Samstaðan mun skila okkur góðum kjarasamningi

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Árið sem nú er að líða litaðist af því að kjarasamningar aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá því í byrjun apríl. Bandalagið hefur því að meginstefnu til lagt vinnu sína og orku í að ná fram sameiginlegum kröfum aðildarfélaganna í kjaraviðræðunum gagnvart viðsemjendum og stjórnvöldum. En þó að kjarasamningarnir séu í forgrunni höfum við hjá BSRB sinnt fjölmörgum öðrum mikilvægum málum.

Við höfum barist fyrir auknum jöfnuði og réttlæti en þar ber hæst krafan um að allir geti lifað af á launum sínum. Sú krafa beinist ekki síður að stjórnvöldum en launagreiðendum þar sem stuðningur stjórnvalda skiptir sköpum þegar kemur að lífsskilyrðum og ráðstöfunartekjum einstaklinga. Okkar áhersla hefur verið á breytingar á skattkerfinu sem gagnast mest þeim tekjulægustu, betra barnabótakerfi og lengingu fæðingarorlofs. Við höfum reynt að sporna við kulnun í starfi, staðið vörð um heilbrigðiskerfið og unnið að úrbótum á húsnæðismarkaði. Við höfum einnig haldið áfram að krefjast jafnréttis á vinnumarkaði, undirbúið okkur fyrir framtíðarvinnumarkaðinn og unnið að loftslagsmálunum, svo eitthvað sé nefnt.

Tilraunaverkefnin varða leiðina

Það áttu væntanlega fáir von á því þegar samningar þorra aðildarfélaga BSRB losnuðu í byrjun apríl að samningar yrðu enn lausir í lok árs, níu mánuðum síðar. Það eru gríðarleg vonbrigði hversu hægt hefur gengið að semja og ljóst að þolinmæðin hjá félagsmönnum aðildarfélaga BSRB er löngu þrotin.

Markmið okkar í kjarasamningsgerðinni eru skýr og það verður ekki gengið frá samningum fyrr en þau hafa náðst. Þar hefur áherslan verið á styttingu vinnuvikunnar, jöfnun launa milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins, launaþróunartryggingu og bætt starfsumhverfi. Launaliðurinn og sérmál eru á borði hvers aðildarfélags fyrir sig en þar er áherslan á að hækka lægstu launin mest. Á þessu tímabili hefur ýmislegt þokast áfram en í sumum tilfellum hefur umræðan farið í hringi og jafnvel aftur á bak. Í upphafi var lagt upp með bætt vinnubrögð við kjarasamningsgerð af hálfu viðsemjenda sem hefur í besta falli staðið á sér þar sem enn hefur ekki verið samið. Það er því ljóst að engar kjarabætur muni verða nema með öflugri samstöðu opinberra starfsmanna.

Í þessum kjarasamningsviðræðum hefur stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar verið eitt af stærstu áherslumálum BSRB. Það ætti ekki að hafa komið viðsemjendum á óvart, enda höfðum við unnið að tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar með Reykjavíkurborg frá árinu 2015 og með ríkinu frá árinu 2017.

Tilraunaverkefnin sýndu vel að stytting vinnuvikunnar hefur gríðarlega jákvæð áhrif á starfsfólkið og betra skipulag leiðir til aukinnar skilvirkni og bættra afkasta. Þannig má sinna sömu vinnu og áður en á styttri tíma. Það eru því sameiginlegir hagsmunir starfsfólksins og atvinnurekenda að stytta vinnuvikuna.

Í september var kjaraviðræðum aðildarfélaga bandalagsins vísað til ríkissáttasemjara og í nóvember var gengið frá samkomulagi við viðsemjendur um styttingu vinnuviku í dagvinnu með fyrirvara um að markmið í öðrum þáttum samningagerðarinnar gangi upp. Ekki hefur náðst nein niðurstaða né þokast fram af ráði í öðrum þáttum kröfugerðarinnar. Umræða um vaktavinnuna hófst aftur fyrir stuttu eftir að viðsemjendur höfðu stöðvað þá vinnu frá því í september. Það er óskiljanlegt að ekki hafi tekist að semja um þetta atriði á þeim tíma einkum í ljósi þess að fyrir löngu hefur verið samið um styttri vinnuviku vaktavinnufólks á almennum vinnumarkaði, til dæmis í stóriðjunni. Með niðurstöður tilraunaverkefnanna að leiðarljósi hefði verið hægt að ganga frá þessu atriði kjarasamninganna á til þess að gera stuttum tíma, ef samningsvilji viðsemjenda hefði verið fyrir hendi.

Hugað að aðgerðum í byrjun árs

Við erum að vinna að mestu breytingum á vinnutíma opinberra starfsmanna frá því lög um 40 stunda vinnuviku voru sett fyrir nærri hálfri öld síðan og það skiptir máli að vanda til verka. Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar hefur verið krafa BSRB um langt árabil og þegar ekki sér til lands eftir níu mánaða viðræður er ljóst að við þurfum að endurskoða aðferðafræðina.

Í gegnum tíðina hafa opinberir starfsmenn þurft að standa í harðvítugri baráttu til að ná fram mikilvægum kjarabótum. Þar hefur skipt gríðarmiklu máli sú góða samstaða sem náðst hefur og sá þrýstingur sem sameinað afl rúmlega 22 þúsund félagsmanna í aðildarfélögum BSRB getur beitt.

Á nýju ári þurfum við á þessari samstöðu að halda enn á ný. Það er full samstaða innan BSRB um að ekki verði gengið til kjarasamninga nema fólk geti lifað af á launum sínum, vinnuvikan verði stytt hjá bæði dagvinnufólki og gengið enn lengra hjá vaktavinnufólki, tekið verið skref í átt að jöfnun launa á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins og samið verði um bætt starfsumhverfi og launaþróunartryggingu.

Tíminn er runninn frá okkur. Við getum ekki beðið samningslaus, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Viðsemjendur geta ekki sýnt okkar félagsmönnum þá vanvirðingu að draga samningaviðræður von úr viti. Nú þurfum við að beita þeim vopnum sem við höfum til að tryggja þetta mikla hagsmunamál. Breytist viðhorf viðsemjenda okkar ekki snarlega á nýju ári má búast við að við förum að huga að aðgerðum snemma á næsta ári.

Endurskoða þarf barnabótakerfið frá grunni

Þó kjarasamningar séu lausir og mikil vinna fari í að semja hefur BSRB einnig sinnt öðrum málum á árinu sem nú er að líða. Undir lok árs kynntum við skýrslu um barnabætur á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. Sú yfirferð sýndi að barnabótakerfið nýtist fyrst og fremst allra tekjulægstu foreldrunum, en þó með afar ómarkvissum hætti. Skerðingarnar í kerfinu eru allt of miklar og ótrúlegt að fólk í lægri tekjuhópunum fái skertar barnabætur.

Þetta sýnir okkur að við höfum verk að vinna. BSRB mun beita sér fyrir því að barnabótakerfið verði endurskoðað frá grunni með það að markmiði að fleiri foreldrar fái barnabætur. Þar mætti til dæmis horfa til barnabótakerfisins í Danmörku þar sem bætur skerðast ekki fyrr en foreldrar eru komnir með um eða yfir meðaltekjur.

Heilbrigðið skiptir öllu

Í byrjun árs stóð BSRB fyrir fjölsóttum fundi þar sem fjallað var um kulnun í starfi. Niðurstaða nýrra rannsókna sem kynntar voru á fundunum sýna að þriðjungur þeirra sem kominn var með alvarlega kulnun var enn með einkenni sjö árum síðar og hafði ekki náð að snúa aftur til vinnu. Forvarnir eru því það eina sem raunverulega dugir í baráttunni gegn kulnun. Það er best fyrir bæði starfsfólk og samfélagið í heild sinni að bregðast við kulnun áður en hún er komin á alvarlegt stig. Þetta er verkefni sem heldur áfram að vera í forgangi hjá BSRB.

Á árinu hélt baráttan fyrir heilbrigðiskerfinu áfram á fullum krafti. Það er sótt að opinbera heilbrigðiskerfinu á öllum vígstöðvum og mikilvægt að standa áfram vörð um það. Rannsóknir sýna að það er þjóðarvilji að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera fyrir skattfé landsmanna og fyrir því mun BSRB berjast áfram.

Þannig mótmælti bandalagið harðlega niðurskurði hjá Landspítalanum, bæði í umsögn um fjárlagafrumvarpið og með harðorðri yfirlýsingu í lok árs. Þar var kallað eftir tafarlausum aðgerðum stjórnvalda til að leiðrétta stöðu Landspítalans og draga úr því gríðarlega álagi sem verið hefur á starfsfólki. Öflugt félagslegt öryggisnet er hluti af kröfum okkar fyrir hönd félagsmanna og opinbera heilbrigðiskerfið er mikilvægur hluti af því öryggisneti.

Brúa þarf umönnunarbilið

Nú fer eitt af langtímastefnumálum BSRB að komast í höfn með lengingu fæðingarorlofsins úr níu mánuðum í tólf. Þetta er mikilvægt framfaraskref fyrir foreldra og börn en útfærslan skiptir ekki síður máli en lengingin sjálf. Þannig hefur bandalagið lagt áherslu á að foreldrar skipti orlofinu jafnt á milli sín, enda er það mikilvægt skref í því að ná jafnrétti á vinnumarkaði og tryggja börnum samveru með báðum foreldrum. Mikil umræða hefur verið um réttindi einstæðra foreldra og barna þeirra sem er jákvætt en önnur úrræði þarf til að bregðast við þeirra þörfum, svo sem með því að fela stjórnvöldum mat á því undir hvaða kringumstæðum einstæðir foreldrar geti fengið einir óskiptan rétt.

Baráttan heldur þó áfram, enda eftir að brúa tímabilið milli fæðingarorlofs og þess tíma þegar börn komast á leikskóla, hið svokallaða umönnunarbil. Þar mun BSRB beita sér áfram fyrir því að sveitarfélögin tryggi öllum börnum leikskólavist frá tólf mánaða aldri þannig að leikskólinn taki við um leið og fæðingarorlofi lýkur. Það er löngu tímabært að við lögfestum þann rétt líkt og hefur verið gert á hinum Norðurlöndunum.

Bjarg íbúðafélag blómstrar

BSRB hefur áfram átt gott samstarf við félaga okkar hjá öðrum heildarsamtökum launafólks. Eitt af því sem orðið hefur til úr slíku samstarfi er ný rannsóknarstofnun í vinnumarkaðsfræðum sem BSRB og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) stofnuðu sameiginlega síðla árs. Stofnuninni er ætlað að bæta þekkingu á kjörum og lífsskilyrðum launafólks og þannig stuðla að dýpri umræðu. Það er mikilvæg forsenda þess að bæta megi hag fólks og byggja þannig undir baráttuna fyrir jöfnuði og jafnrétti.

Stjórn stofnunarinnar áformar að ráða starfsmann snemma á næsta ári sem hafa mun það hlutverk að koma starfseminni af stað. Stofnunin mun koma á samstarfi við sérfræðinga og standa fyrir rannsóknum sem gagnast geta launafólki á ýmsan hátt.

Annað samstarfsverkefni með ASÍ sem hefur blómstrað á árinu er Bjarg íbúðafélag, sem var stofnað árið 2016. Bjarg er leigufélag sem byggir upp og leigir út íbúðir til tekjulægstu félaga BSRB og ASÍ og er rekið án hagnaðarsjónarmiða. Fyrstu leigjendur félagsins fluttu inn um mitt ár og nú undir lok árs hafa 172 íbúðir verið afhentar. Þær íbúðir sem búið er að taka í notkun eru bæði í Reykjavík og á Akranesi, en á næsta ári bætast við íbúðir á Akureyri og í Þorlákshöfn, auk fleiri íbúða á ýmsum stöðum í Reykjavík.

Gott gengi Bjargs sýnir þörfina fyrir uppbyggingu leigufélags sem rekið er án hagnaðarmarkmiða. Það var því afar jákvætt að Alþingi skyldi samþykkja breytingar á lögum um almennar íbúðir nú rétt fyrir jól sem auðvelda fjármögnun og fjölgar þeim sem eiga þess kost að komast í öruggt skjól í hagstæðri langtímaleigu hjá Bjargi.

Samstaða á nýju ári

Verkefni verkalýðshreyfingarinnar eru þess eðlis að þau eru óþrjótandi. Okkar hlutverk er að berjast fyrir réttindum launafólks og gæta hagsmuna okkar félagsfólks í hvívetna. Við berjumst fyrir samfélagi sem byggir á jöfnuði, þar sem allir eiga sinn sess og njóta virðingar.

Það er ljóst að kjarasamningarnir verða stóra málið á fyrri hluta næsta árs. Vonandi tekst að semja án þess að það þurfi að grípa til aðgerða. Samstaða opinberra starfsmanna er mikilvægasta vopnið í okkar vopnabúri. Saman höfum við náð mörgum góðum sigrum í gegnum árin. Og saman munum við lenda þessum samningum!

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?