Stöndum við stóru orðin

BSRB ætlar næstu vikurnar að hjálpa þingmönnum þjóðarinnar að rifja upp kosningaloforð sín. Bandalagið býður fólki að slást með í för til að hvetja þingheim til að standa við þessi loforð. Allt mun þetta fara fram á nýrri Facebook-síðu BSRB sem finna má hér.

Í aðdraganda kosninga til Alþingis kepptust frambjóðendur við að benda á augljós sóknarfæri til að efla grunnþjónustu landsins. Flestir frambjóðendur voru sammála um að nú væri kominn tími til að efla almannatrygginga-, mennta- og heilbrigðiskerfi landsins. Frambjóðendur allra flokka voru auk þess sammála um að þessi mál mættu ekki bíða og bregðast þyrfti við nú þegar. 


BSRB hefur tekið saman nokkur þeirra loforða sem þingmenn létu frá sér fara í aðdraganda kosninganna og lúta að velferðarþjónustunni. Fólki gefst nú kostur á að skoða þessi kosningaloforð og geta sér til um hver lét þau falla í litlum leik sem hægt er að komast inn á í gegnum Facebook-síðu BSRB.

Undanfarin ár hefur stöðugt verið grafið undan grunnstoðum samfélagsins með óhóflegum niðurskurði á almannaþjónustu landsins. Ef áfram verður haldið á þeirri braut munu afleiðingarnar verða skelfilegar fyrir landsmenn alla. BSRB hvetur því fólkið í landinu til að minna þingmenn á mikilvægi öflugrar almannaþjónustu og til að standa við gefin loforð.

Hjálpum þingmönnunum að standa við stóru orðin. Stöndum saman að því að verja velferðina.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?