Rannsaka stöðu láglaunakvenna á vinnumarkaði

Á myndinni eru frá vinstri: Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og Anna Soffía Víkingsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.

Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins fékk ásamt hópi rannsakenda frá Háskólanum á Akureyri og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri nýverið fjögurra milljóna króna styrk úr Jafnréttissjóði til að rannsaka stöðu láglaunakvenna á íslenskum vinnumarkaði.

Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri, fer fyrir rannsóknarhópnum. Auk hennar eru í hópnum Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Hug- og félagsvísindasvið, Bergljót Þrastardóttir, lektor við Kennaradeild og Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Verkefnið ber titilinn Working-Class women, Wellbeing and the Welfare State: New Evidence from the Icelandic Context. Staða láglaunakvenna á íslenskum vinnumarkaði verður skoðuð með tvennskonar hætti. Annars vegar verður kannað hvernig ólíkir þættir sem tengjast vinnu og fjölskyldulífi hafa áhrif á líkamlega og andlega velferð kvenna á Íslandi og samspil þess við félags- og efnahagslega stöðu þeirra. Hins vegar er rannsókninni ætlað að koma á framfæri reynslu láglaunakvenna af velferðarkerfinu og hlutverki þess í að sporna við félagslegum ójöfnuði.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?