Réttindi launafólks tengd COVID-19 faraldrinum geta verið mismunandi eftir vinnustöðum. Nú þegar ljóst er að heimsbyggðin öll þarf að lifa með þessum faraldri í talsverðan tíma er gott að rifja upp helstu atriðin.
Sóttkví þeirra sem eru smitaðir eða hafa komist í snertingu við þá sem eru með smit er eitt áhrifaríkasta tækið til að takmarka úrbreiðslu COVID-19. Þess vegna voru sett lög um tímabundnar greiðslur vegna launa fólks í sóttkví sem tryggja þeim sem geta ekki sinnt vinnu sinni í sóttkví laun á meðan á henni stendur. Það á líka við um einstaklinga sem eiga börn yngri en 13 ára sem þurfa að fara í sóttkví.
Fólk með undirliggjandi sjúkdóma getur þurft að vera í sóttkví þó það hafi ekki átt í samneyti við smitaðan einstakling, en til að viðkomandi eigi rétt á launum í sóttkví þarf hún að vera samkvæmt fyrirmælum læknis. Ekki dugir að starfsmaðurinn sjálfur ákveði að vera heima.
Þeir sem smitast af COVID-19 eiga rétt á launum í veikindum rétt eins og í öðrum tilvikum þar sem starfsfólk veikist.
Fjölmargir starfsstaðir hafa undanfarið þurft að gera ráðstafanir til að auka öryggi starfsmanna. Á opinberum vinnustöðum þarf til dæmis að tryggja að hægt sé að virða tveggja metra regluna, og að í þeim tilvikum sem það er ekki hægt sé annar hlífðarbúnaður á borð við hanska og grímur notaður.
BSRB hefur tekið saman algengar spurningar og svör um réttindi launafólks vegna COVID, sem gott getur verið að kynna sér. Þar er fjallað um laun í sóttkví, lækkað starfshlutfall, vinnu utan starfsstöðvar og fleiri atriði sem gott er að kynna sér.
Hægt er að smella á myndina hér að neðan til að skoða spurningar og svör vegna COVID-19.