Starfsmenn þurfa hvíld og endurheimt

Það skiptir miklu máli að fá hvíld og endurheimt eftir vinnudaginn.

Tíminn sem fólk eyðir í vinnunni er stór hluti af lífi margra. Síðustu ár hefur BSRB lagt mikla áherslu á að stytta vinnuvikuna og bæta starfsumhverfi, meðal annars með því að tryggja tækifæri til hvíldar og endurheimtar. Tilraunaverkefni BSRB hafa komið vel út, en einnig hefur verið litið til fjölmargra erlendra rannsókna við mótun stefnunnar.

Margir þættir hafa verið rannsakaðir, svo sem áhrif næturvakta á svefn, tengsl vinnutímaskipulags við öryggi starfsmanna og slysahættu og mikilvægi hvíldar á vinnutíma. Það er fyrir nokkru orðin viðurkennd staðreynd að langir vinnudagar eða vaktir, lengri en 8 til 9 tímar, hafa verulega slæm áhrif bæði á öryggi starfsmanna og þjónustuþega sem og á þreytu starfsmanna. Að sama skapi hefur ítrekað verið staðfest að næturvinna er mjög hættuleg, þar sem hún ruglar í líkamsklukkunni.

Líkaminn framleiðir ýmis hormón og önnur efni á mismunandi tímum dags og með því að vera sífellt að snúa sólarhringnum við aukast líkurnar á mörgum sjúkdómum, meðal annars sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma. Nýjustu rannsóknir benda til þess að næturvinna sé hreinlega krabbameinsvaldandi. Þá sefur vaktavinnufólk almennt minna í heildina en fólk í dagvinnu, og langvarandi svefnskortur getur haft alvarlegar langtímaafleiðingar fyrir heilsu fólks, auk þess sem skammtímaveikindum fjölgar.

Sveigjanleiki í vinnutíma hefur einnig verið rannsakaður. Það virðist skipta verulegu máli fyrir heilsu og ánægju starfsfólks hvort sveigjanleikinn er að frumkvæði þess sjálfs eða vinnuveitenda.

Á síðustu árum hefur álag einnig aukist vegna tæknibreytinga, margt fólk er undir álagi allan sólarhringinn vegna truflunar frá síma eða tölvupósti. Það skortir rannsóknir á áhrifum þess á heilsu, en þær sem eru til benda til þess að fólk missi tækifæri til endurheimtar ef sífellt er verið að minna það á vinnuna. Það sama gildir þegar lágmarkshvíld er rofin, það er þegar minna en 11 tímar eru milli vakta eða vinnudaga, en sá þáttur er nokkuð vel rannsakaður. Þá benda rannsóknir einnig til þess að með nægilegri hvíld á vinnutíma, svo sem í formi kaffi- og matartíma, batni svefngæði og endurheimt utan vinnutíma, sem aftur hefur áhrif á heilsu starfsfólks og öryggi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?