Við þekkjum öll merkin. Brandararnir sem skilja eftir sting í maga. Tvíræða hrósið. Grófa orðfærið. Útilokun frá verkefnum eða samstarfi. Óviðeigandi skilaboð í gegnum samfélagsmiðla, SMS eða tölvupóst. Starandi augnaráð upp og niður líkamann. Snertingu sem varir of lengi. Spurningar um líkamann eða kyn sem gerir viðtakanda orðlausa(n). Óþarflega mikil nálægð. Daður sem breytist í pressu um að látið sé undan vilja annars.
Allt eru þetta dæmi um kynbundna eða kynferðislega áreitni sé hún í óþökk þess sem fyrir henni verður. Hegðunin einkennist af vanvirðingu. Hún misbýður, ógnar, niðurlægir, auðmýkir eða móðgar. Hún tengist nær alltaf misbeitingu valds og valdaójafnvægi, en þekkt er að fordómar gegn kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu auka líkurnar á að misrétti þrífist á vinnustaðnum.
Það er þekkt að sá sem fyrir áreitni, misrétti eða öðru ofbeldi verður stígi ekki fram af því það sé að þeirra mati ekki nægilega alvarlegt, það sé erfitt, óþægilegt eða viðkomandi kenni sér um. Samt getur áreitnin setið lengi í viðkomandi, sem gjarnan leitar til einhvers; fjölskyldu, vina eða samstarfsfélaga. Sumum finnst málið aldrei hafa verið gert upp og upplifa minni starfsánægju og óöryggi í vinnunni. Það getur leitt af sér verri andlega eða líkamlega heilsu, að viðkomandi íhugi uppsögn, segi upp störfum eða tapi tekjum af öðrum orsökum. Áreitni er því ekki bara málefni þess einstaklings sem fyrir henni verður heldur hefur hún áhrif á fjölskyldu og vini viðkomandi, vinnustaðinn sjálfan og samfélagið allt.
Við eigum öll rétt á því að komið sé fram við okkur af virðingu á vinnustaðnum. Við eigum rétt á vernd atvinnurekanda gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað af hálfu yfirmanna, samstarfsmanna og einstaklinga sem við þurfum að eiga í samskiptum við vegna vinnunnar, til dæmis skjólstæðinga eða viðskiptavina.
Upplifun þolandans gildir
Birtingarmyndir áreitni og ofbeldis geta verið ýmiss konar. Í mörgum reynslusögum þolenda á Íslandi hefur komið fram að það sé auðveldara að átta sig á áreitni þegar hún fer fram með orðum, en erfiðara þegar hún er líkamleg eða táknræn. Samkvæmt þeim reglum sem gilda um áreitni á vinnustað skiptir þó ekki máli hvort áreitnin eða ofbeldið sé með orðum, líkamleg eða táknræn. Öll kynbundin og kynferðisleg áreitni er bönnuð.
Upplifun okkar getur verið mismunandi og vinnustaðamenning sömuleiðis. Lögin eru þó skýr: upplifun þess sem fyrir hegðuninni verður sker úr um hvort um áreitni eða ofbeldi sé að ræða. Það er ekki annarra að meta hvernig við upplifum samskipti eða tiltekna hegðun heldur okkar sjálfra.
Það á engin(n) að þurfa að eiga á hættu að vera áreitt(ur) í vinnunni. Atvinnurekendur hafa skyldu samkvæmt lögum til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að áreitni komi fyrir til að byrja með og bregðast strax við ef þeir hafa vitneskju um áreitni og stöðva hana. Hættum að flokka eftir úreltum hugmyndum um hvar mörkin liggja milli áreitni eða óþæginda. Hvers kyns áreitni er alvarleg og hana verður að taka alvarlega.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Greinin er liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi og birtist fyrst í Fréttablaðinu.