Þetta kemur ekki með kalda vatninu

Það var þétt setið á fundi BSRB, BHM og KÍ í gær þar sem endurmat á virði kvennastarfa var til umfjöllunar.

Sóley Tómasdóttir, fjölbreytileikafræðingur hjá Just Consulting fjallaði um mikilvægi þess að brjóta upp staðalímyndir og setja spurningarmerki við þær reglur sem samfélagið setur okkur í hegðun og hugsun, jafnvel þótt það sé óþægilegt. Flest viljum við vera „politically correct“ og ekki hafa fordóma gagnvart þeim sem passa ekki inn í ríkjandi staðalímyndir. Hins vegar komumst við ekki hjá ómeðvitaðri hlutdrægni sem er sprottin úr því samfélagi sem við lifum í nema með því að spyrja í sífellu.

Verðmætara að passa að peninga en börn

Samkvæmt Sóleyju eru viðmið okkar og gildi afleiðingar af uppeldi og sögu sem nær langt aftur í tímann og úr viðmiðum okkar og gildum verða til staðalímyndir. Almennt reyni fólk að brjóta þær, en einungis upp að vissu marki. „Við reynum eftir fremsta megni að finna staðalímyndir. Við viljum ekki að börnin okkar verði „skrýtin“, svo við hvetjum þau til að fara ekki of langt frá því sem er „venjulegt“. Við hvetjum til dæmis strákana okkar ekki til að klæðast kjólum,“ segir hún. Við lærum frá upphafi að það sé verðmætara að passa peninga en að passa börn og það sé skemmtilegra að horfa á karlafótbolta en kvennafótbolta. Við lærum í gegnum uppeldi okkar og menningu að hið karllæga er mikilvægara en það kvenlega. Samfélagið innrætir okkur að treysta körlum frekar en konum fyrir ákveðnum þáttum og finnast það sem konur gera síður merkilegt.

Eru kvennastörf minna virði en karlastörf

Flestar kvennastéttir í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu eiga uppruna sinn að rekja til ólaunaðra starfa kvenna, þær voru heima með börnin, þrifu og önnuðust sjúka. Þau njóta minni virðingar en hefðbundin karlastörf og samfélagið er enn að venjast því að borga fyrir þau. Í dag fúnkerar samfélagið ekki án þessara starfa, segir Sóley. „Virði kvennastarfa er eins og það er í dag því þau hafa verið ólaunuð í gegnum tímans rás. Þau hafa verið ósýnileg og ýmist verið unnin heima eða þegar karlarnir eru farnir úr vinnunni. Konurnar hafa lítið sést.“

Það þarf átak til að breyta verðmætamati samfélagsins gagnvart þessum störfum. „Þetta kemur ekki með kalda vatninu, þetta er ekki óþörf barátta“, segir Sóley.

Heiður Margrét Björnsdóttir, formaður starfshóps um endurmat á virði kvennastarfa og hagfræðingur BSRB kynnti niðurstöður starfshópsins. Hópnum var falið að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og hafa að leiðarljósi að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta.

Helstu niðurstöður starfshópsins snéru að mikilvægi þess að halda vinnunni við endurmat á virði kvennastarfa kerfisbundið áfram. Í þeim tilgangi var aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði skipaður í lok síðasta árs. Þá var lagt til að komið yrði af stað þróunarverkefni um mat á virði starfa að því markmiði að skapa verkfæri sem fangar jafnvirðisnálgun laganna. Sú vinna er einnig hafin og búið er að velja fjóra vinnustaði hjá ríkinu til að bera saman. Þá lagði hópurinn til þróun samningaleiðar á íslenskum vinnumarkaði um jafnvirðiskröfur með aðilum vinnumarkaðarins í stað þess að leysa mál fyrir kærunefndum eða dómstólum.

Kynskiptur vinnumarkaður

Samkvæmt launarannsókn Hagstofu Íslands frá 2021 er vinnumarkaður enn mjög kynskiptur þegar litið er til atvinnugreina og starfa og er það helsta skýringin á launamun kynjanna. Konur voru að jafnaði með 4,3% lægri laun en karlar árið 2019 í stað 6,2% árið 2010. Launamunurinn er til staðar óháð því hvort litið er til atvinnutekna, óleiðrétts eða leiðrétts launamunar.

Í íslenska jafnlaunaákvæðinu segir að konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Heiður segir stórum áfanga hafa verið náð þegar farið var að líta á þetta sem tvær áskoranir sem þarfnast tveggja ólíkra nálganna. „Annars vegar hvernig tryggt er að jöfn laun og sömu kjör séu tryggð fyrir sömu störf (jafnlaunanálgun) og hins vegar hvernig við tryggjum jöfn laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt störf (jafnvirðisnálgun),“ segir Heiður.

Þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til við virðismat starfa eru starfsmat sem tekur eingöngu til grunnlauna og jafnlaunavottun sem tekur eingöngu til eins vinnustaðar.  Jafnlaunavottun hefur reynst vel til að vinna á launamun sem er tilkominn vegna sambærilegra starfa en nær hins vegar síður til þess launamunar sem er á milli ólíkra en jafnverðmætra starfa og kynbundins vinnumarkaðar.

Mikilvægt að fanga virði starfa

Heiður segir það mikilvægt að tryggja að útvistun starfa taki mið af jafnvirðisnálgun jafnréttislaga og þá þurfi einnig að skilgreina með ótvíræðum hætti að tryggja sameiginlegan skilning á sama uppruna og hvernig samanburðarhópar eru valdir.
Til að fanga virði svonefndra kvennastarfa og karlastarfa er mikilvægt að virðismatskerfi starfa nái til þátta eins og sköpunar óáþreifanlegra verðmæta, tilfinningalegs álags, hæfni til að sýna samkennd, samskiptafærni, færni í að leysa úr vandamálum, líkamlega krefjandi verkefna líkt og að lyfta fólki, líkamlegs álags vegna endurtekinna hreyfinga, öryggisógnar og annarra þátta sem eru einkennandi fyrir mörg hefðbundin kvennastörf. „Hér er lykilatriði að viðmiðin séu rýnd með tilliti til kynjasjónarmiða til að fyrirbyggja að karllægum þáttum sé umbunað umfram þætti sem einkenna kvennastörf og öfugt“, segir Heiður.

Helga Björg Ragnarsdóttir, framkvæmdastýra Jafnlaunastofu fjallaði síðan um virðismat starfa og hvað felst í því.
Virðismat starfa í sinni einföldustu mynd felur í sér ákvörðun um endurgjald fyrir vinnu sem innt er af hendi. Helga Björg segir mikilvægt að skoða til hvaða þátta er horft þegar lagt er mat á virði starfa.

Til að styðja við innleiðingu og framkvæmd jafnlaunasamþykktarinnar um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf hefur ILO gefið út leiðbeiningar með áherslu á mat á virði starfa og þróun matskerfa sem eru eins laus við kynjaskekkju og hægt er. Í öllum matskerfum þarf að meta fjóra yfirþætti og þeir eru, færni, álag/áreynsla, ábyrgð og vinnuaðstæður. ILO leggur áherslu á að nota alla fjóra þættina, það er svo meira svigrúm við val á undirþáttum. „Meta þarf alla þætti starfs til launa, ekki síst þætti sem sögulega hafa verið skilgreindir sem eðlislægir konum eins og samkennd, umhyggja, nákvæmni, fingrafimi o.fl.“, segir Helga Björg. Skilgreina þarf undirþættina ítarlega og skýra nánar með dæmum sem fengin eru úr bæði karla- og kvennastörfum. Byggja þarf á greiningu starfa og starfsemi og forðast að tvítelja eða vantelja ekki þætti. Þættir og þáttaskilgreiningar ná ekki til allra starfa eða verkefna innan vinnustaðar og fela í sér skekkju.

Helga segir tímabært að beina sjónum að virðismati starfa. Það sé nauðsynlegt að byggja þá vinnu á þekkingu á stöðu kvenna á vinnumarkaði, þekkingu á kynjakerfinu og áhrifum þess á mat starfa. „Það þarf einnig að byggja upp þekkingu á virðismati starfa hjá öllum sem að kjaramálum koma. Það þarf vilja, áræðni og þor þeirra sem að vinnunni koma!“ segir Helga.

Að erindum loknum var boðið upp á fyrirspurnir úr sal og sköpuðust góðar umræður.

Fundinum var streymt og hægt er að nálgast upptöku hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?