Ræða formanns á mótmælunum á Austurvelli

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Aðgerðir fyrir heimilin strax!

Við erum hér samankomin til að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda. Háir vextir og verðbólga hafa haft alvarleg áhrif á heimilin. Við komum hér saman í dag til að færa fram kröfur okkar.

Eitt meginverkefni stéttarfélaga í áranna rás hefur falist í því að vekja vinnandi fólk til meðvitundar um vald sitt til að knýja fram breytingar á samfélaginu. Samfélag á forsendum fjöldans en ekki þeirra fáu.

Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði Daniel Kahneman hefur bent á að meginábyrgð samfélaga sé að draga úr þjáningu. Oft er talað um að auka þurfi hamingju en þetta sjónarhorn á þjáninguna er mikilvægt til að aðgerðir stjórnvalda beinist á rétta staði. Mikilvægasta verkefni stjórnvalda er því að auka velferð.

En hvaða hópar eru það sem við þurfum helst að beina sjónum okkar að? Hvaða hópar eru það sem bera þyngstu byrðarnar vegna verðbólgu, vaxta, niðurskurðar og aðhaldsstefnu?

  • Staða foreldra fer versnandi sem endurspeglast í því að æ fleiri geta ekki staðið undir grunnþörfum barna sinna og börn eru sá hópur sem er líklegastur til að búa við fátækt,
  • Fjárhagsstaða kvenna er verri en karla og konur eru háðari maka um framfærslu en karlar. Þá er andleg heilsa ungra kvenna og einstæðra mæðra áberandi verri en annarra hópa á vinnumarkaðnum.
  • Stéttskipting er að aukast sem birtist í því að staða innflytjenda er verri en innfæddra Íslendinga.

 

Viljum við hafa þetta svona?

 

Verðbólga og vextir snerta þessa hópa verst en bitna einnig á öllu launafólki. Róðurinn er bara að þyngjast og fólk er hætt að trúa því að ástandið geti batnað.

Meirihluti launafólks hefur lagt sitt af mörkum til að tryggja stöðugleika með gerð hóflegra kjarasamninga.

 

Nú er komið að stjórnvöldum.

 

Hvaða skref þurfa þau að taka núna til að skapa samfélag mennsku, jafnréttis og jöfnuðar?

Stjórnvöld verða að standa við loforð um uppbyggingu húsnæðis til að stemma stigu við verðbólgunni og tryggja húsnæðisöryggi fyrir öll.

Stjórnvöld verða að veita þeim sem selja okkur mat og aðrar nauðsynjar aðhald og tryggja virka samkeppni.

En ríkissjóð vantar tekjur og þeirra er hægt að afla með því að skattleggja breiðu bökin.

Þannig drögum við úr þenslu þeirra ríku og fáum tekjur til að greiða niður skuldir, styrkja velferðarkerfið og auka stuðning við barnafjölskyldur.

Fjárfesting í velferðarkerfinu er besta fjárfestingin í friði og öryggi.

Við munum ekki sætta okkur við áframhaldandi aðhaldskröfu til heilbrigðisstofnana, félagsþjónustu og skóla.

Við höfnum ríkjandi stefnu sem enn eina ferðina er staðfest í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Stefnu sem dregur úr félagslegri samheldni.

Allt tal um hagvöxt og verðmætasköpun er hjómið eitt ef ekkert er hugað að skiptingu verðmætanna til að draga úr þjáningu og efla velferð.

Framfarir verða ekki af sjálfu sér; bætt lífsgæði frá kynslóð til kynslóðar er ekki náttúrulögmál. Við verðum að horfast í augu við að í okkar litla, ríka samfélagi þrífst ójöfnuður og stéttskipting og metnað virðist vanta til að takast á við þann vanda.

Það er val að viðhalda óbreyttu ástandi í stað þess að vinna markvisst að framtíðarsamfélagi fyrir öll sem einkennist af mennsku.

Það er með samstöðunni sem við náum fram breytingum og sköpum réttlátt samfélag. Nú snúum við píramídanum við – við knýjum fram áherslur á þarfir fjöldans en ekki forréttindahópa.

 

Aðgerðir fyrir heimilin strax!


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?