Stefna stjórnvalda getur hægt á efnahagsbatanum

Grípa verður til frekari aðgerða til að bregðast við atvinnuleysi.

BSRB kallar eftir frekari aðgerðum fyrir atvinnulausa og mótmælir áherslu stjórnvalda á að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs í umsögn um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Varað er við því í umsögninni að sú stefna sem mörkuð er í áætluninni geti hægt á efnahagsbata næstu ára.

Í umsögninni eru stjórnvöld hvött til að bregðast við miklu atvinnuleysi af fullum þunga. BSRB fagnar átaki stjórnvalda sem ætlað er að skapa um 7.000 störf fyrir atvinnulausa en bendir á að þessi aðgerð dugi ekki ein og sér. Því verði stjórnvöld að útfæra frekari aðgerðir til að skapa störf.

„BSRB bendir á að það er hægt að skapa góð störf, bæði tímabundið og til lengri tíma, í heilbrigðiskerfinu, félags- og velferðarþjónustu, skólakerfinu og í löggæslu. Mjög mikilvægt er að styrkja þessi samfélagslega mikilvægu kerfi til að forða starfsfólki frá alvarlegum afleiðingum þess álags sem faraldurinn hefur valdið og til að veita mikilvæga þjónustu,“ segir meðal annars í umsögn BSRB.

Bandalagið kallar eftir því að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar. Þannig megi koma til móts við fólk sem eigi erfitt með að láta enda ná saman og á sama tíma muni sú aðgerð skila sér í aukinni einkaneyslu og þar með hagvexti. Í umsögninni er einnig hvatt til þess að tímabil atvinnuleysistrygginga verði lengt tímabundið í fjögur ár til að koma í veg fyrir að fólk detti út af bótum og þurfi að leita til sveitarfélaganna eftir fjárhagsaðstoð.

Óskynsamlegt markmið

BSRB lýsir furðu á þeirri áherslu stjórnvalda að stöðva skuldasöfnun strax árið 2025. Ekki er hvatt til óábyrgrar skuldasöfnunar í umsögn bandalagsins en kallað eftir því að hagkerfið fái áframhaldandi svigrúm til að komast í gegnum efnahagsþrengingarnar. BSRB mótmælti áformum um aðhaldsaðgerðir í síðustu fjármálaáætlun og telur óráðlegt að halda áfram á sömu braut þrátt fyrir mun betri afkomu en gert var ráð fyrir í síðustu áætlun.

„Mikilvægt er að styðja við umsvif í hagkerfinu en draga ekki úr þeim með óskynsamlegu markmiði um skuldastöðvun. Á einhverjum tímapunkti þarf að stöðva skuldasöfnun en það verður að taka mið af umsvifum í hagkerfinu en ekki fyrirfram gefnu ártali,“ segir í umsögn BSRB.

Þar er bent á að rekstur ríkissjóðs sé ósjálfbær vegna ófjármagnaðra skattalækkana á kjörtímabilinu og áherslu stjórnvalda á aðhaldsaðgerðirnar þurfi að skoða í því ljósi. Markmið ríkisstjórnarinnar virðist vera að minnka hlutdeild ríkissjóðs í landsframleiðslunni sem muni bitna á opinberri þjónustu, tilfærslukerfunum og fjárfestingum á næstu árum.

Hægt er að lesa umsögn BSRB um fjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fimm ára hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?