Norðurlandaráðsþing fór fram í Reykjavík í lok október. Í tengslum við það var haldinn sérfræðingafundur með þátttakendum frá Norðurlöndunum og Þýskalandi þar sem fjallað var um launajafnrétti og virðismat kvennastarfa.
Á fundinum voru ýmsir fyrirlestrar og pallborð með þátttöku fulltrúa stéttarfélaganna og sérfræðinga úr háskólasamfélaginu. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, var með erindi um þá vinnu sem stendur yfir hér á landi varðandi endurmat á virði kvennastarfa. Hér má lesa ræðu Sonju í heild sinni.
Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur BSRB, tók þátt í pallborði í umræðum um skýrslu NFS.
Á fundinum voru kynntar tvær nýjar skýrslur:
- Annars vegar skýrsla sem NFS, Friedrich Ebert Stiftung og þýsku heildarsamtökin DGB hafa unnið að undanförnu og BSRB hefur tekið fullan þátt í. Í henni er fjallað um launajafnrétti í þessum sex löndum og nefnd ýmis dæmi um aðgerðir í einstökum löndum sem hafa gagnast. Hvað Ísland varðar er m.a. fjallað um starfsmatið hjá sveitarfélögum og styttingu vinnuvikunnar. Skýrslan er skrifuð út frá sjónarhorni stéttarfélaga og fókusinn er nokkuð breiður, þar sem fjallað er um fæðingarorlof, dagvistun og ólaunaða vinnu svo dæmi séu tekin. Launajafnrétti verður ekki náð án þess að gripið sé til aðgerða á ýmsum sviðum. Skýrslunni fylgja tillögur að stefnumörkun frá stéttarfélögunum og eru ýmsar aðgerðir nefndar þar. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins þurfa að leggja áherslu á að útrýma launamuni kynjanna og endurmeta kvennastörf.
- Þá var einnig kynnt ný skýrsla frá NIKK um launajafnrétti og jafnvirðisnálgun þar sem er fjallað um stöðuna á Norðurlöndum og farið yfir hvernig tilskipun ESB um launagagnsæi, sem samþykkt var á síðasta ári, mun breyta stöðunni. Einnig voru kynntar nýjar leiðir til þess að afla tölfræði um launamun kynjanna sem stafar af vanmati kvennastétta.
Af báðum skýrslunum er ljóst að setja þarf mun meiri fókus á að leiðrétta vanmat kvennastarfa ef launajafnrétti á að nást. Aðgerðir síðustu ára hafa frekar miðað að því að tryggja jöfn laun fyrir sömu störf eða innan vinnustaða en árangur mun ekki nást fyrr en við förum að bera saman karla- og kvennastéttir þvert á vinnustaði og tökum sérstakt tillit til þeirra þátta sem einkenna hefðbundin kvennastörf.