BSRB hefur ásamt Bandalagi háskólamanna (BHM) og Kennarasambandi Íslands (KÍ) undirritað samkomulag við ríki og sveitarfélög um nýtt lífeyriskerfi. Með þessu samkomulagi er tryggt að allt launafólk í landinu njóti sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Réttindi núverandi sjóðsfélaga haldast óbreytt, auk þess sem ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að leiðrétta launamun milli opinbera vinnumarkaðarins og hins almenna.
Með samkomulaginu hefur lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verið fullfjármagnað og verður það hér eftir sjálfbært. Til að svo megi verða leggja ríki og sveitarfélög samtals um 120 milljarða króna í sérstaka lífeyrisaukasjóði. Legið hefur fyrir lengi að fyrirkomulag lífeyrismála opinberra starfsmanna væri ósjálfbært og því ljóst að óbreytt ástand gæti ekki gengið áfram.
Engin breyting fyrir sjóðfélaga
Það hefur verið markmið BSRB og annarra bandalaga opinberra starfsmanna frá upphafi að tryggja réttindi núverandi sjóðfélaga og að gæta hagsmuna þeirra félagsmanna sem nýtt kerfi mun ná til. Samkomulagið nær til þeirra sem greitt hafa í A-deild LSR (Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins) og Brúar (Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga). Með því er tryggt að þeir halda óbreyttri ávinnslu og engin breyting verður á þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér.
Í nýju lífeyriskerfi verður aldurstenging réttinda grundvallarreglan, en hún hefur verið við lýði á almennum markaði síðastliðinn áratug. Þá verður lífeyrisaldur opinberra starfsmanna hækkaður úr 65 árum í 67. Þrátt fyrir það er tryggt að núverandi sjóðfélaga haldi öllum sínum réttindum og geti eftir sem áður farið á eftirlaun 65 ára, kjósi þeir að gera það.
Launakjör verða jöfnuð
BSRB, eins og önnur bandalög opinberra starfsmanna, hefur lagt þunga áherslu á að samhliða breytingum á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verði launakjör þeirra jöfnuð við það sem þekkist á almenna markaðinum. Í því samkomulagi sem nú hefur verið undirritað hafa ríki og sveitarfélög skuldbundið sig til að leiðrétta launamun á milli opinbera markaðarins og hins almenna. Sú vinna á að taka að hámarki 10 ár.
Launagreiðendur hafa skuldbundið sig til að leggja fram fjármuni svo markmiðið náist innan tilsettra tímamarka. Ákvæði um jöfnun launa voru algert skilyrði fyrir því að BSRB samþykkti breytingar á lífeyriskerfinu. Bandalagið mun því fylgja þessum hluta samkomulagsins vel eftir til að tryggja að leiðrétting á launum nái fram að ganga.
Sátt á vinnumarkaði
Eitt af meginmarkmiðum BSRB og annarra bandalaga opinberra starfsmanna með samkomulagi um framtíðarskipan lífeyrismála hefur verið að ná sátt á vinnumarkaði. Breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna hafa verið flókið og umfangsmikið viðfangsefni. Þar hafa bandalög opinberra starfsmanna gætt að því að ana ekki að neinu og staðið vörð um þau mikilvægu réttindi sem félagar í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna hafa áunnið sér.
Unnið hefur verið að því að ná samkomulagi um nýtt lífeyriskerfi frá því stöðugleikasáttmáli aðila á vinnumarkaði var undirritað árið 2009. Fjallað hefur verið um stöðuna í viðræðum á fundum og þingum BSRB frá þeim tíma og ávalt verið ákveðið að hagsmunum félaga í aðildarfélögum bandalagsins verði best borgið með því að halda þessari vinnu áfram. Það er því stór áfangi að þetta mál sé nú komið í höfn og búið að undirrita samkomulag um nýtt lífeyriskerfi.