Konur í meirihluta útskrifaðra lögreglumanna

Sextán lögreglumenn voru útskrifaðir úr Lögregluskóla ríkisins fyrir helgi. Ellefu konur eru í hópnum og er hlutfall kvenna í lögreglu nú kringum 13%.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp við útskriftarathöfnina og sagði meðal annars ánægjulegt hversu margar konur væru í hópnum. Ráðherra minntist á tillögur starfshóps um breytingu á menntun lögreglumanna þar sem gert væri ráð fyrir að námið yrði þriggja ára nám á háskólastigi. Sagði hún það grundvallarbreytingu á menntun lögreglumanna enda væri það stefna stjórnvalda að efla löggæsluna og að lögreglan væri ávallt sem hæfust til að takast á við fjölbreytt verkefni. Fram kom í máli hennar að hún myndi meta tillögurnar á næstunni.

Karl Gauti Hjaltason, skólastjóri Lögregluskólans, flutti einnig ávarp og sagði að námið hefði breyst mikið gegnum árin og verið lagað að kröfum tímans. Hann sagði hlutverk skólans þýðingarmikið í endurmenntun lögreglumanna og nefndi sem dæmi að á árinu hefðu kringum 700 lögreglumenn setið 20 námskeið í því skyni bæði hérlendis og erlendis. Skólastjórinn sagði breytingar á náminu í farvatninu í kjölfar tillagna starfshóps ráðherra um framtíðarskipan grunnmenntunar lögreglumanna. Í lokin sagði hann lögregluna ítrekað hafa mælst með eitt mesta traust allra stofnana landsins og mikilvægt væri að varðveita það fjöregg sem slíkt traust væri.


 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?