólk sem ráðið er sem tímavinnufólk en hefur jafnvel unnið um árabil í slíku ráðningarformi og sinnt hærra starfshlutfalli en fjallað er um hér að ofan án þess að gera sér grein fyrir því hvað felst nákvæmlega í fyrirkomulaginu ætti að taka samtalið við sinn vinnuveitanda varðandi það hvort ekki sé tímabært að taka fyrirkomulagið til endurskoðunar og fá fasta ráðningu á mánaðarlaun.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?