Fleiri þurfa leiðréttingu á launum vegna mikils álags í starfi en fámennur hópur hálaunafólks hjá ráðuneytunum, segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðið í dag.
Þar fjallar Elín Björg um þá ákvörðun kjararáðs að hækka laun ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra hjá ráðuneytunum verulega með þeim rökum að álag hafi aukist hjá þessum starfsmönnum. Elín segist ekki deila um að álagið á þessa starfsmenn hafi aukist, en segir það sama eiga við um fjölmarga aðra starfsmenn. Þeir hljóti nú að gera kröfur um sambærilegar hækkanir.
Lesa má grein Elínar í heild sinni hér að neðan, eða á vef Vísis.
Fleiri þurfa leiðréttingu
Kjararáð ákvað í júní að hækka laun ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra ráðuneyta um tugi prósenta. Rökin fyrir þeirri hækkun voru þau að álag í starfi þessa fámenna hóps hálaunafólks hafi aukist verulega. Engin ástæða er til að rengja að svo sé, en rétt að benda á að það sama á við um fjölmarga aðra hópa sem hljóta nú að krefjast sambærilegrar leiðréttingar.
Kröfur um leiðréttingu á launum vegna aukins álags hafa hingað til átt lítinn hljómgrunn meðal hins opinbera eða vinnuveitenda á almenna markaðinum. Félag íslenskra flugumferðarstjóra benti til að mynda ítrekað á aukið álag á þeirra félagsmenn í kjaraviðræðum við Isavia. Enginn áhugi var á að bregðast við auknu álagi þar með því að hækka laun. Þess í stað settu stjórnvöld lög á hóflegar aðgerðir sem félagið hafði staðið fyrir til að leggja áherslu á kröfur sínar.
Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum yfir stéttir sem upplifað hafa verulega aukið álag í starfi á undanförnum árum. Nú þegar kjararáð hefur sett fordæmi um tuga prósenta launahækkanir vegna aukins álags í starfi er ljóst hverjar kröfur þeirra hópa verða.
Það verður auðvitað ekki látið líðast að venjulegt launafólk eigi enn og aftur að bera ábyrgð á því að viðhalda stöðugleika á meðan aðrir fá ríflegar launahækkanir.
Fagna breytingum fjármálaráðherra
Það er fagnaðarefni að fjármálaráðherra boði verulegar breytingar á kjararáði og að hundruð starfsmanna sem nú heyri undir ráðið eigi á ný að fá samningsrétt.
BSRB telur löngu tímabært að fækka þeim verulega sem heyra undir kjararáð, sem ákveður einhliða kjör allt of margra starfsmanna. Það er grundvallarréttur launafólks að semja um kaup og kjör og óþolandi að búa við að kjararáð skammti þeim kaup og kjör eftir hentugleika.
En það sama á auðvitað við um gerðardóm sem nú mun ákvarða laun flugumferðarstjóra í kjölfar lagasetningar stjórnvalda. Það er jafn óþolandi að rétturinn til að semja um kaup og kjör sé tekinn af heilu stéttunum með slíkri lagasetningu í boði stjórnvalda.