Niðurstöður nýrrar rannsóknar Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins sýna að meirihluti þeirra sem þátt tóku í könnuninni og fullnýtt höfðu rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins hafði hafið þátttöku á vinnumarkaði að nýju þegar könnunin var gerð, eða 57,8% svarenda. Að auki höfðu 5,8% hafið nám. Þannig sögðust 63,6% svarenda vera annaðhvort launamenn í fullu starfi, launamenn í hlutastarfi, í sjálfstæðum rekstri eða í námi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.
Af þeim sem svöruðu voru 22% enn í atvinnuleit. Að auki sýnir rannsóknin að 27,1% þeirra atvinnuleitenda sem fullnýtt hafa rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins hafa fengið fjárhagsaðstoð frá hlutaðeigandi sveitarfélagi í kjölfarið en rannsóknartímabilið nær frá ársbyrjun 2013 til haustsins 2014. Alls fengu 9,9% greidda fjárhagsaðstoð frá hlutaðeigandi sveitarfélagi þegar rannsóknin var gerð.
Telja verður að niðurstöðurnar sanni ótvírætt gildi þeirra víðtæku vinnumarkaðsaðgerða sem Vinnumálastofnun stendur fyrir í því skyni að viðhalda starfsgetu atvinnuleitenda sem og að þjálfa hjá þeim nýja hæfni.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er staðan svipuð í öllum landshlutum að því er varðar hlutfall þeirra sem fá greidda fjárhagsaðstoð frá hlutaðeigandi sveitarfélagi í kjölfar atvinnuleysis, að Suðurnesjum undanskildum. Þar er hlutfallið umtalsvert hærra en annars staðar en 21,3% svarenda á svæðinu fengu greidda fjárhagsaðstoð þegar könnunin var gerð eða á síðastliðnum þremur mánuðum.
Vinnumálastofnun hefur nú hafið samstarf við vinnumarkaðsráð Suðurnesja í því skyni að greina misræmi í þörfum og væntingum sem virðist vera á svæðinu á milli atvinnuleitenda og atvinnurekenda og enn fremur að skoða með hvaða hætti hægt sé að bregðast við vandanum.
Skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar Könnun meðal fyrrum bótaþega má nálgast á vef Vinnumálastofnunar.