Sú ákvörðun forsætisnefndar Alþingis að lækka starfstengdar greiðslur þingmanna kemur ekki til móts við gagnrýni BSRB á verulega launahækkun þingmanna sem kjararáð tilkynnti um á kjördag. Bandalagið kallar eftir því að ákvörðun kjararáðs verði afturkölluð og launaþróun þingmanna verði í takt við kjör annarra stétta.
BSRB gagnrýndi harðlega ríflegar launahækkanir sem kjararáð ákvað á síðasta ári að veita fyrst æðstu embættismönnum og síðan þjóðkjörnum fulltrúum; þingmönnum, ráðherrum og forseta Íslands. Bandalagið telur tuga prósenta launahækkanir þessara tekjuháu hópa úr öllu samræmi við launaþróun annarra hópa, hvort sem er opinberra starfsmanna eða launafólks á almenna vinnumarkaðinum.
Í engu samræmi við rammasamkomulag
Launahækkanirnar eru í engu samræmi við rammasamkomulag aðila á vinnumarkaði. Þá er afar varhugavert að kjararáð sé leiðandi í launahækkunum, en sé þetta niðurstaðan er ljóst að leiðin hefur verið mörkuð og annað launafólk mun sækja sambærilegar launahækkanir. Það er ekki verkefni verkalýðshreyfingarinnar einnar að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði og dapurlegt að stjórnvöld og Alþingi neiti að taka ábyrgð með því að snúa ákvörðun kjararáðs.
Þær breytingar sem forsætisnefnd þingsins hefur nú ákveðið snúa að aukagreiðslum til þingmanna, sem koma ofan á þau laun sem kjararáð hækkaði. Þannig lækkar ferðakostnaður þingmanna um ríflega 50 þúsund krónur á mánuði og starfskostnaður um aðrar 50 þúsund krónur á mánuði. Þar sem greiðslur vegna starfskostnaðar þingmanna eru ekki skattskyldar jafngildir þetta því að laun þingmanna lækki um í kringum 150 þúsund krónur, samkvæmt mati forsætisnefndar.
Bregðast ekki við gagnrýni
Breytingar á starfstengdum greiðslum geta ekki komið til móts við gagnrýni á þá launahækkun sem kjararáð veitti þingmönnum á kjördag. Það að forsætisnefnd þingsins skuli fara þessa leið til að bregðast við gagnrýni bendir þó til þess að starfstengdu greiðslurnar séu að einhverju leiti ekki annað en launauppbót sem þingmenn ákveða sér sjálfir.
Ef forsætisnefnd er alvara með að endurskoða eigi lög um þingfararkaup og þingfararkostnað hlýtur að koma til álita að einfalda launakjör þingmanna verulega og fella út megnið af þeim starfstengdu greiðslum sem þeir fá í dag. Eðlilegra væri að þingmenn geti fengið útlagðan kostnað endurgreiddan gegn framvísun kvittana, og að upplýsingar um slíkar greiðslur séu opinberar og öllum kjósendum aðgengilegar.
Þessar aukagreiðslur til þingmanna eru ógagnsæjar og verða það áfram. Þá má einnig gagnrýna að af einhverri ástæðu greiðir þingið áfram fyrir formennsku og varaformennsku í nefndum. Það skýtur skökku við þegar ríkið greiðir ekki nefndarfólki sem starfar fyrir ríkið nefndarlaun, enda leiðir af því að þingmenn fá greiðslur með öðrum hætti en tíðkast á vinnumarkaði.