Ræða formanns BSRB á 1. maí

„Við stöndum frammi fyrir alvarlegustu deilum á vinnumarkaði í áraraðir. Á síðasta ári voru kjarasamningar megin þorra launafólks framlengdir með mjög hóflegum launahækkunum. Með þeim samningi var skapað tækifæri fyrir stjórnvöld til að byggja samfélag jafnaðar, þar sem hagsmunir heildarinnar voru settir í forgrunn. En í stað þessa að nýta þetta einstaka tækifæri og leggjast á eitt með launafólki, með því að vinna sameiginlega að bættum hag almennings héldu stjórnvöld inn á braut sérhagsmuna og ójafnaðar,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir í 1. maí ræðu sinni á Akureyri í dag þar sem hún var aðalræðumaður dagsins. Fjallaði hún m.a. um gjörðir stjórnvalda og atvinnurekenda sem hefðu ekki verið til þess að skapa traust og koma á frekari jöfnuði.

„Laun afmarkaðra hópa hækkuðu langt umfram það sem fjölmennustu og lægst launuðu hóparnir höfðu samið um. Ríkisstjórnin gaf eftir tekjustofna á þá efnamestu. Áfram var skorið niður á flestum sviðum opinberrar þjónustu og skattar á matvæli voru hækkaðir. Greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu heldur áfram að aukast. Réttur atvinnulausra til áunninna bóta var skertur,“ sagði Elín Björg og bætti við að með þessum aðgerðum hefðu stjórnvöld og atvinnurekendur hafnað því að vinna sameiginlega á grunni stöðugleika og samstöðu.

„Þess vegna er staðan á vinnumarkaði eins og hún er nú. Þeir hæst launuðu skammta sér enn hærri laun, bónusa og milljarða í arðgreiðslur. Á meðan eru kröfur um hækkun lægstu launa sagðar ógna efnahagslífinu í heild. Er það skrítið að fólk upplifi mikla misskiptingu, óréttlæti og ósanngirni þegar svona er farið að?“

Elín Björg minntist einnig á það neikvæða viðhorf sem birst hefði frá stjórnvöldum í garð launafólks á undanförnum vikum og sagði jöfnuðinn á Íslandi síst of mikinn.

„ítrekað er vegið að verkfallsréttinum og þær hugmyndir viðraðar af fullri alvöru hvort ekki sé hægt að krefja stéttarfélög um bætur vegna skaða sem þau valda með vinnustöðvunum sínum. Fjármálaráðherra veltir því upp í alvöru hvort gengið hafi verið of langt í því að jafna kjör fólks,“ sagði formaður BSRB sem ítrekaði að hugsjónin um jafnan rétt allra til grunnþjónustu, tryggs húsnæðis og afkomu væri það sem mestu skipti.

„Það sem gerir okkar samfélag eftirsóknarvert að búa í er jafn aðgangur að menntakerfi, heilbrigðisþjónustu og almannatryggingum. Því miður er upplifunin sú að þessi hugsjón jafnaðar og samhjálp sé á útleið og að aukin einstaklingshyggja, ójöfnuður og um leið óréttlæti séu að taka yfir. Því verðum við að breyta. Við þurfum að hækka launin. Við þurfum að auka kaupmáttinn. Við þurfum að tryggja öllum viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði. Við þurfum að koma á fjölskylduvænna samfélagi svo að ungt fólk öðlist trú á að hér sé best að vera.“

Elín Björg fangaði þeim mikla stuðningi sem kröfur stéttarfélaganna hafa fengið hjá almenningi að undanförnu og að nauðsynlegt væri að hækka laun almenns launafólks umtalsvert.

„Þær kröfur sem nú hafa verið settar fram af samtökum launafólks eru eðlilega ekki allar samhljóða og erfitt er að ráða í hver útkoma yfirstandandi kjaraviðræðna verður. En skoðanakönnun sem kynnt var fyrr í vikunni sýnir að rúmlega 90% landsmanna styðja sanngjarnar kröfur verkalýðshreyfingarinnar um hækkun lægstu launa. Það er því mikil og víðtæk stuðningsyfirlýsing við kröfur launafólks sem skiptir máli í baráttunni sem er framundan. Sanngjarnar hækkanir launa almenns launafólks eru nauðsynlegar. Og þær munu aðeins færa kjörin nær þeim viðmiðum sem stjórnvöld sjálf hafa skilgreint sem lágmarks framfærslu. Slíkar kröfur geta eðli málsins samkvæmt aldrei talist ósanngjarnar,“ sagði formaður BSRB sem tók það jafnframt fram að ríkisstjórnin, sveitastjórnir og atvinnurekendur yrðu að hlusta á kröfur launafólks og leggja sitt af mörkum til að búa til réttlátara þjóðfélag.

„Ég vona að ríkisstjórnin, sveitastjórnir landsins og launagreiðendur allir hlýði á kall launafólks.Kalli um réttlátara þjóðfélag þar sem jöfnuður allra er hafður að leiðarljósi.Fólk þarf hærri laun. Það á að tryggja öllum jöfn tækifæri. Allir eiga að geta búið í viðunandi húsnæði á viðunandi verði. Við förum fram á sanngjarnari skiptingu gæðanna. Enginn á að líða skort. Við búum yfir nægum auði í þessu landi til að svo geti orðið. Og með samstöðunni getum við búið þannig um að svo verði. Samstaðan er það afl sem getur breytt samfélaginu til hins betra. Okkur tókst það fyrr á tímum, og okkur tekst það í framtíðinni. Saman getum við reist betra samfélag, réttlátara samfélag,“ sagði formaður BSRB að lokum.

Ræðu Elínar Bjargar Jónsdóttur formanns BSRB má nálgast í heild sinni hér.

 

 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?