Nærri 9 af hverjum 10 ánægð með þjónustu VIRK

Yfirgnæfandi meirihluti þjónustuþega eru ánægðir með sinn ráðgjafa.

Um 87 prósent þeirra sem notið hafa þjónustu VIRK eru ánægð með þjónustuna sem þau hafa fengið, samkvæmt þjónustukönnun sem gerð var meðal þjónustuþega sem luku starfsendurhæfingu á fyrri helmingi ársins 2020. Um 7 prósent sögðust hvorki ánægð né óánægð og um 6 prósent sögðust óánægð með þjónustuna, eins og fram kemur í frétt á vef VIRK.

Frá því í mars hefur sérstaklega verið spurt hversu vel eða illa þjónustuþegum finnist VIRK hafa aðlagað þjónustuna að þörfum þeirra á tímum COVID-19 faraldursins. Þar sögðust um 87 prósent telja að vel hafi tekist til að aðlaga þjónustuna.

Ánægja þjónustuþega með sinn ráðgjafa var afar mikil, samkvæmt könnuninni. Meira en níu af hverjum tíu sögðu viðmót ráðgjafans gott, að þeir standi sig vel í hvatningu og að þeir treysti sínum ráðgjafa. Almennt kemur fram í könnuninni að þjónustuþegarnir telji að þjónusta VIRK hafi haft mikil áhrif á þeirra stöðu og að við lok þjónustu sé sjálfsmynd þeirra sterkari, starfsgeta meiri og líkamleg og andleg heilsa betri.

VIRK starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignarstofnun sem aðilar vinnumarkaðarins stofnuðu í kjölfar bankahrunsins 2008 í þeim tilgangi að koma á nýju fyrirkomulagi starfsendurhæfingar á Íslandi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?