Ráðstefna NTR á Íslandi

Árleg ráðstefna NTR, Nordisk Tjänstemannsråd, fer að þessu sinni fram í Reykjavík dagana 25. til 28. ágúst á Hilton Reykjavík Nordica. NTR eru samtök bæjarstarfsmanna á Norðurlöndum og tæplega 100 fulltrúar frá Íslandi, Færeyjum Noregi, Svíþjóð og Danmörku munu taka þátt.

Meðal þeirra sem verða með erindi á ráðstefnunni eru Marit Nybakk, forseti Norðurlandaráðs, en yfirskrift erindis hennar er „Tækifæri og áskoranir á óvissutímum 21. aldarinnar“. Þar mun hún sérstaklega víkja að mögulegri þróun norrænu samfélaganna á komandi árum, aukna fjölbreytni samfélaganna og hvernig hægt er að takast á við þær miklu breytingar sem hafa orðið á Norðurlöndum á síðustu áratugum og fyrirséð er að verði í framtíðinni.

Marit Nybakk hefur átt sæti á norska Stórþinginu frá árinu 1985 og hefur verið einn forseta þingsins frá árinu 2009. Erindi hennar verður á Hilton Reykjavík Nordica þriðjudaginn  27. ágúst frá kl. 9:00 – 9:45 og er fjölmiðlum velkomið að hlýða á erindið.

Síðar sama dag mun rithöfundurinn og blaðamaðurinn Lars Olsen flytja erindi um ójöfnuð og nærræna velferðarkerfið. Þar mun Lars Olsen segja frá rannsóknum sínum á auknu misrétti á Norðurlöndum, hvaða áhrif það hefur haft á öryggi íbúa landanna, pólitískar afleiðingar þessa og hvaða áhrif þetta hefur á stefnumótun stéttarfélaga á Norðurlöndum.

Daginn áður, mánudaginn 26. ágúst, verður hins vegar sérstaklega fjallað um fjármála- og efnahagskreppuna á Íslandi í norrænu samhengi. Þeir sem munu halda erindi undir þeim lið eru Birgitta Jónsdóttir þingmaður pírata, Katrín Ólafsdóttir lektor við Háskólann í Reykjavík og Andri Snær Magnason rithöfundur.

Auk þess að hlíða á erindi fyrrnefndra aðila munu þátttakendur ráðstefnunnar taka þátt í umræðum sín á milli og heimsækja nokkra vinnustaði á Íslandi. Tilgangur heimsóknanna er að leyfa erlendu gestunum að eiga samtöl við starfsfólk og heyra frá fyrstu hendi hvaða áhrif efnahagsþrengingarnar hafa haft á þeirra vinnustaði, starfsfólkið og samfélagið í heild.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?