Fulltrúi úr stjórn Starfsmannafélags Kópavogs (SfK) ásamt lögfræðingi BSRB áttu á mánudaginn sl. fund hjá ríkissáttasemjara. Þar kom fram að Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) véfengir atkvæðagreiðslu félagsmanna SfK um boðað verkfall.
Við framkvæmd atkvæðagreiðslu félagsmanna SfK vegna verkfallsboðunarinnar var notast við kjörskrá sem unnin var út frá félagslista þeirra sem fengu útborguð laun frá Kópavogsbæ þann 1. september sl. Athugasemdir SNS voru m.a. þær að á þeim lista voru sumarstarfsmenn og aðrir sem munu hafa látið af störfum hjá Kópavogsbæ áður en fyrirhugað verkfall átti að bresta á.
Að loknum fundi hjá ríkissáttasemjara var haldinn fundur með lögfræðingi BSRB og forsvarsmanni frá Outcome, sem sá um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar, þar var tekin ákvörðun um að fresta fyrirhuguðu verkfalli um sinn og endurtaka atkvæðagreiðsluna. Þrátt fyrir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafi verið afgerandi, telur stjórn SfK farsælast að fara þessa leið.
Félagsfundur SfK verður haldinn á mánudaginn kemur, þann 13. október, þar sem óskað verður heimildar félagsmanna til að endurtaka atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun. Þar verður jafnframt leitar heimildar til að hefja þegar allsherjarverkfall í stað tímabundinna vinnustöðvanna.
Kjörskráin í hinni nýju atkvæðagreiðslu mun þá miðast við lista sem deildarstjóri launadeildar Kópavogsbæjar hefur sent SfK. Sá listi tekur mið af greiddum félagsgjöldum til SfK þann 1. október 2014.
Stjórn SfK harmar jafnframt framkomu bæjarstjórnar Kópavogsbæjar í málinu. Ítrekað hefur meirihluti bæjarstjórnarinnar neitað að hitta stjórn SfK og formann BSRB vegna málsins. Fyrst var óskað eftir fundi vegna kjaradeilunnar áður en hún kom inn á borð ríkissáttasemjara, en meirihluti bæjarstjórnar hefur alltaf neitað að hitta fulltrúa SfK og BSRB en þess í stað vísað á samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga ( SNS ).
Það er krafa stjórnar SfK að bæjarstjórn Kópavogsbæjar leggi sitt af mörkum til að leysa megi kjaradeildu félagsins með farsælum og sanngjörnum hætti líkt og gert var hjá öðrum aðildarfélögum BSRB.
Stjórn Starfsmannafélags Kópavogs,
Kópavogi 9. október 2014